Örn Bárður Jónsson
Nokkur orð um kirkjulega hjónavígslu
Kæru brúðhjón.
Til hamingju með þá ákvörðun að ætla að vígjast hvort öðru í kirkjulegri athöfn.
Brúðhjón sem vinna sín helgu heit frammi fyrir altari Guðs kalla hann til vitnis um ásetning sinn um að lifa saman í blíðu og stríðu til æviloka.
Hjónavígsla er löggjörningur, samningur eða sáttmáli, sem á sér stoð í lögum. Samfélagið lætur sig varða sambúð fólks og leitast við að tryggja hag beggja aðila sem allra best og búa börnum þeirra nauðsynlegt öryggi. Víða erlendis eru prestar ekki löggildir vígslumenn og því þurfa kristin brúðhjóna að fara til fógeta fyrst til að ganga frá hinni lagalegu hlið og halda síðan opinbera blessunarathöfn í kirkju. Hér á landi hafa prestar heimild til þess að framkvæma hvort tveggja.
Í seinni tíð hafa hjónavígslur í æ ríkari mæli borið svipmót sem rekja má til bandarískra kvikmynda. Engin ástæða er til að fylgja slíkum framandi siðum út í æsar. Hjónavígsla getur farið fram að viðstöddum svaramönnum einum. Oftast eru þó fleiri viðstaddir. Algengast er að leikin sé tónlist t.d. á orgel og kór syngi eða einsöngvari. Algengast er að faðir brúðar leiði hana til kirkju þar sem brúðgumi er fyrir ásamt svaramanni sínum. Móðir getur auðvitað verið í því hlutverki eða annar nákominn ættingi eða vinur. En stundum leiðast brúðhjónin saman hönd í hönd inn kirkjugólfið. Sá siður að faðir leiði brúði til brúðguma á rætur í þeirri hefð þegar brúður var „seld“ í hendur nýrrar fjölskyldu. Þaðan er komið orðið „brúðkaup“.
Og nú tíðkast mjög að haldin séu svonefnd gæsa- eða steggjapartí. Vel getur farið á því að vinir haldi brúðguma eða brúði smá veislu skömmu fyrir hjónavígsluna. En munið að góðir vinir gera fólki ekki grikk. Sönn vinátta skaðar aldrei náungann. Ef þið verðið niðurlægð við slík tækifæri er full ástæða til að endurskoða vinalistann! Best er að forðast slíkan „vinargreiða“ fyrirfram liggi fyrir grunur um að slíkt kunni að fara úr böndunum.
Athöfnin í kirkjunni
Presturinn stýrir athöfninni og ræður innihaldi hennar. Við hjónavígslu eru sungnir að minnsta kosti 2 sálmar sem presturinn velur. Brúðhjónin geta að sjálfsögðu gert tillögur þar um. Fáið fagmann til að flytja tónlist. Við hverja kirkju er menntaður organisti sem er um leið sérfræðingur í kirkjulegri tónlist. Hafið fyrst samband prestinn varðandi athöfnina og síðan samráð við orgtanista um val á tónlist.
Hefðbundin athöfn í kirkju fer þannig fram:
1. Brúðarmars
(oftast hinn þekkti mars eftir Richard Wagner) eða annað forspil
2. Sálmur
3. Ávarp eða ræða prests
4. Ritningarorð
– prestur les orð úr Biblíunni sem minna á grundvöll hjónabandsins.
5.Hjónavígslan
– prestur spyr brúðhjónin (fyrst brúðguma svo brúði) hvort þau vilji eigast og vera hvort öðru trú.
Fyrst er spurt:
Nú spyr ég þig, brúðgumi/brúður NN: Er það einlægur ásetningur þinn að ganga að eiga NN, sem hjá þér stendur.
Svar: Já.
Þá er aftur spurt: Vilt þú með Guðs hjálp reynast henni/honum trúr/trú, elska hana/hann og virða í hverjum þeim kjörum sem Guð lætur ykkur að höndum bera.
Svar: Já.
A. Hringar. Sé skipst á hringum eru þeir settir upp á þessum stað í athöfninni.
Presturinn segir:
Dragið hring á hönd hvort öðru til vitnisburðar um band ástar og trúfesti.
B. Handtak.
Prestur segir:
Gefið hvort öðru hönd ykkar þessum hjúskaparsáttmála til staðfestu.
Brúðhjónin takast í hendur með hægri hendi og staðfesta hjúskaparsáttmálann og prestur lýsir þau hjón fyrir Guði og mönnum. Algengt er að brúðhjón kyssist að loknu handtaki.
6. Bæn
Brúðhjónin krjúpa við gráturnar, prestur snýr sér að altari og biður bænar. Þá snýr hann sér fram, leggur hendur yfir höfuð brúðhjónanna og allir biðja saman Faðir vor.
7. Blessun
8. Sálmur
9. Brúðarmars
(oftast eftir Mendelssohn) eða annað eftirspil
Samkvæmt þessu ritúali er gert ráð fyrir tveim sálmum. Ennfremur er oft flutt önnur tónlist til dæmis á milli 3. og 4. liðar.
Brúðhjón eru hvött til þess að vanda val á tónlist og fá kirkjuorganista til að stýra flutningi. Flestir eiga sínar uppáhalds dægurflugur og oft er um að ræða lög sem tengjast tilhugalífinu og brúðhjónum þykir sérstaklega vænt um. Ekki er sjálfgefið að slík lög henti í athöfninni í kirkjunni en þau gætu farið betur í veislunni. Kirkjuleg hjónavígsla er í eðli sínu klassísk athöfn og því fer oftast best á því að þar hljómi vönduð og háleit tónlist.
Sálmar
Hér fara á eftir nokkrar tillögur og ábendingar um sálma úr Sálmabók Þjóðkirkjunnar:
261 Ef heimilin og húsin með vor Herra blessar eigi
262 Ó, himnafaðir, hjá oss ver, og hjónin ungu tak að þér
263 Vor Guð, í Jesú nafni nú hér nálgast þig í von og trú
264 Heyr börn þín, Guð faðir, sem biðja þig nú
265 Ó, lífsins faðir, láni krýn í lífi’ og dauða börnin þín
357 Þú, Guð, sem stýrir stjarnaher
590 Faðir vor þín eilíf elska vakir yfir hverju spori barna þinna
704 Þú ert Guð sem gefur lífið, góða jörð og nótt og dag
712 Dag í senn, eitt andartak í einu, eilíf náð þín, faðir, gefur mér
717 Hve gott og fagurt og indælt er með ástvin kærum á samleið vera!
725 Ver mér nær, ó, Guð, ver mér nær
730 Ég á mér hirði hér á jörð, sem hefur gát mér á
732 Leið mig, Guð, eftir þínu réttlæti. Gjör sléttan veg þinn fyrir mér.
Aðrir sálmar
(ekki í sálmabók)
Á brúðkaupsdegi bið ég þig (lag: Amazing Grace)
Önnur tónlist
– Dæmi um klassísk verk sem hæfa vel við hjónavígslu:
Einleikslög
Salut d´amor eftir E. Elgar
To a wild rose eftir E. MacDowell
Fur elise eftir L. W. Beethoven
Nocturne í Es eftir F. Chopin
Etude í E eftir F. Chopin
Sönglög með fallegum textum
Við tvö og blómið við lag eftir Sigfús Halldórsson
Í fjarlægð við lag eftir Karl O. Runólfsson
Þú fagra blómið eina eftir Einar Steinþórsson/ Þýskt þjóðlag
Hljómbrot eftir Ásmund Jónsson/ Írskt þjóðlag
Ástarþrá eftir Bjarna S. Konráðsson við lag eftir Björgvin Þ. Valdimarsson
Organistar geta gefið góð ráð um tónlist sem hæfir tilefninu. Veljið fagra tónlist og góða flytjendur.
Hjónavígslan er heilög stund sem kemur aldrei aftur en lifir fögur í minningunni sé vel til hennar vandað.
Guð blessi samband ykkar og gefi ykkur bjartan og fagran brúðkaupsdag.