Organisti og stjórnandi Kórs Neskirkju

Steingrímur Þórhallsson fæddist árið 1974 og ólst upp á Húsavík þar sem hann hlaut sína fyrstu tónlistarmenntun við Tónlistaskólann á Húsavík. Sautján ára flutti hann til Reykjavíkur og lauk píanókennaraprófi 1998 frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir leiðsögn Önnu Þorgrímsdóttur, píanókennara og kantorsprófi frá Tónskóla Þóðkirkjunnar með Martein H. Friðriksson dómorganista sem orgelkennara. Þá um haustið lá leiðin til Rómar í Kirkjutónlistarskóla Páfagarðs og útskrifaðist hann þaðan 2001 með Magistero di organo. Þar var hans aðalkennari Giancarlo Parodi.

Haustið 2002 var hann ráðinn organisti við Neskirkju eftir að hafa starfað um tíma sem skólastjóri Tónskólans á Hólmavík. Steingrímur hefur víða komið fram á tónleikum, m.a. á tónlistardögum Dómkirkjunnar, í Hallgrímskirkju, Skálholti, Selfossi og í Reykholti.

Steingrímur stýrir tónlistarstarfi Neskirkju og er stjórnandi tónlistarhópsins Rinascente sem sérhæfir sig í endurreisnartónlist.

Orgelið

Orgelið í Neskirkju var smíðað af þýsk-bandaríska orgelsmiðnum Fritz Noack árið 1999 í Boston og er það annað orgel kirkjunnar. Fyrsta orgelið í Neskirkju var keypt þegar kirkjan var byggð. Það var 21 radda og að einhverju leyti búið til af vanefnum og vankunnáttu. Það var orðið nokkur dyntótt hin síðustu ár. Biskup Íslands, hr. Karl Sigurbjörnsson, vígði nýja orgelið 19. september 1999. Orgelið er 31 radda rómatískt orgel og er þess vegna vel fallið til að leikið sé á það 19. og 20. aldar verk. Fritz Noack segir sjálfur um orgelið: „Það var fljótlega ákveðið að orgelið fyrir Neskirkju yrði að henta fyrir breitt svið orgeltónlistar, fyrir guðsþjónustur, undir kórsöng og fyrir tónleika góðra orgelverka.“ Orgelið sjálft er mjög nútímalegt að hönnun. Spilaborð orgelsins er skilið frá til þess að organistinn geti stjórnað kórnum en tengingar eru undir kórgólfinu. „Registur“ orgelsins eru rafstýrð og búin miklum stillingarmöguleikum. Orgel Neskirkju er sambland af klassísku evrópsku orgeli og amerísku 19. aldar orgeli.

Með tilkomu nýs orgels voru gerðar umfangsmiklar breytingar sem breyttu ásjón kirkjunnar nokkuð að innan. Söngsvalinar voru fjarlægðar, í staðinn fyrir teppi á gólfi kórsins kom steinn og panill á stóra kórveggnum var fjarlægður.