Nú siglum við aftur inn í hversdaginn. Lífið fylgir sínum takti. Að baki eru hátíðardagar sem við höfum minnst, hvert með sínum hætti.
Heldidómar
Hér í Neskirkju var góð aðsókn að helgihaldi í dymbilviku og páskum. Fjölmargir lögðu leið sína hingað til okkar. Ekki má heldur líta framhjá þeim helgistundum sem margur á í faðmi náttúrunnar, hvort heldur það er í óbyggðum eða í faðmi nytjagróðurs og skrautplanta í görðum. Náttúran er að sönnu aldingarður, vagga þess sem vex og grær. Sú afstaða er áréttuð í fyrstu köflum Biblíunnar þar sem maðurinn er sýndur í sínu eðlilga – já náttúrulega – ástandi þar sem jafnvægi ríkir á milli allra þátta og allt er í sínum föstu skorðum.
Hann er gerður að ráðsmanni yfir þeirri sköpun og sannarlega mætir hann þar sínum æðri markmiðum og tilgangi þegar hann hlúir að jarðargróðanum. Þetta finnum við líka þegar við göngum um í fjallasal, fylgjum læk að uppsprettu sinni, þræðum krákustíga innan um kjarr og mosagróður. Enginn skyldi draga úr vægi þeirra helgidóma.
Og núna, eru dagarnir stóru að baki.
Hversdagar heilsa
Á ný stefna fylkingar barna á ýmsum aldri til skólans. Bílalestir með fólki á leið til vinnu fylla akreinar á höfuðborgarsvæðinu. Síðdegis heldur öll strollan aftur til síns heima. Þetta er hið hefðbundna líf, tilveran í föstum skorðum. Þetta eru dagarnir sem gleymast flestir hverjir, renna saman í eitt. Það er líka ekki hverjum sem er gefið að brjóta sér leið út úr þeirri hrynjandi vanans sem þeim fylgir.
Guðspjall dagsins gæti verið óður til sömu þanka. Hér eru stórbrotnir atburðir að baki, innreið Jesú í borgina helgu, valtatafl, launráð og svik, krossfesting og svo hinn magnaði atburður sem kristnir menn minnast á helgum páskum: Sigur lífsins á dauðanum, sjálf upprisan. Og sagan heldur áfram. Nýtt skeið er gengið í garð sem er ólíkt öllu öðru því sem áður hafði verið. Lítill og sundurleitur flokkur manna tekst á við hið óleysanlega verkefni – að gera allar þjóðir að lærisveinum og kenna þeim það sem Jesús hafði boðað. Og sú mikla bylting er undirbúin með þessari sögu af því þegar þeir kasta netunum og fylla þau af fiski. Inngangur hennar er þó svo skemmtilega hversdagslegur: „Drengir hafið þið fengið nokkurn fisk?“
Hvað nú?
Þarna hittast þeir að nýju eftir allt það sem á undan hafði gengið. Og þar áður – ferðalag lærisveina með meistara sínum. Ferðir um eyðimerkur, þorp og vötn. Gleði og sorg, hugrekki og nagandi ótti. Bjartsýni og þrúgandi vonbrigði. Þetta hafði drifið á daga hópsins góða sem fylgdi Kristi eftir á leið hans.
Hvað nú? Þeir eru aftur farnir að sýsla við sín gömlu verk. Það er eins og ekkert hafi í skorist, rétt eins og launþegar okkar tíma halda til vinnu að lokinni hátíð eða börn fylla skólastofur. Jú, lífsbaráttan heldur áfram. Það þarf að brauðfæða sig og sína og nú eru þeir aftur komnir út á vatnið eins og þeir höfðu gert áður en þeir fengu köllunina sem hafði breytt lífi þeirra. Og aftur er aflabrestur.
Það er eins og Kristur rammi inn þessar nýju aðstæður með kveðju sinni. Hann vísar þeim á aflann og svo til að kóróna kringumstæðurnar býður hann þeim í grill. Hann grillar handa þeim mat – sem hefur nú aðra merkingu fyrir nútímamanninn en það gerði þar forðum daga. Þessir atburðir eru eins og samræður hins háleita og hins jarðbundna. Þarna mætir hinn upprisni venjulegu fólki sem sinnir störfum sínum, rétt eins og það hafðu gert áður en hann lauk upp fyrir þeim leyndardómum Guðs ríkisins.
Máltíðin
Það er þessi umgjörð sem kallar þá saman til hins nýja upphaf kirkjunnar. Máltíðin – þetta látlausa og einfalda form mannlegra samskipta sem ristir þó dýpra og tengir okkur nánari böndum en svo ótal margt annað sem við setjum á svið og framköllum með ærnum tilkostnaði. Það er þetta sem staðfestir það fyrir þeim að þetta var Kristur – þegar hann settist niður með þeim og snæddi með þeim fiskinn og brauðið þá voru þeir fullvissir um nálægð hans.
Þetta er leiðarljósið fyrir kirkjuna. Jú, vissulega fögnum við því þegar hún er sú kjölfesta sem samfélagið þarf á að halda og veitir rétta og eðlilega umgjörð utan um hátíðir hennar og helstu viðburði. En hún er líka hitt: þetta vinarlega viðmót að ógleymdri máltíðinni þegar fólk kemur saman frammi fyrir Drottni, hvert með sinn farangur og væntingar og sest saman sem ein fjölskylda að máltíð Drottins.
Hversdagur og hátíð
Hversdagur og hátíð eru stef dagsins. Ég segi gjarnan við fermingarbörnin þegar þau eru komin í kyrtlana og senn er hringt til messu – að þessi tiltekni dagur sé ekki aðeins ólíkur öðrum dögum í þeirra lífi, heldur muni atburðir hans lifa í minningunni ólíkt því sem gerist með aðra daga lífsins. Hversdagar og hvunndagar gleymast auðveldlega. Tilbreytingar festast í huganum og sjálfur man ég enn furðuleg smáatriði frá mínum fermingardegi.
Þannig verður það örugglega með þau. Með sama hætti, hafa atburðir og frásagnir Biblíunnar varðveist. Þær geyma einhver undur, eins og þarna þar sem Jesús birtist í hinu vanafasta umhverfi lærisveina sinna og gerir það einstakt. Af þessu gengu sögurnar, mann fram af manni, þær voru skráðar og þeim var miðlað áfram uns þessi litli hópur hafði unnið þrekvirkið stóra. Kynslóðum síðar höfðu tíðindin borist öllum þjóðum.
Fjallakirkjur
Sú boðun tekur á sig nýja mynd á hverjum tíma. Í dag eru það helgidómarnir stóru sem við viljum hlúa að. Við fyllumst sannarlega harmi þegar Maríukirkjan í París brann hér á dögunum og ofbeldi gegn kristnu fólki út um víða veröld er hryllingur. En þegar við lítum okkur nær þá eru það fjallkirkjurnar í náttúrunni sem okkur ber að standa vörð um. Að sama skapi, vötnin sem spegla bláan himininn, sandar og grónir dalir.
Tæknihyggjan og veraldarhyggjan hafa ruðst inn í þennan heim og svipt hann helginni, rétt eins og þeim hefur tekist með hin andlegu verðmæti. Í rútínu okkar höfum við varla bolmagn til að streitast gegn þeim þungu straumum sem eru í þann mund að ræna okkur þessum gæðum. Spámenn okkar daga, postular og lærisveinar reyna að vekja okkur til þeirrar vitundar.
Tunberg
Sú sænska Greta Tunberg er barnabarn Ebbe Arvidssons, prests í sænsku kirkjunni sem gaf út fermingarkver sem meðal annars var í notkun á Íslandi. Henni kippir augljóslega í kynið þar sem hún predikar yfir jafnöldrum sínum og hnippir hressilega í okkur fullorðna fólkið. Húsið brennur, segir hún, en þið aðhafist ekkert.
Okkar staða er lík þeirri sem lærisveinarnir fundu sig í. Þeir stóðu í sínum vanalegu verkum, lífið gekk sinn vanagang og allt var í föstum skorðum. En sú var ekki köllun þeirra að staðna þar. Kristur talaði til þeirra á þennan notalega og afslappaða hátt og hann gaf þeim þetta nýja hlutverk. Það er inntak kristinnar trúar að hvert og eitt okkar ætti að líta í eigin barm. Spyrja sig að því hvort ekki sé kominn tími til að stíga út úr hinni vanaföstu tilveru og sinna því ráðsmannshlutverki sem okkur er ætlað að gera. Þegar við gerum það tökum við að sönnu þátt í guðsþjónustu lífsins.