Óratorían Messías eftir G.F. Händel verður flutt á tónleikum í Neskirkju sunnudaginn 9. desember kl. 17.00. Þetta eru svokallaðir „sing-along“ tónleikar en þá gefst tónleikagestum færi á að syngja með í kórköflum. Slíkar uppfærslur á Messíasi eru orðnar hefðbundnar víða um heim. Fjölmargir íslenskir kórar hafa sungið Messías á undanförnum árum og því er stór hópur af söngfólki vel heima í verkinu. Þess vegna bjóðum við upp á þessa nýbreytni hér á landi og hvetjum söngfólk til þess að fylla Neskirkju og syngja þetta einstaka verk með okkur. Tónleikagestir mæta með eigin nótur eða kaupa ljósrit við inngang.
Flytjendur eru Kór Neskirkju, Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. Einsöngvarar Ágúst Ólafsson, Gissur Páll Gissurarson, Hallveig Rúnarsdóttir, Jóhanna Halldórsdóttir og Ragnhildur D. Þórhallsdóttir. Stjórnandi Steingrímur Þórhallsson.
Það er alls engin skylda að syngja með og þeir sem vilja bara koma og hlusta eru hvattir til þess. Það verður án efa sérstök upplifun að hlusta á 50 manna kór, 30 manna hljómsveit, einsöngvara og tónleikagesti allt í kringum sig flytja þetta magnaða verk.
Messías er vinsælasta verk Händels og jafnframt eitt vinsælasta og þekktasta verk allra tíma. Verkið var samið sumarið 1741 og frumflutt í Dublin á vormánuðum 1742. Messías er oftast flutt á aðventunni, ýmist allt verkið eða fyrsti hlutinn um fæðingu Jesú og Hallelúja-kórinn sem er án efa þekktasti hluti verksins. Einnig eru tilteknir hlutar verksins gjarnan fluttir á páskum.
Miðaverð
9. desember: Í forsölu kr. 2.500 en kr. 3.000 við inngang.
Miðar eru seldir i forsölu hjá félögum í Kór Neskirkju og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, í Neskirkju og hjá 12Tónum