Krossgötur mánudaginn 7. apríl kl. 13.00. Hvað þýðir það að 40% nemenda sem útskrifuðust úr grunnskólum á Íslandi árið 2022 hafi ekki náð lágmarksfærni í lesskilningi á PISA? Hvað er það sem veldur því að nemendur sýna svo slakan lesskilning eftir 10 ára grunnskólagöngu? Hvað getum við lesið úr þeim niðurstöðum, hverjar eru faglegar og samfélagslegar afleiðingar þessa? Hvað er til ráða? Sigríður rýnir í niðurstöður PISA-könnunarinnar í lesskilningi árið 2022. Hún fjallar um hæfniþrep PISA og tengir þau við samfélagslega umræðu hér á landi. Þá mun hún fjalla um mál- og læsiseflandi samskipti á heimilum og í skóla sem leggja grunn að djúpum lesskilningi, eins og metinn er í lesskilningshluta PISA. Sigríður Ólafsdóttir er dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Meginrannsóknasvið hennar beinast að málþroska og læsi, þróun orðaforða, lesskilnings- og ritunarfærni hjá ein-, tví- og fjöltyngdum börnum og ungmennum.