Fimmtudaginn 28. maí kl. 16:30 fer því fram samtal á Kirkjutorgi, í safnaðarheimili Neskirkju, þar sem dr. Róbert Jack heimspekingur opnar á umræðu um þjónandi forystu og mannlegan þroska.
Þarna gefst Vesturbæingum og öðru áhugafólki um mannlegt líf og gæði þess, tækifæri til að hlusta, spjalla og hugsa um þætti eins og markmið, leiðtogasýn, þroskastig fólks og samfélags og annað sem kann að bera á góma í samtalinu.
Róbert Jack er með doktorspróf í heimspeki frá Háskóla Íslands. Auk doktorsritgerðarinnar sem fjallar um hugmyndir Platons um að verða betri manneskja, hefur hann sent frá sér kennslubókin Heimspeki fyrir þig (ásamt Ármanni Halldórssyni), ljóðabókina Ljóðnæði og Hversdagsheimspeki sem fjallar meðal annars um nútímalegar samræðuaðferðir. Dæmi um þessar aðferðir eru heimspekikaffihúsið og heimspekileg ráðgjöf sem Róbert hefur gert tilraunir með.