Myndlistasýning með verkum Hrafnkels Sigurðssonar verður opnuð formlega á Kirkjutorgi sunnudaginn 13. mars. Messað er kl. 11:00 og ræðir sr. Skúli S. Ólafsson, sóknarprestur um verkin í predikun sinni. Að messu lokinni er boðið upp á kaffveitingar á Kirkjutorgi og þar ávarpar Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt og nefndarmaður í Sjónlistaráði Neskirkju, gesti og fjallar um sýninguna.
Hrafnkell Sigurðsson (f. 1963) nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, síðan við Jan Van Eyck Akademie í Maastricht og Goldsmiths College í London. Hann hefur haldið fjölmargar sýningar á ljósmyndum og kvikmyndaverkum sínum víða um heim og verk hans er að finna á opinberum söfnum á meginlandi Evrópu, í Bandaríkjunum og á Íslandi. Árið 2014 kom út hjá bókaforlaginu Crymogea bókin Lucid með öllum ljósmyndaverkum Hrafnkels.
Hrafnkell hefur um árabil verið einn athyglisverðasti listamaður Íslendinga, ekki síst vegna þess hvernig hann vinnur með ljósmyndamiðilinn sem tjáningarform vegna inntaksins fremur en sjálfrar tækninnar. Ljósmyndaraðir hans eru kunnar langt út fyrir raðir listáhugafólks. Hrafnkell þróar myndmál sitt stöðugt, allt frá hinu smæsta í efninu til víðáttunnar í náttúru Íslands, og einnig með manngerðri náttúru í borgum og bæjum þar sem sorppokar og snjóhrúgur taka á sig mynd náttúrulegra skúlptúra.