Kór Neskirkju hélt sína árlegu aðventutónleika í Neskirkju þann 7. desember s.l. Til þess að heiðra minningu Ásdísar Einarsdóttur, félaga í Kór Neskirkju, var ákveðið að láta tiltekna upphæð af hverjum seldum miða renna til hjálparstarfa í Afríku.
Kór Neskirkju hélt sína árlegu aðventutónleika í Neskirkju þann 7. desember s.l. Til þess að heiðra minningu Ásdísar Einarsdóttur, félaga í Kór Neskirkju, var ákveðið að láta tiltekna upphæð af hverjum seldum miða renna til hjálparstarfa í Afríku.
Ásdís Einarsdóttir fæddist í Reykjavík 25. febrúar 1952. Hún lést að heimili sínu sunnudaginn 26. október 2008. Hún var kennari að mennt og gerði kennslu að ævistarfi sínu. Um tíma bjó hún með seinni eiginmanni sínum, Ólafi Einarssyni, í Namibíu, en þar starfaði hann við þróunaraðstoð. Ásdís flutti m.a. eftirminnilega pistla frá Afríku í Ríkisútvarpinu á meðan dvöl hennar stóð.
Ásdís byrjaði í Kór Neskirkju árið 2003 en þá var hann nýstofnaður í núverandi mynd. Þar gustaði af henni frá fyrstu tíð. Hún var virkur þátttakandi í öllu sem tengdist kórnum hvort sem það voru kóræfingar, tónleikar, tónleikaferðir eða messusöngur. Félagar í Kór Neskirkju eru þakklátir fyrir samfylgdina með Ásdísi og vilja heiðra minningu hennar með þessum hætti.
Kór Neskirkju fór þess á leit við Hjálparstarf kirkjunnar að koma minningargjöfinni til brýnna verkefna í Afríku. Þau hjónin Pamela De Sensi, kórfélagi og flautuleikari og Steingrímur Þórhallsson, organisti og stjórnandi kórsins fóru fyrir hönd kórsins á Þorláksmessu og afhentu minningargjöfina að upphæð kr. 80.000. Ásdís var kennari af lífi og sál og fékkst alla tíð við að veita þeim börnum, sem urðu svo lánssöm að lenda undir hennar verndarvæng, eins góða menntun og henni var kostur. Í ljósi þeirrar staðreyndar ákvað Hjálparstarf kirkjunnar að láta gjöfina renna til menntunar barna í Malaví.