Í dag, 15. desember, eru liðin 70 ár frá því fyrsti presturinn, sr. Jón Thorarnesen var kjörinn til starfa í Nessöfnuði og þjónaði honum í 32 ár. Sr. Frank M Halldórsson þjónaði allra presta lengst eða yfir fjörutíu ár. Nessöfnuður er eldri kirkjuhúsinu og munar 17 árum. Dómkirkjusöfnuðinum var skipt upp og í fjóra hluta árið 1940. Þá var Nesprestakall stofnað og prestur kjörinn til þjónustu. Í liðlega tvo áratugi þjónaði aðeins einn prestur sístækkandi Nessöfnuði. Annað prestsembætti var stofnað og lagt til safnaðarins árið 1963 og prestakallið varð þar með tvímenningsprestakall. Þegar sókn var stofnuð á Seltjarnarnesi 1974 þjónuðu Nesklerkar þeim áfram eða til ársins 1988, en þá fengu Seltirningar sinn prest er Seltjarnarnesprestakall var stofnað.
Fyrstu sautján árin var Nessöfnuður án kirkju. Háskólakapellan, sem vígð var á stofnári safnaðarins árið 1940, og skólinn á Seltjarnarnesi voru guðsþjónusturými safnaðarins og nýtt fyrir giftingar, skírnir og greftranir. Þá var heimili prestsins mikið notað til athafna, eins og algengt var á Íslandi á þessum árum.
Fyrsti prestur kirkjunnar var Jón Thorarensen og þjónaði hann söfnuðinum frá 1940 allt til 1972 eða í 32 ár. Frank M. Halldórsson var kosinn árið 1963 sem sóknarprestur þegar sóknin var gert að tvímenningsprestakalli og þjónaði til 2004 og því allra Neskirkjupresta lengst. Árið 1972 tók Jóhann S. Hlíðar við embætti af sr. Jóni og þjónaði hann til ársins 1975. Þá tók við Guðmundur Óskar Ólafsson og naut söfnuðurinn starfa hans í nítján ár eða til ársins 1994. Halldór Reynisson kom til starfa árið 1994 og þjónaði með hléum til ársins 2001. Örn Bárður Jónsson hóf störf í söfnuðinum í fjarveru sr. Halldórs árið 1999 og var valinn prestur 2001 og sóknarprestur árið 2004. Það sama ár var Sigurður Árni Þórðarson kjörinn prestur safnaðarins.
Neskirkju hefur haldist vel á klerkum sínum því aðeins sjö prestar hafa verið skipaðir til þjónustu í söfnuðinum í þessi sjötíu ár. Margir aðrir prestar hafa þó þjónað í afleysingum. Þá hefur Neskirkja orðið mikilvæg uppeldismiðstöð þjóðkirkjunnar, því margir guðfræðingar hafa fengið þjálfun í starfi kirkjunnar og notið hennar í prestsþjónustu síðar.
70 ára prestsþjónusta. Tímamót en engin eftirlaunaaldur eða uppgjöf. Prestsþjónusta er í þágu fólks og Guðs. Verkum er útdeilt eftir skikkan og köllun. Nokkrir eru kallaðir til þjónustu orðs og sakramennta, aðrir kristnir hafa köllun til annarrar prestsþjónustu. Söfnuður Guðs í heimi og sókn þarfnast þjónandi fólks. Verkefnin eru næg í framtíðinni. Til hamingju Nessöfnuður með sjötíu ára afmælið.