Á annað þúsund manns sótti Neskirkju um helgina en fermingar fóru fram bæði laugardag og sunnudag og svo var sérstök hátíðarmessa í tilefni af 50 ára vígsluafmæli kirkjunnar. Hátíðin hófst með tákngöngu frá syttunni af Sæmundi fróða Sigfússyni við Háskóla Íslands en Nessöfnuður hafði aðstöðu til helgihalds á fyrstu starfsárum sínum í kapellu Háskólans og í skóla Seltirninga en þá náði prestakallið einnig yfir Seltjarnarnes.

Fjöldinn sem getið er um í formála er ekkert aprílgabb! Neskirkja er alla jafnan vel sótt.

Biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, flutti frábæra prédikun í messuni. Formaður sóknarnefndar, Ingibjörg R. Guðmundsdóttir og gjaldkeri sóknarinn, Gríma Huld Blængsdóttir lásu ritningarlestra. Sr. Sigurður Árni Þórðarson þjónaði fyrir altari fyrri hluta messunar en sr. Örn Bárður Jónsson eftir prédikun.

Messan hófst á skrúðgöngu og fór Rúnar Reynisson fyrir henni sem krossberi, en kór og prestar báru pálmagreinar. Útdeilingu altarissakramentis önnuðust fyrrverandi prestar safnaðarins, sr. Frank M. Halldórsson og sr. Halldór Reynisson, prófasturinn sr. Jón Dalbú Hrjóbjartsson og frú Hanna Johannessen ásamt Neskirkjuprestum. Meðhjálparara voru Úrsúla Árnadóttir og Rúnar Reynisson.

Kirkjan var skreytt með grænum eplum, kertum og hvítum blómum en þær Inga Bryndís, stílisti og Ingibjörg R. Guðmundsdóttir sáu um skeytingarnar. Sjálfboðaliðar og aðrir starfsmenn báru fram veitingar og þjónuðu í eldhúsi og eru þeim öllum færðar bestu þakkir fyrir fórnfúst starf.

Dóms- og kirkjumálaráðherra, Björn Bjarnason heiðraði söfnuðinn með nærveru sinni og einnig dr. Sigurbjörn Einarsson, biskup auk margra annarra gesta og velunnara Neskirkju en forsetinn og forsætisráðherra boðuðu forföll vegna fjarveru.

Tónlistin var undir stjórn Steingríms Þórhallssonar. Kór Neskirkju söng en kórinn hefur bæði stækkað og endurnýjast á liðnum misserum. Hrólfur Sæmundsson söng einsöng í messuni og einnig í kaffinu fyrir messu. Viðstaddir þáðu kaffi og konfekt að messu lokinni og var góður rómur gerður af helgihaldinu og ræðu biskups.

Kveðjur

Neskirkju bárust sérstakar kveðjur og blóm frá prófasti Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, Hallgrímskirkju, Vesturgarði og skólastjóri Hagaskóla færði kirkjunni fagran skjöld með þökk fyrir „frábært samstarf“ á liðnum árum. Þá sendi dr. Guðmundur K. Magnússon, prófessor og fv. formaður sóknarnefndar góðar kveðjur frá Danmörku.

Við sem störfum í Neskirkju vorum glöð og þakklát þegar þessari helgi var lokið með önnum og undirbúningi sem allt gaf ríkulegan ávöxt ef meta má hlý og þétt handtök fólks sem sótti femingarmessur og hátíðarmessuna.

Kirkjan er yndislegt samfélag og gott er að starfa í Neskirkju, með góðum og áhugasömum söfnuði.

Guði sé lof og dýrð!