Milliþinganefnd og framtíðarhópur kirkjuþings boða til málþings föstudaginn 25. mars milli 12 og 14 á Torginu í Neskirkju, undir yfirskriftinni Þjóðkirkjan okkar – hvert stefnir?Þjóðin varð fyrir höggi á haustmánuðum 2008 þegar fjármálahrun dundi yfir. Í kjölfarið sigldi fjöldi gjaldþrota, atvinnuleysi og upplausn eins og allir þekkja. Kannanir sýna að hruninu fylgdi almennur trúnaðarbrestur. Flestar stoðir samfélagsins urðu fyrir álitshnekki. Þjóðarpúls Gallups hefur mælt „traust“ til lykilstofnana um árabil. Sá mælikvarði sýnir þá gjá sem myndaðist milli almennings og þeirra. Sömu kannanir sýna að „traust“ til Þjóðkirkjunnar er í sögulegu lágmarki.
Til að ræða stöðu og framtíð Þjóðkirkjunnar í ljósi þessa er boðað til málþings þann 25. mars næstkomandi milli kl. 12 og 14 á Torginu í Neskirkju. Frummælendur eru Hulda Guðmundsdóttir fv. kirkjuþingsfulltrúi, Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur, Ilmur Kristjánsdóttir leikkona, Ævar Kjartansson útvarpsmaður, Jóhann Páll Valdimarsson bókaútgefandi og Kolbrún Halldórsdóttir forseti Bandalags íslenskra listamanna.
Að loknum framsögum mun Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri Fréttablaðsins bregðast stuttlega við þeim. Síðan er opið fyrir umræður/spurningar úr sal. Fólk er hvatt til að mæta og taka þátt í umræðum. Hægt er að kaupa, kaffi, súpu og saltfisk á staðnum.