Þórdís Erla Zoëga

Augljós

 

„Verði ljós.“
Og það varð ljós.

Kirkjugluggar eru eitt fornasta listform listasögunnar. Efnistök þeirra eiga það oftast sameiginlegt að minna á æðri máttarvöld og þríhyrningslaga form þeirra vísar í hina heilögu þrenningu sem bendir upp til himins. Gluggar í kirkjum leika með hringrás dagsins og eru síbreytilegir eftir því hvernig birtustigið er úti sem breytir skynjun og hvetur til íhugunar áhorfandans.

Augljós eru ljósaverk sem sækja innblástur í kirkjuglugga og veita innsýn/útsýn í hið óáþreifanlega og óhlutbundna. Verkin vinna með sjónræna skynvillu sem hvetja áhorfandann til að skilja við það sem hann veit, líta inn á við og einbeita sér að ljósinu sjálfu og fegurðinni í því.

Þórdís Erla Zoëga (1988) útskrifaðist með BA úr Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam 2012 og diplómu í Vefþróun úr Vefskólanum árið 2017.

Verk Þórdísar eru knúin áfram af efnistilraunum sem og rannsókn á stafrænni nánd, póst-húmanisma, vísindaskáldskap og tengslum. Hún vinnur í mörgum miðlum þar sem hún vinnur oft á mörkum myndlistar og hönnunar, þar á meðal innsetningum, skúlptúrum, lágmyndum og málverkum.

Verk hennar kalla fram tengsl manngerðra efna og áhrifa þeirra á fólk í kapítalísku umhverfi sem og kerfin og venjur sem við innleiðum til að skilja heiminn. Verkin hverfast oft um sólina og hvernig við skynjum daginn og staðsetningu okkar í heiminum.

Þórdís hefur sýnt verk víða erlendis og í helstu söfnum og sýningarstöðum hérlendis. Einnig eru verk hennar í safneignum helstu safna hér á landi.

Hún var útnefnd bæjarlistamaður Seltjarnarnesbæjar 2022 og vann útilistaverkið Litaveita á hitaveitu Gróttu. Einnig vann hún nýlega samkeppni um gerð útilistaverks fyrir aðalinngang Nýja Landspítalans.

Þórdís er hluti af BERG Contemporary.