Hvernig á að halda upp á afmæli? Í stað afmælis í einn dag verður hátíð Neskirkju í heilt ár. Kirkjuafmæli er tilefni til að fagna vel og lengi. Á pálmasunndegi byrjar árshátíð Neskirkju. Guðsríkið er allra, öllum er boðið, allir eru velkomnir.
Hvernig á að halda upp á afmæli? Í stað afmælis í einn dag verður hátíð Neskirkju hátíð í heilt ár, árshátíð. Allt lífið er gegnsýrt fagnaðarerindi Guðs! Og kirkjuafmæli er tilefni til að fagna vel og lengi.
Biskupsmessan á pálmasunnudegi, 1. apríl 2007, markar upphaf árshátíðar Nessafnaðar, því hátíðin verður í heilt ár og með ýmsum viðburðum.
Fyrir vígslu Neskirkju notaði söfnuðurinn Háskólakapelluna til helgihalds. Til að minnast þess verður kl. 9.30 efnt til tákngöngu frá Sæmundarstyttunni við HÍ. Gengið verður til Neskirkju. Í safnaðarheimilinu verða veitingar bæði fyrir og eftir messu.
Nesprestakall nær yfir byggðina í Vesturbænum sunnan Hringbrautar, frá Skerjafirði sem tilheyrir því og að mörkum Seltjarnarness. Íbúar í sókninni eru um 11 þúsund og er Nesprestakall næstfjölmennast í Reykjavík, á eftir Grafarvogsprestakalli.
Fyrsti prestur safnaðarins var sr. Jón Thorarensen. Sr. Frank M. Halldórsson þjónaði söfnuðinum í fjóra áratugi. Sjö prestar hafa þjónað kirkjunni frá upphafi. Núverandi prestar kirkjunnar eru sr. Örn Bárður Jónsson og sr. Sigurður Árni Þórðarson.
Arkitekt kirkjunnar var Ágúst Pálsson, húsameistari. Kirkjan er friðuð hið ytra. Hún er fyrsta nútímakirkjan á Íslandi í því að hún var ekki í hlutföllum og formi sem eldri kirkjur á Íslandi. Í kirkjunni eru tvö glerverk eftir Gerði Helgadóttur, annað í forkirkju og hitt í kór og verk eftir Leif Breiðfjörð í kapellu.
Árið 1999 var nýtt orgel tekið í notkun og um leið voru gerðar nokkrar breytingar á kirkjunni hið innra. Nýtt safnaðarheimili, með kaffihúsi, var tekið í notkun 2004.
Veitingar verða í safnaðarheimilinu fyrir og eftir messu. Allir velkomnir. Afmælis Neskirkju verður minnst í heilt ár eða til pálmasunnudags 2008. Afmæli Neskirkju er því árshátíð!