Í Neskirkju er unnið eftir þeirri hugsjón að kirkjan eigi að vera staður fyrir fólk sem vill leggja sitt af mörkum til betra samfélags. Safnaðarstarfið einkennist af samtali þar sem jafningjar koma saman og skoðanir eru ekki dæmdar úr leik. Í þeim anda hefur æskulýðsfélag kirkjunnar, Nedó, starfað með samtökum á borð við New Horizon þar sem rætt er um, hvernig trúarhópar geta unnið að friði og bættu mannlífi. Fulltrúi múslíma hefur farið með bænir í messu og samstarf er við prest innflytjenda, Toshiki Toma.
Í hverjum mánuði efnum við til samtals á Kirkjutorgi þar sem hugsjónin um þjónandi forystu er til umfjöllunar. Með henni er auðmýkt þjónustunnar fléttuð saman við skýra sýn leiðtogans sem vill hafa áhrif til góðs. Námskeiðið, Hvað er kristin trú? byggir á sömu hugmynd þar sem fólk snæðir saman og ræðir margvíslegar hliðar þessarar stóru spurningar.
Neskirkja er opin kirkja í Vesturbænum og einkennist starfsemi hennar af víðsýni og frjálslyndi.
Safnaðarstarfið er fyrir alla aldurshópa. Helgihaldið er litríkt og tónlistin er í senn fjölbreytt og trú hinni kirkjulegu hefð. Æskulýðsstarfið er öflugt og þjónustan við eldri borgara byggir á traustum grunni.