Krossgötur vorið 2025
MÁNUDAGA kl. 13.00
Vikulega bjóðum við upp á erindi með kaffiveitingum á Torginu í Neskirkju.
Dagskráin er fjölbreytt og tengist ýmsum sviðum lífs og tilveru.
Við hefjum dagskrána á því að fjalla um nafntogaða biskupa barokktímans, sem gjarnan er notað yfir tímabilið frá 17. öld og fram á þá 18. Hugtakið er vel þekkt í listum og vísar þá til íburðarmikils stíls og sterkra tengsla við kirkju. Á þessu skeiði var trúarlíf á Íslandi í talsverðri deiglu og gegndu biskupar á Hólum og í Skálholti veigamiklu hlutverki við að móta kirkju og trúarlíf í landinu.
Janúar:
13.
Barokkbiskupar: Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup (1570 til 1627)
Nafn Guðbrands biskups er í margra huga tengt fyrstu útgáfu Biblíunnar hérlendis árið 1584 og tölum við gjarnan um „Guðbrandsbiblíu“ í því sambandi. Guðbrandur var afar áhrifamikill þegar kom að því að móta kirkjulega stjórnsýslu og afmarka skilin á milli veraldlegs valds og kirkjuvaldsins. Hann saknaði þeirrar stöðu sem kirkjan hafði í rómversk kaþólskri tíð og talaði meðal annars fyrir því að bannfæringar eins og þær tíðkuðust á miðöldum yrði notaðar til að efla kirkjuagann.
20.
Barokkbiskupar: Brynjólfur Sveinsson Skálholtsbiskup (1639 til 1674)
Brynjólfur Sveinsson var heimsmaður, dvaldi langdvölum í Kaupmannahöfn og á Ítalíu. Hann var innanbúðarmaður hjá kóngi og vann að því að safna íslenskum fornhandritum sem gegndu þýðingarmiklu hlutverki í sjálfsmynd Danaveldis. Það var einmitt um það leyti sem hann kom Hallgrími Péturssyni til náms við Frúarskólann í Höfn. Þegar hann tók við embætti Skálholtsbiskups var margt óljóst í skipulagi og regluverki kirkjunnar. Brynjólfur nýtti prestastefnur til að leggja línurnar og fór um allt stiftið þar sem hann átti líka jarðir. Sagan af Ragnheiði dóttur hans og Daða ástmanni hennar svo þessi harmleikur sem tengist nafni Brynjólfs enn í dag.
27.
Barokkbiskupar: Þorlákur Skúlason Hólabiskup (1628 til 1656)
Þorlákur var af Thorlaciusarættinni, móðir hans Steinunn var laundóttir Guðbrands biskups Þorlákssonar. Hann ólst upp hjá Guðbrandi og lærði hjá honum. Hann tók svo við af Guðbrandi og þótti vitur maður og lærður. Embættisbækur hans hafa verið gefnar út og þar má lesa margt áhugavert um samskipti kirkju og alþýðu á þessum tíma.
Febrúar
3.
Heimsókn í Eddu
Ingibjörg Þórisdóttir, sviðsstjóri miðlunarsviðs hjá Árnastofnun, sýnir okkur handritin sem þar eru geymd.
10.
Barokkbiskupar: Þórður Þorláksson Skálholtsbiskup (1675 til 1697)
Þórður var sonur Þorláks Skúlasonar og hlaut að vonum þá bestu menntun sem völ var á fyrir unga menn á þessum tíma. Þegar hann lærði í Kaupmannahöfn var vísindabyltingin í algleymingi og Þórður fór ekki varhluta af þeim straumum. Þórður ferðaðist um Evrópu og las við háskóla í Þýskalandi og víðar. Hann var að sama skapi eins og aðrir framámenn á þeim tíma baráttumaður fyrir varðveislu handritanna og var fyrstur til að láta prenta slík. 10.
17.
Bókaútgáfa á Hólum
Enn höldum við áfram með barokkið og víkjum aftur til Guðbrands Guðrún H. Sveinsdóttir er meistaranemi í Sagnfræði. Í biskupstíð Guðbrands Þorlákssonar (1541-1627) á Hólum verða tímamót í prentun og útgáfu bóka, þar sem hæst ber úgáfa Biblíunnar 1584 og sálmabókar 1589. Sálmabókinni 1589 var síðan fylgt eftir með messusöngsbók, Graduale, árið 1594. Sálmabókin var endurútgefin árin 1619 og 1671 og hélst svo fram á miðja 18. öld. Messusöngsbókin kom hins vegar reglulega út, eða alls 19 sinnum, fram til 1779. Í spjallinu verður fjallað um útgáfusögu þessara tveggja grundvallarrita kirkju- og trúarlífs Íslendinga, hlutverkum þeirra og áhrifum á menningu og daglegt líf landsmanna í nær 250 ár.
Meðfylgjandi er fyrri hluti dagskrárinnar. Hún einkennist af því að við horfum aftur til fortíðar. Við fjöllum um biskupa barokktímans og skoðum stórmerka sýningu á íslenskum handritum í Eddu.
Síðari hlutinn verður sendur út í febrúar.