Ertu tímamótamanneskja? Þetta er nú dálítið tvíræð spurning og gæti ýtt undir mikilmennskukennd hjá einhverjum. Sú er ekki ætlunin heldur er meiningin með henni þessi: Viltu halda upp á tímamótin í lífi þínu?

Þegar gamla árið kveður er heilsusamlegt að staldra við og gera upp ár og lífsgöngu. Hvernig viljum við lifa á nýju ári? Í aftansöng gamlársdags verður fjallað um þjóðsöng Íslendinga, tárin þrjú í þeim söng og gleðiefni nýs árs. Í lok athafnarinnar verður árið kvatt með táknrænum hætti og gengið með fararblessun inn í nýtt ár. Aftansöngurinn hefst kl. 18 og er að sjálfsögðu öllum opinn, ekki síst þeim sem er umhugað um lífsgæði og þverrandi tár.

Nýársdagur heitir Áttidagur jóla samkvæmt kirkjuhefð en þá er íhugunarefnið umskurn Krists og nafngjöf. Nafnið Jesús er máttugt nafn og gott er að hefja nýtt ár með það góða nafn yfir sér og sínum. En með hvaða hætti varpar nafnið Jesús ljósi á athafnir okkar og afstöðu til lífsins, til samferðafólks og umheims? Í prédikun á nýársdag verður leitast við að skoða málefni á vettvangi stjórnmála hér heima og úti í hinum stóra heimi í ljósi kristinnar trúar. Höfum við gengið götuna til góðs? Hvert stefnum við?

Helgihaldið í Neskirkju um áramótin verður sem hér segir:

Gamlárskvöld
Aftansöngur kl. 18. Dr. Sigurður Árni Þórðarson prédikar og þjónar fyrir altari. Messusöngur séra Bjarna Þorsteinssonar. Organisti Steingrímur Þórhallsson. Kór Neskirkju syngur. Áki Ásgeirsson leikur á trompet. Meðhjálpari Rúnar Reynisson.

Nýársdagur
Hátíðarmessa kl. 14. Séra Örn Bárður Jónsson prédikar og þjónar fyrir altari. Organisti Steingrímur Þórhallsson. Kór Neskirkju syngur. Einsöngvari Hrólfur Sæmundsson.