Hinir árlegu saltfiskdagar hefjast á ný í Neskirkju föstudaginn 19. febrúar kl. 12. Eldaður verður suðrænn saltfiskur (bacalao). Ólafía Björnsdóttir matráður mun töfra fram magnaða rétti 6 föstudaga í röð. Þér er hér með boðið að koma og njóta góðra rétta á sanngjörnu verði en hluti af verði hverrar máltíðar rennur til líknarmála.Fastan sem hófst í kjölfar sunnudagsins 14. febrúar og stendur í 7 vikur er forn hefð þar sem fólk er hvatt til að íhuga líf Krists, þjáningu hans og dauða. Föstur eru þekktar innan flestra trúarbragða. Kristnir menn hafa fastað á kjöt sbr. kjötkveðjuhátíð sem markar upphaf föstunnar. Fastan hefur komið okkur Íslendingum vel í gegnum aldirnar því með henni skapaðist tækifæri til markaðssetningar á saltfiski í Evrópu, einkum í hinum kaþólsku löndum. Lífið er saltfiskur, segir í máltækinu. Saltfiskur hefur margskonar táknræna merkingu fyrir okkur. Hann skapar fólki vinnu og gjaldeyri, er neytt af trúuðu fólki í fjarlægum löndum sem kemur saman til að borða en máltíðin og borðsamfélagið er miðlægt í kristinni trú. Saltfiskdagar í Neskirkju eru hugsaðir út frá þessari sögu og samhengi. Við komum saman til að njóta sjávarfangs, íhuga hin dýpri gildi lífsins og heyra fólk tjá sig um „Lánin í lífinu“, ekki lán með vöxtum og afborgunum, heldur lífslánið sjálft. Hvert er lánið mitt, hver eru lánin mín? Hvað hefur hlaupið á snærið hjá mér á lífsleiðinni? Hvað er ég þakklát/ur fyrir? Hvern föstudag mun gestur eða heimamaður í Neskirkju íhuga þessar spurningar. Vertu velkomin/n og taktu endilega með þér gesti!