Sýning á verkum Kristínar Jónsdóttur verður opnuð í safnaðarheimili Neskirkju sunnudaginn 23. mars.
Kristín sækir gjarnan innblástur í íslenska menningu og náttúru landsins. Hún vinnur verk sín í margvísleg efni en íslensk ull er meðal þess sem hún notar gjarnan í verkum sínum. Á sýningunni eru stór verk sem falla vel að rými safnaðarheimilisins þar sem birtuspil og mikil lofthæð skapa verkunum umgjörð.
Verk Kristínar einkennast af samspili nútíðar og fortíðar. Í myndheimi sínum fléttar hún saman þráðum náttúru, tungumáls og tónlistar í verk þar sem oft er stefnt saman jafn ólíkum efnum og ull, bleki og plexigleri. Þæfð ull verður stundum að nokkurs konar bókfelli sem hún ritar á með bleki hugleiðingar út frá landinu sjálfu og sögu þess. Form og uppbygging sumra verka Kristínar skírskota til tónlistar, eins og nöfnin Tokkata, Blús og Fúga bera með sér. Á síðari árum hefur Kristín einnig unnið mikið með vatnslit á pappír. Á sýningunni í safnaðarheimili Neskirkju verða þrjú stór verk: Skýjahillur, Blús og Farvegir.
Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá (f. 1933) nam myndlist við Handíða- og myndlistarskólann í Reykjavík 1949-1952, Kunsthåndværkerskolen í Kaupmannahöfn 1954-1957 og École des Art Italiennes í París 1959. Kristín hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum á liðnum áratugum og eru verk hennar í eigu helstu listasafna Íslendinga og margra opinberra aðila.
Sýningin verður opnuð kl. 12,15 – að lokinni messu sem hefst kl. 11. Allir eru velkomnir.
Nánari upplýsingar veita Kristín Jónsdóttir í síma 697 4013 og Rúnar Reynisson 863 2322.