Kór Neskirkju mun fagna vori og batnandi tíð með tónleikum miðvikudagskvöldið 2. júní kl 20:00 í Neskirkju. Flutt verða nokkur verk eftir ýmis tónskáld. Má þar nefna endurreisnartónskáldið G.P. da Palestrina, hinn alkunnuga J.S. Bach og síðast en ekki síst Steingrím Þórhallsson, stjórnanda kórsins. Meðal verka eftir þann síðastnefnda eru lög sem hann samdi við nokkur ljóð eftir Snorra Hjartarson, en safn tónverka Steingríms við 12 ljóð eftir Snorra var frumflutt í heild sinni á vortónleikum Kórs Neskirkju um árið. Stjórnandi er Steingrímur Þórhallsson. Aðgangur er ókeypis og öll innilega velkomin að koma og njóta kvöldsins með okkur.