Sunnudaginn 10. nóvember kl. 12 opnar einkasýning Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur Ég hef misst sjónar af þér í Safnaðarheimili Neskirkju. Hluti sýningarinnar teygir anga sína yfir til gömlu Loftskeytastöðvarinnar á Brynjólfsgötu, skrifstofuhúsnæði Náttúruminjasafns Íslands, þar sem eitt verkanna er sýnt á þakkanti hússins. Á sýningunni gerir Anna Júlía samband manns og náttúru að viðfangsefni sínu og sækir efnivið í andstæða póla; annarsvegar í hinn tilbúna, manngerða heim, og hinsvegar í náttúrulegt lífríki sjávar. Sýningin ber með sér áríðandi en þögul skilaboð um stöðu sjávarspendýra á válista og vekur til umhugsunar þá firringu eða fjarlægð sem orðið hefur milli manns og náttúru. Verkin byggja á Morse-kóða, sem notaður er í alþjóðlega stöðluð kallmerki, og birtist m.a. í ljósaseríum í gluggum og utanhúss. Þannig seilist sýningin út í almannarýmið og tengir saman tvær opinberar stofnanir í næsta nágrenni við hvor aðra: Safnaðarheimili Neskirkju (miðstöð hins andlega), og Náttúruminjasafn Íslands (varðveislustofnun hins náttúrulega). Sýningin verður opin til 23. febrúar 2020.