Vatn og jörð
Örn Bárður Jónsson
Fyrstu olíumyndina málaði ég 16 ára. Faðir minn hafði keypt sér olíuliti og leyfði mér að mála mynd á spjald úr krossviði. Myndin er af Ísafirði þar sem ég fæddist og ólst upp. Hún prýðir enn heimili mitt. Við strákarnir, leikfélagar mínir, áttum allir vasahníf og sem barn tálgaði ég smáhluti, smíðaði boga og örvar, bjó til teygjubyssur, sagaði út fígúrur úr teiknimyndablöðum. Í skemmdeginu fylltust margar litabækur og svo fékkst einnig við að teikna með blýanti.
Kominn yfir tvítugt málaði ég um tíma með olíu, svo með akrýl og loks með vatnslitum upp úr 2012. Ég keypti mína fyrstu, alvöru skissubók, árið 2013 og hef fyllt margar slíkar. Þrjár þeirra verða með á sýningunni. Þær eru einskonar innsetning sem kallast á við vatnslitamyndirnar. Á sýningunni getur þú blaðað í bókunum.
Fyrir aldamót sótti ég m.a. námskeið í málun hjá Kristínu Blöndal í Myndlistarskóla Garðabæjar og módelteikningu hjá Þorra Hringssyni í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Ég hef sótt nokkur námskeið t.d. eitt í Frakklandi hjá Alvaro Castagnet, vatnslitamálara frá Úrugvæ og annað hjá Herman Pekel frá Ástaralíu, sem var hér á landi s.l. sumar og þá hef ég og lært mikið af góðum málurum á Netinu. Árið 2016 tók ég þátt í viðburði á vegum Urban Sketchers í Manchester árið 2016, sem eru alþjóðleg samtök fólks sem skissar nánast hvar sem er og hvað sem er. Og ég pára eitthvað flesta daga.
Sýningar:
2019 – samsýning með norskri leirlistarkonu, Aud Huse, á Domkirkeodden, Hamri, Noregi. 2021 – Gallerí 16, Vitastíg 16, árið 2021.
2023 – mynd valin af dómnefnd erlendra og innlendra listamanna fyrir árlega sýningu Vatnslitafélags Íslands í Bogarnesi.
Og nú, 2024, Vatn og jörð
Að skrifa, skissa og mála, leika á hljóðfæri, syngja, tala, stunda leiklist, yrkja og spjalla við fólk á lífsveginum, allt ber það vott um mismunandi aðferðir til að tjá veruleikann, reyna að skilja hann, teygja sig út fyrir rammann, horfa hærra, sækja birtu himinsins og bera hana inn í eigin brjóstkirkju og þaðan inn í dimmuna, í þeirri trú og vissu, að allt myrkur flýr blessað ljósið.
Þakka þér fyrir að koma og skoða Vatn og jörð!