Föstudaginn 19. febrúar verður opnuð sýning á nokkrum verkum Eggerts Péturssonar (1956) myndlistarmanns í safnaðarheimili Neskirkju. Á sýningunni eru olíumálverk og nokkrar vatnslitamyndir.Verk þessa íhugula listamanns bera með sér staðfasta leit að nýrri upplifun á kunnuglegum slóðum. Eggert hefur reynt á þanþol myndefnisins bæði með ofursmágerðri vinnu á litla fleti og með nákvæmri, innblásinni vinnu á svo stóra fleti að það virðist nánast jafn ofurmannlegt og glíman við lyngið í fyrstu blómamyndunum. Verkin eru yfirveguð útfærsla Eggerts á því sem augað nemur og hugurinn skynjar á göngu um kunnuglegar slóðir á þeim hraða sem líkaminn leyfir. Á göngu Eggerts hafa öll hagnýt viðhorf og gildi vikið. Ganga hans í íslenskri náttúru á sér áfangastað í málverkunum og upplifun áhorfandans sem verður líkamleg, í nálægð við ofursmæð eða umlykjandi stærð.
Úr grein eftir Ólöfu Sigurðardóttur listfræðing