Sunnudaginn 10. mars kl. 11:00 opnar sýning Guðmundar Ingólfssonar á Torginu í Neskirkju. Fjallað er um verkin í predikun og að messu lokinni ganga sýningargestir á Torgið.
Um myndirnar á sýningunni segir Guðmundur: „Myndirnar af innrýmum lýsis- og olíutanka eru að mestu frá árunum 1993–2000 en enn er verið að leita að fleiri tönkum. Þær voru allar sýndar í ROM í Osló 2005 og eru þessi eintök þau sömu og sýnd voru þar. Ég var og er að leita að framandi rýmum sem gera sig með ljósinu. Prentin eru á ekta brómsilfur úr myrkraherbergi. Landslagið er allt ljósmyndað á árinu 2018, sem sagt í sumar sem leið. Ljósmyndað var á filmu en gerð skönn og síðan prentað með bleksprautuprentara. Ísland er orðið að gósenlandi ljósmyndandi túrhesta, sem ljósmynda nær allir sömu staðina. Ég setti mér fyrir að leita að einhverju verulega hversdagslegu og að ljósmynda það eins einfaldlega og mér væri fært og að fara um suður og suðvesturland eins og aðrir á faraldsfæti.“
Guðmundur Ingólfsson segir frá verkum sínum föstudaginn langa, 19. apríl, í framhaldi af helgistund sem hefst kl. 11.00. Samtalið fer fram á Torginu í Safnaðarheimili kirkjunnar.
Guðmundur Ingólfsson (f. 1946) lærði ljósmyndun hjá Otto Steinert í Folkwang Schule für Gestaltung í Essen í Þýskalandi á árunum 1968–1971. Að námi loknu stofnaði Guðmundur ljósmyndastofuna Ímynd og hefur allar götur síðan starfað við iðn- og auglýsingaljósmyndun ásamt því að sinna eigin ljósmyndun. Árið 2017 var haldin yfirlitssýning á verkum Guðmundar í Myndasal Þjóðminjasafns Íslands, Á eigin vegum. Ljósmyndir 1967–2017 , og gefin út vegleg sýningarskrá af því tilefni.