Krossgötur mánudaginn 17. maí kl. 13.00. Guðrún Laufey Guðmundsdóttir fjallar um bókaúgáfuna á Hólum. Í biskupstíð Guðbrands Þorlákssonar (1541-1627) á Hólum verða tímamót í bókaprentun og útgáfu kirkjulegra rita þar sem hæst ber úgáfa Biblíunnar 1584 og sálmabókar 1589.Bókaútgáfa Guðbrands var lausn á þeim vanda sem siðskiptin báru með sér um að allt kirkjustarf væri á móðurmálinu og fylgdi þannig eftir fyrirmælum um framkvæmd helgisiða sem Kirkjuskipan Kristjáns III frá 1537 kvað á um. Sálmabókinni 1589 var síðan fylgt eftir með messusöngsbók, Graduale, árið 1594. Sálmabókin var endurútgefin í bættri mynd árin 1619 og 1671 og hélst svo fram á miðja 18. öld.
Messusöngsbókin kom hins vegar reglulega út eða alls 19 sinnum fram til ársins 1779. Í spjallinu verður fjallað um útgáfusögu þessara tveggja grundvallarrita kirkju- og trúarlífs Íslendinga, hlutverkum þeirra og áhrifum á menningu og daglegt líf landsmanna í nær 250 ár.