Á fimmtudagsmorgnum mætir hópur presta í Neskirkju til að ræða prédikunartexta næsta sunnudags.
Á fimmtudagsmorgnum mætir hópur presta í Neskirkju til að ræða prédikunartexta næsta sunnudags.
Sumir eru að koma úr fótbolta, aðrir úr sundi og enn aðrir beint að heiman. Á Torginu er biðröð við kaffibarinn því háskólanemar eru í frímínútum en þeir sækja kennslu í safnaðarheimilinu og í kjallara kirkjunnar. Þegar prestarnir hafa fengið kaffi og með því setjast þeir við borð í forkirkjunni (anddyri kirkjunnar) og ræða textana. Þetta er eini staðurinn þar sem pláss er fyrir fund á þessum tíma vegna þrengsla í húsakynnum kirkjunnar.
Einn prestanna hefur undirbúið sig sérstaklega og er með innlegg og síðan hefjast fjörlegar umræður um túlkun og tjáningarleiðir. Þetta er gott og gefandi samfélag sem eflir okkur presta sem einstaklinga og eflir um leið samfélag okkar og vináttu. Og svo ber starfið vonandi þann ávöxt að prédikanir okkar verði betri eftir að við höfum skipst á skoðunum og frjóum hugmyndum um það hvernig skilja megi lífið og tilveruna betur í ljósi mikilvægustu bókar vestrænnar menningar, Biblíunnar.