Sunnudaginn 15. febrúar, í kjölfar messu sem hefst kl. 11 verður sýning Einars Garibaldi, Impression, opnuð á Torginu. Um sýninguna segir Einar: „Fyrirmynd verkanna á sýningunni er að finna á götukorti af Reykjavík, en þar hafa nokkrir áhugaverðir staðir í borginni verið dregnir fram með lítilli þrívíddarmynd. Einn þessara staða er Neskirkja og hefur þessi litla og stílfærða mynd verið mér sem vegvísir í malerískri leit að sóknarkirkju minni.“

Impression

„Ég er niðurbrotinn, ég get ekki meir,
[…] næturnar eru fullar af martröðum:
það er dómkirkjan sem hrynur yfir mig,
gul og rauð og blá“.
Claude Monet
Fyrirmynd verkanna á sýningunni er að finna á götukorti af Reykjavík, en þar hafa nokkrir áhugaverðir staðir í borginni verið dregnir fram með lítilli þrívíddarmynd. Einn þessara staða er Neskirkja og hefur þessi litla og stílfærða mynd verið mér sem vegvísir í malerískri leit að sóknarkirkju minni.
Í annan stað vísa verkin í kunna myndaröð franska impressionistans Claude Monet af forhlið Dómkirkjunnar í Rúðuborg. Röð tæplega þrjátíu mynda sem hann gerði skömmu fyrir aldamótin 1900 og birta okkur mismunandi blæbrigði ljóss og lita, vegna ólíkra áhrifa veðurs og birtuskilyrða yfir daginn.
Auk þess að lýsa fyrir okkur því fjölbreytta sjónarspili sem við honum blasti frammi fyrir kirkjunni, tekst Monet við það verkefni að tjá tilvistarlegar vangaveltur sínar með vísindalegri nákvæmni, þar sem hann skráir upplifanir sínar með því einu að hræra pensilinn.
Fyrirmynd Monet ekki aðeins forhlið dómkirkjunnar í Rúðuborg, heldur þær spurningar sem leita á sérhvern einstakling sem lifir. Spurningar þar sem form og litir skilja eftir sig djúphygla rannsókn á tilvist mannsins. Leit sem varðar ekki fyrirmynd málverksins, heldur þess sem liggur á milli málarans og viðfangsins, sjálfa upplifunina.
Monet er oft talinn faðir impressionismans og myndir af verkum hans er að finna í sérhverri bók um nútíma málarlist. Þar er Rúðuborgarserían engin undantekning og efirmyndir hennar eru endurteknar út í hið óendanlega, allt þar til þær hafa glatað áru sinni og öðlast sjálfstætt líf í endurgerðinni.
Á tímum leitarstrengja og snjalltækja er það í þessara fjöldaframleiddu eftirmynd sem við upplifum Dómkirkjuna í Rúðuborg. Impressionismi Monets löngu horfinn. Martröð sem skekur mig. Málverk mín, gul og rauð og blá, glórulaus tilraun til að nálgast veruleikann á ný.
– – – –
„Ég er málari sem gerir myndir af myndum. Ég tengist heiminum í gegnum gjörðina að mála. Ég er umlukinn rými málverksins frá því augnabliki að ég tek upp pensilinn. Ber striginn er langt frá því að vera auður. Á vinnustofunni heyri ég raddir, ég finn angan lita er bera nöfn genginna meistara. Upphafið er hér, hefð málverksins. Mynd eftir mynd, þar sem ekkert er upp fundið“.
Einar Garibaldi