Kór Neskirkju leggur brátt í vortónleikaferð. Fyrstu tónleikar af þremur verða í Neskirkju fimmtudagskvöldið 31. maí kl. 20:30. Hinir tveir verða í St. Mary´s dómkirkjunni í Glasgow 3. júní og í St. Giles Dómkirkjunni í Edinborg 5. júní.
Allir sem áhuga hafa eru hjartanlega velkomnir á tónleikana 31. maí. Það er enginn aðgangseyrir en áhugasömum gefst kostur á að styrkja ferðasjóð kórsins.
Á efnisskrá tónleikanna eru kórverk eftir ólík tónskáld, m.a. Orlando Gibbons, Eric Whitacre og John Taverner. Verk eftir íslensk tónskáld eru í heiðussæti og má þar nefna verk eftir Báru Grímsdóttur og Önnu Þorvaldsdóttur. Frumflutt verður Exultate Deo eftir Steingrím Þórhallsson, sem hann samdi í tilefni tónleikaferðarinnar.
Að tónleikum loknum verður sumarblómasala til styrktar kórnum. Þess má geta að blómin sem á boðstólum verða eru úr ræktun kórstjórans. Sjón er sögu ríkari.