Guðsríkið sprengir beinhart réttlætið. Í nútímaaðstæðum getum við séð í týnda syninum fólk af öllum gerðum og tegundum, fólk úr mismunandi hefðum og átrúnaði, sukkara, fjárplóga, misindismenn, fólk úr öllum stéttum og líka mestu bölvalda fólks. Sá guð sem Jesús Kristur sýnir okkur er hinn stóri Guð elskunnar sem faðmar alla. Uppskriftin fyrir veislu týnda sonarins er að baki smellunni.
Týnda syninum fagnað
800 gr fitulaust, gott kjöt
2 msk furuhnetur
2 msk estragon
1 tsk basilika
1 tsk rósmarín
2 tsk Maldonsalt
1 tsk svartur pipar
4 msk ólívuolía
15 smátt skornar döðlur
3 msk þurrkaðir ávextir – t.d. apríkósur eða það sem þér finnst gott!
1 stór rauðlaukur
6 hvítlauksbátar
2 perur
Furuhnetur, kryddið, ólífuolía og hvítlaukur sett í matvinnsluvél, malað og úr verður þykkur grautur. Lambakjötið skorið í 2 cm teningar sem eru settir í kryddgrautinn og séð til að allar hliðar kjötbitanna séu vel þaktar. Síðan er kjötið steikt á snarpheitri pönnu og þegar kjötið er farið að brúnast er smátt skornum lauk, döðlum bætt í. Þess gætt að ekki brenni og svo það sem efir er af hráefni síðasta út í. Lágur hiti og til að varna bruna er vatni bætt á pönnuna. Þegar fullsteikt er ráð að slökkva undir og leyfa matnum að standa góða stund. Það hjálpar þurrkuðu ávöxtunum að koma til og smita út sínu bragði.
Kúskús er gott meðlæti og kannski líka litsterkt ávaxtasalat.
Það er alltaf spuni í mínum elda- og pottamálum. Uppskriftin er skráð skv. brigðulu minni og vel getur verið að hlutföll hafi verið eitthvað önnur en hér er ritað.
Síðan er skemmtileg útgáfa að skera hráefnið til þræðingar á spjót og grilla síðan.
Verði ykkur að góðu – góð ferð í nammiland Biblíunnar.
Þökkum Drottni, því að hann er góður – því að miskunn hans varir að eilífu. Amen.