Prestur Neskirkju í 40 ár, sr. Frank M Halldórsson, verður áttræður sunnudaginn 23. febrúar. Það er biblíudagurinn í íslensku þjóðkirkjunni. Sr. Frank mun prédika í messunni í Neskirkju, sem hefst kl. 11 á sama tíma og barnastarfið. Steingrímur Þórhallsson stjórnar söng og félagar úr kór Neskirkju syngja. Dr. Sigurður Árni Þórðarson þjónar fyrir altari. Í messulok verður tekið við framlögum til stuðnings starfi hins íslenska Biblíufélags en afmælisbarnið afþakkar gjafir, blóm og kransa! 

 

Frank Martin Halldórsson fæddist 23. febrúar árið 1934 í Reykjavík. Stúdent frá MR árið 1954. Guðfræðinám við Háskóla Íslands frá 1954. Námsdvöl við The Graduate School of Ecumenical Studies í Chateau de Bossey í Sviss veturinn 1957 – 58. Hann stundaði trúfræðinám við Háskólann í Heidelberg í Þýskalandi sumarið 1958. Embættispróf í guðfræði frá Háskóla Íslands í janúar 1959. Tók þátt í Cleveland International Program for Youth Leaders and Social Workers í St. Louis í Bandaríkjunum árið 1963. Frank lauk prófi í uppeldis- og kennslufræðum frá Háskóla Íslands árið 1971. Stundaði framhaldsnám í sálgæslu við The University of Texas í Houston í Bandaríkjunum frá 1987 til 1989 og starfaði jafnframt námi sem sjúkrahúsprestur við M.D. Anderson Hospital í Houston.

 

Stundakennari við Mýrarhúsaskóla síðari hluta vetrar 1958 – 59. Settur kennari við Hagaskóla frá hausti 1959, skipaður frá hausti 1961. Var veitt lausn við árslok 1963, en sinnti stundakennslu við sama skóla frá 1964 til 1987. Kenndi við kvöldskóla KFUM frá 1959 til 1962 og við Æfingadeild Kennaraskóla Íslands frá 1961 til 1966.

 

Skipaður sóknarprestur í Nesprestakalli frá 1. janúar 1964, vígður til prests 22. desember 1963. Leiðbeindi guðfræðinemum við Háskóla Íslands um sunnudagaskólahald frá 1966 til 1970 og var æfingakennari guðfræðinema og kristinfræðikennara frá 1970 – 74. Var fararstjóri á söguslóðir Biblíunnar frá árinu 1966 – 1982 og rak ferðaskrifstofuna Víðsýn frá 1978 – 82. Skipulagði sumarferðir með safnaðarfólki Nessafnaðar bæði innan lands og utan frá 1982 – 1987 og 1990  til 2005.

 

Fulltrúi Alkirkjustofnunarinnar í Bossey á ráðstefnu ungra presta og leikmanna í Austur-Berlín árið 1958. Formaður Kristilegs stúdentafélags frá 1960 til 1961. Sat í stjórn Bræðrafélags Nessóknar frá 1963 til 1964. Sat í atvinnumálanefnd B.H.M. frá 1974 – 78 og sat þar í ferðanefnd frá 1981 – 83. Formaður Prestafélags Suðurlands frá 1977 – 87. Sat í skipulags- og starfsháttanefnd Reykjavíkurprófastsdæmis frá 1977 til 1980.

Frank M. Halldórsson var veitt lausn frá prestsembætti 1. mars 2004.

Afmælisbarnið óskar eftir að í stað blóma eða gjafa megi Hið íslenska Biblíufélag njóta framlaga.