Í tilefni 60 ára vígsluafmælis Neskirkju lítum við til baka og horfum í kringum okkur. Þrjár kvöldstundir fjöllum við um þennan helgidóm, sögu hans, útlit og innviði. Neskirkja markaði tímamót á ýmsan hátt, bæði hin nýja borgarsókn og svo hið móderníska útlit kirkjunnar. Þá er eitt af stærstu glerverkum Gerðar Helgadóttur að finna inni í kirkjunni. Eins og á við um flest mannleg verk, tengjast ýmsar sögur þessari byggingu og hún hefur sjálf ekki farið varhluta af þeim breytingum sem orðið hafa í umhverfi hennar.
Tímamótakvöldin hefjast kl. 19.57 og eru á fimmtudögum eins og áður segir.
23. febrúar. Dr. Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu, flytur erindi um þéttbýlismyndun og aðdraganda þess að Reykjavík var skipt upp í fjórar sóknir, Dómkirkju-, Laugarnes-, Hallgríms- og Nessókn.
2. mars. Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, listrænn stjórnandi Gerðarsafns í Kópavogi, ræðir verk Gerðar Helgadóttur í Neskirkju. Glerlistaverkið við suðurgluggann í kirkjuskipinu er eitt af stærstu verkum listamannsins og er þar að auki með þeim síðustu sem Gerður vann.
9. mars. Pétur Ármannsson, arkitekt, ræðir sögu, hönnun og útlit Neskirkju sem olli talsverðum deilum.