Á morgnana er ys og þys í Neskirkju þegar meistaranámsnemendur við Háskóla Íslands streyma út á Torgið til að fá sér eðalkaffi, capuccino, machiato eða espresso ásamt nýbökuðu meðlæti.
Á föstudagsmorgni var verið að kenna Samskipti á vinnumarkaði á fyrstu hæð og Reikningshald í kjallara kirkjunnar. Fólk þarf að læra um verkföll og bókhald. Fyrr í vikunni var verið að fjalla um Alþjóðavæðingu og Mannauðsstjórnun.
Kirkjan iðar af lífi. Fólk á öllum aldri er að efla sig og auka þekkingu sína á ýmsum sviðum. Og allt er það til að efla mannlífið og auka lífsgæðin.
En skýtur það ekki skökku við að kirkjan hýsi kennslu í mammonsfræðum?
Því er til að svara að heiðarleg viðskipti eru ekki í andstöðu við kristna trú. Viðskipti stuðla að auknum samskiptum þjóða og einstaklinga og eru nauðsynleg til þess að lífið á jörðinni þrífist. Postulinn Páll sagði fégirndina rót alls þess sem illt er en ekki peninga eða viðskipti sem slík (1. Tím 6.10).
Hvarvetna í lífinu þurfum við að taka afstöðu til hluta, kenninga, stefna og strauma. Forgangsröðun og siðferði varða þar mestu. Viðskipti eru ekki ill og peningar ekki heldur en afstaða okkar til hvorra tveggju skiptir hins vegar sköpum og má flokka undir gott eða illt.