Kór Neskirkju er safnaðarkór sem hefur verið undir stjórn Steingríms Þórhallssonar, organista Neskirkju, frá árinu 2003. Meginverkefni kórsins eru að leiða safnaðarsöng í Neskirkju og að miðla margs konar tónlist við kirkjuathafnir og á tónleikum. Kórinn er áhugamannakór sem hefur vaxið og þroskast á undanförnum árum. Verkefnaskrá síðustu ára endurspeglar metnað og fjölbreytni.
Kórinn er samansettur af áhugasömum og söngelskum einstaklingum úr sókninni og fá meðlimir hans söngþjálfun innan vébanda kórsins. Hann æfir á miðvikudögum klukkan 19:00 til 22:00 auk raddæfinga einn laugardagsmorgun í mánuði. Kórinn getur alltaf bætt við sig efnilegu og áhugasömu söngfólki og fást allar upplýsingar í síma 896-8192 eða hjá steini@neskirkja.is.
Reglulegar æfingar eru frá seinnihluta ágústmánaðar fram til fyrrihluta júnímánaðar. Æfingar eru á miðvikudagskvöldum frá kl. 19:00 til 22:00. Að jafnaði er haldin ein æfingahelgi að hausti (október) og önnur eftir áramót (febrúar). Sú hefð hefur skapast að fara með æfingahelgina eftir áramót út úr bænum.
Stjórn og skipulag
Stjórn Kórs Neskirkju er kosin á aðalfundi og stýrir hún öllum málefnum félagsins og gætir hagsmuna þess á grundvelli samþykkta kórsins í samvinnu við kórstjóra. Stjórn er skipuð 5 félagsmönnum; formanni, ritara, gjaldkera og 2 meðstjórnendum. Aðalfundur kósins er í mars á hverju ári. Raddformenn eru kosnir á aðalfundi.