Skammdegisbirta

Máltíð og menning á Torginu í Neskirkju

 

Fimmtudaginn 5. mars kl. 18
Sprengidagar

Yfirskrift Skammdegisbirtu að þessu sinni er Sprengidagar og tengist umfjöllunin föstunni sem er nýgengin í garð. 

Gunnella Þorgeirsdóttir þjóðfræðingur með meiru er aðalfyrirlesari kvöldsins. Erindi hennar heitir ,,Karnival og búningar“ og ræðir hún kjötkveðjuhátíðir og alls kyns furður sem þeim tengjast. Sigurþór Heimisson (Sóri), leikari með meiru leikles valda kafla úr bókmenntum sem lýsa hömlulausu áti. Hann grípur niður í frásögn hins víðsiglda Jörundar Hundadagakonungs af veisluhöldum á Ísland og les upp úr Hundrað ára Einsemd þar sem G. G. Márquez lýsir kappáti á mergjaðan hátt. Að vanda hefst samkoman inni í kirkju þar sem Steingrímur Þórhallsson leikur og kynnir tónlist sem hæfir efninu. Félagar úr Kór Neskirkju syngja. Sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir kynnir. Boðið er upp á kjarngóðar veitingar og drykkjarföng gegn frjálsum framlögum.

 

 

 

 

Fimmtudaginn 6. febrúar kl. 18
Það er kominn gestur . . .

Yfirskrift næstu Skammdegisbirtu er: ,,Það er kominn gestur…“ og eru prestar þar í  forgrunni.

Nanna Kristín Magnúsdóttir, leikkona og handritshöfundur segir frá prestinum í hinum vinsælu þáttum, Pabbahelgum. Hún sýnir valin brot úr þáttunum og segir frá hugmyndinni að baki þeim. Þorgeir Tryggvason bókmenntafræðingur  fjallar um sögulega presta í erindinu: Nokkrir íslenskir bókmenntaprestar vísíteraðir. Steingrímur Þórhallsson fer hamförum á orgelinu, leikur og kynnir verk eftir J.S.B Bach. Hann kallar gjörninginn Bach í byrjun árs. Félagar úr Kór Neskirkju syngja. Súpa, veigar og guðaveigar á boðstólnum gegn frjálsum framlögum. Sr. Skúli S. Ólafsson stýrir dagskránni.

 

 

 

 

 

Fimmtudaginn 5. desember kl. 18
Kartafla í skóinn

Fyrsta fimmtudagskvöld í mánuði kl 18 – 21 er Skammdegisbirta í Neskirkju. Þá bjóðum við upp á létta kvöldvökustemmningu, með tónlist, fyrirlestrum, þéttri súpu og guðaveigum (fyrir þau sem vilja).

Það þykir ekki góðs viti þegar börn fá kartöflu í skóinn, það er víst áskorun um bætta hegðun og framkomu þess sem skóinn á! Skammdegisbirta 5. desember er helguð þeim þáttum aðventunnar sem vel má fara að endurskoða og hugsa upp á nýtt.

Steingrímur Þórhallsson leikur og kynnir orgelverk sem tengjast aðventu og jólum. Sirrý Arnardóttir, rithöfundur: Þegar kona brotnar og leiðin út í lífið á ný. Sagðar sögur kvenna sem kiknuðu undan álagi en risu upp aftur og standa hnarreistar eftir. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, prestur: Aðventuáskorunin, hvenær urðu jólin streituvaldur í lífi fólks? Pétur Húni Björnsson kallar erindi sitt Jóla(ó)vættir. Umsjón hefur Skúli S. Ólafsson.

 

 

 

Fimmtudaginn 7. nóvember kl. 18
Skammdegishrollur

Fyrsta fimmtudagskvöld í mánuði er Skammdegisbirta í Neskirkju. Þá bjóðum við upp á létta kvöldvökustemmningu, með tónlist, fyrirlestrum, þéttri súpu og guðaveigum (fyrir þau sem vilja).

Þann 7. nóvember næstkomandi kl. 18:00 bregðum við út af vananum í tilefni hrekkjarvöku og bjóðum til Skammdegis-hrolls, þar sem við gægjumst inn í skúmaskot og skuggasund menningarinnar!

Steingrímur Þórhallsson hefur leikinn á orgelinu. Hann leikur og kynnir drungalega og draugalega tónlist.
Á Torginu hlýðum við þá Gunnellu Þorgeirsdóttur þjóðfræðing og lektor í japönsku. Erindi hennar hefur yfirskriftina: ,,Guðir, pottlok og Yokai: Tilkoma yfirnáttúrulegra vera í japanskri menningu.“ Skúli S. Ólafsson sóknarprestur kallar sitt erindi: ,,Þú ert drekinn: af heilögum Georg og vængjuðum ormum.“
Kristján Sigurðsson, kennari og trúbador, syngur og leikur undir á gítar.

 

 

Fimmtudaginn 3. október kl. 18
Regnbogakvöld

Fimmtudaginn 3. október er fyrsta skammdegisbirta vetrarins. Hún er helguð sýningunni, Regnbogabraut: Falin saga í 1200 ár, með verkum eftir hinsegin listafólk. Aðalfyrirlesari kvöldsins er dr. Ynda Eldborg, listfræðingur. Þá syngur og leikur Una Torfadóttir eigin tónlist. Einnig ræðir dr. Skúli S. Ólafsson um samkynhneigð í samhengi Biblíu og kristindóms.

Kvöldið hefst inni í kirkjuskipi þar sem Steingrímur Þórhallsson organisti flytur og kynnir verk eftir tónskáld sem tilheyra rómantíska tímanum.

Rjúkandi súpa verður á boðstólnum og ljúfar veigar. Tekið er við frjálsum framlögum.

 

 

 

 

Fimmtudaginn 9. maí kl. 18
Veit ekki hvort birtir.
Sólskin og sorti á Íslandi forðum daga.

Harpa kveður dyra og síðasta skammdegisbirta vetrarins er helguð sólskini og sorta náinni fortíð. Fjallað verður um verk tveggja skálda: Hallgríms Helgasonar og Snorra Hjartarsonar. Verðlaunaritið, 60 kg. af sólskini, verður í bakhöfði tveggja framsögumanna. Pétur Húni kallar erindi sitt Líkamsvessar og úrgangur úr sögunni og ræðir hann óþrifnað og önnur geðslegheit sem birtast í sögum ferðalanga sem fórum um íslenskar sveitir um aldamótin 1900. Skúli S. Ólafsson kallar sitt erindi: „Borið í barmafullan klerkinn“ og spyr hvað sé hæft í sögum af drykkjuskap presta á 19. öld. Þá fjallar Páll Valsson um skáldskap Snorra Hjartarsonar. Félagar úr Kór Neskirkju syngja. Samkoman hefst að vanda í kirkjuskipinu þar sem Steingrímur Þórhallsson flytur og kynnir tónlist sem hann leikur á orgelið. Boðið er upp á kjarngóðar skammdegisveitingar og brjóstbirtu fyrir þá sem hana kjósa.

 

 

 

Fimmtudaginn 7. mars kl. 18
Blóð, sviti og tár

Að vanda er hlaðborðið fjölbreytt á Skammdegisbirtu í Neskirkju. Fyrstur spilar Steingrímur Þórhallsson á orgelið valin verk eftir meistara Bach. Sr. Davíð Þór Jónsson, Vesturbæingur með meiru, flytur aðalerindi dagsins og heitir það, Jesús í Hollywood. Já, við erum að sigla inn í föstuna og hann ræðir hvernig Draumaverksmiðjan túlkar píslarsögu Krists á ýmsum tímum. Við erum föst í föstunni og því fylgir örerindið, Hin hliðin á Hallgrími, þar sem sr. Skúli S. Ólafsson fjallar um ýmsan kveðskap skáldsins. Má þar nefna eins konar sápuóperu sem hann samdi í bundnu máli fyrir sveitunga sína á Suðurnesjum. Félagar úr Kór Neskirkju syngja milli liða og auðvitað gæðum við okkur á föstum krásum og fljótandi að hætti hússins.

 

 

 

 

 

Fimmtudaginn 7. febrúar kl. 18
Hljóð, ljóð og sjón

Steingrímur Þórhallsson flytur og kynnir barokk ábreiður. Haukur Ingvarsson, ljóðskáld, mun velta fyrir sér spurningum sem varða um trú og trúleysi en við þær hefur hann hefur glímt í verkum sínum bæði sem skáld og bókmenntafræðingur. Við sögu koma koma Einar Áskell, Jón Prímus og Kristín Eiríksdóttir, svo einhverjir séu nefndir. Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, forstöðumaður Gerðarsafns segir frá fjölbreyttum listferli og ævi Gerðar Helgadóttur (1928-1975) myndhöggvara, allt frá námsárum hennar til síðustu æviára, en Gerður lést fyrir aldur fram aðeins 47 ára gömul. Tók hún fyrst íslenskra kvenna forystu í höggmyndalist og var brautryðjandi í þrívíðri abstraktlist og glerlist hérlendis. Einnig munu nokkrir félagar úr Kór Neskirkju syngja undir stjórn Steingríms. Boðið er upp á súpu og smá meðlæti á Torginu. Atburðurinn er ókeypis en gefin er kostur á frjálsum framlögum.

 

 

 

 

Fimmtudaginn 6. desember kl. 18
Dimm dagskrá um jólaföstu og jól

 

Steingrímur Þórhallsson flytur og kynnir sálmaforleiki sem tilheyra desember. Pétur Húni Björnsson segir sögur af heilögum Nikulási, verndardýrlingi gömlu Neskirkju. Helga Mauren Gylfadóttir les draugasögur á aðventu. Sr. Skúli S. Ólafsson flytur varnarræðu Grýlu. Hallveig Rúnarsdóttir sópransöngkona og Steingrímur fremja myrkraverk milli atriða. Boðið er upp á súpu og smá meðlæti á Torginu. Atburðurinn er ókeypis en gefin er kostur á frjálsum framlögum.

 

 

 

 

Fimmtudaginn 1. nóvember kl. 18
Skammdegisbirta

Skammdegisbirta er heiti á samveru hér í Neskirkju sem verður í annað sinn fimmtudaginn 1. nóvember  kl. 18. Þar fléttum við saman tali, tónum, mat og skemmtilegum félagsskap. Sverrir Jakobsson ætlar að tala um nýútkomna bók sína: Kristur. Saga hugmyndar; Steingrímur organisti spilar Bach og spjallar um verkin, Þorgeir Tryggvason, gagnrýnandi Kiljunnar, les úr bók að eigin vali og tónlistarfólkið Sæunn og Kristján syngja. Við snæðum matarmikla súpu og njótum listar og menningar saman á Torginu. Aðgangur er ókeypis en tekið verður við frjálsum framlögum fyrir kostnaði súpunnar.

 

 

 

 

 

Fimmtudaginn 4. október kl. 18
Draumar

Kvöldið hefst á höfugum Bachtónum sem Steingrímur Þórhallsson töfrar fram úr orgelinu. Steingrímur kynnir tónlistina og tónskáldið. Gestir ganga svo að borðum þar sem matarmikil súpa er borin fram. Eftir skvaldur og skraf ræðir sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir, draumaprestur, um þetta hversdagslega og dularfulla fyrirbæri sem draumar okkar eru. Umfjöllun hennar tengist sýningu Siggu Bjargar Sigurðardóttur, Blettur, á torginu og tekur listamaðurinn sjálfur þátt í samtalinu. Gestir leggja fram frjáls framlög sem mæta efniskostnaði.