Í júlímánuði fór hópur ungmenna frá Neskirkju í ungmennaskipti til bæjarins Langerwehe í Þýskalandi. Ungmennaskiptin voru skipulögð af íslenskum presti, Sjöfn Þór Müller, sem búsett er í þýskalandi og hélt Æskulýðssamband kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum utan um íslenska hópinn. Frá Neskirkju fóru tveir leiðtogar, þeir Guðjón Andri Reynisson og Gunnar Óli Markússon, og fimm þátttakendur. Yfirskrift ferðarinnar var Be green, be fair, be happy og umfjöllunarefnið snéri að náttúruvernd, sanngjörnum viðskiptaháttum og hvernig megi breyta heiminum til góðs með gleði í hjarta.


Ungmennaskipti eru áhrifarík leið til að ala upp framtíðarleiðtoga og til að fjalla um efni á borð við náttúruvernd með hætti sem hefur varanleg áhrif á ungt fólk. Ferðin stóð í 10 daga og var fjármögnuð af European Youth in Action Programme.

Meðfylgjandi er dagbók eins þátttakenda, Ástu Kristensu Steinsen 17 ára.

14. júlí 2011 – dagur 1.

21.50 (13. júlí) Fólkið er að tínast upp í rútuna, neskirkjugengið er búið að hertaka miðja rútuna og spennan er gríðarleg.
7.56 Lent í Brüssel og búin að borða brauð og drekka vatn sem Sjöfn kom með handa hópnum. Nú erum við sest upp í nýja rútu sem mun fara með okkur til Langerwehe. Hópurinn er eldhress þrátt fyrir langt ferðalag. Nú er það bara lokaspretturinn.
Komum til Langerwehe um kl. 11 og byrjuðum á að koma okkur fyrir. Stelpurnar eru í tveimur herbergjum og strákarnir í einu. Við Neskirkjugengið erum auðvitað saman, Danni, Gauji og Gunni samt með hinum drengjunum. =) Í stelpuherbergjunum búa Harpa, Sólrún, Laufey, Katrín, Ásta, Allý, Alexandra og Rakel.
Eftir að hafa komið okkur fyrir lögðum við okkur, sem var eins gott því allir voru eins og draugar. Eftir ágætis blund skottuðumst við allur hópurinn yfir í skólann og fengum hádegismat í mötuneytinu … karrywurst og franskar. Skólinn er mjög stór og flottur, í honum eru u.þ.b. 1400 nemendur.
Eftir hádegið kom bæjarstjóri Langerwehe að heimsækja okkar. Hann var mjög hress og glaður og virtist ánægður með þetta allt saman. Þegar þýsku krakkarnir komu loksins úr skólanum fóru Gauji og Gunni í nokkra leiki með hópnum, m.a. sippsappbojng og rebbi&kind. Svo fórum við í nanógönguferð um Langerwehe og fengum að sjá alla helstu staðina: Nettó, ísbúðina, kaþólsku kirkjuna, hraðbankann og kjörbúðina.
Í kvöldmat fengum við kjúklingaborgara. Fljótlega eftir matinn var stutt helgistund úti við varðeldinn og svo héldu flestir í háttinn.

15. júlí – dagur 2.

Eftir morgunmatinn var expectations, sem þýðir að allir fengu post-it miða og áttu að skrifa á gulan miða væntingar sínar til ungmennaskiptanna, á bleikan miða vonir sínar og á bláan miða það sem við hræddumst mest að myndi gerast. Það kom í ljós að hræðilegustu hlutirnir voru pöddur og Sjöfn. Svo hengdum við miðana upp á vegg fyrir aftan altarið. (Magneu fannst það skrítið.)
Eftir að við höfðum hitt skólastjórann í Europaschule Langerwehe kom gamall maður sem kennir náttúrufræði við skólann. Hann fór með okkur í göngutúr og sýndi okkur fullt af merkilegum trjám og jurtum og við smökkuðum villt ber og plómur. Svo kom hádegismatur og við fengum að velja um kjúkling eða snitsel. Mjög gott.
Eftir matinn fóru allir niður í bæ að skoða sig um og kaupa ís og smátterí. Svo var söngæfing sem entist fram að kvöldmat og við fengum mjög skrítinn en góðan mat, sem er eitthvað skyldur kebab held ég.
Eftir matinn skoruðum við á Þjóðverjana í dodgeball og leikirnir urðu sjö … svaka gaman og mikið keppnisskap. Rétt áður en farið var í háttinn voru grillaðir sykurpúðar yfir varðeldi úti í garðinum við kirkjuna.

16. júlí – dagur 3.

Vaknað klukkan rétt fyrir 8 og farið í morgunmat. Klukkan korter yfir níu lögðum við af stað með rútunni. Fyrsta stopp var dreilandepunkt, þar sem Holland, Belgía og Þýskaland mætast á einum punkti. Þar fórum við inn í völundarhús og áttum að safna 10 svörum við spurningum á blaði sem við fengum við innganginn. Þegar við gátum ekki meira í þessu illa lyktandi völundarhúsi sem angaði af einhverju sem ég er ekki viss um hvort var kúamykja eða geitur … já, þá fengum við að borða.
Piknik í sólinni og svo kom rigning … en bara í nokkrar sekúndur =). Við fengum brauð með smjöri og kökuskrauti og líka vla með súkkulaði og vanillubragði. Við erum svo menningarleg!
Þegar allir voru mettir lögðum við af stað á ný og næsta stopp var amerískur kirkjugarður. Hann var reyndar miklu áhugaverðari en hann hljómar því þarna voru 7992 hvítir marmarakrossar og stjörnur, allt hermenn sem dóu á þessu svæði í seinni heimsstyrjöldinni. Þetta var mjög áhrifamikið að sjá, bara endalausar raðir af hvítum krossum í þaulskipulögðum röðum, sveigum og bogum. Alls eru 450 ómerktir krossar, hermenn sem eru óþekktir fram til þessa dags. Við tókum fullt af myndum og upplifðum smæð okkar þarna í krossahafinu.
Næst lá leiðin til Aachen þar sem Lisa tók okkur í stuttan city-tour og við sáum dómkirkjuna sem er ótrúlega falleg, bæði að utan og að innan. Um leið og okkur var sleppt lausum þustu allir í H&M og eyddu peningum. Klukkan 18.30 hittumst við aftur og fórum öll saman út að borða á Labyrinth … en ég fæ engan mat =(.

17. júlí – dagur 4.

Í dag tókum við þátt í þýsk-íslenskri messu. Við sungum heilan helling og allt á þremur tungumálum og Sjöfn spilaði á gítar. Við sáum líka um ritningarlestrana og almennu kirkjubænina. Í kirkjunni var aðallega gamalt fólk fyrir utan okkur.
Eftir messuna var boðið upp á plokkfisk, rúgbrauð, harðfisk, og íslenskt nammi. Allt þetta vakti mikla lukku og fólkið geislaði af ánægju. Þá var frjáls tími og farið yfir stöðuna í circle-time um eftirmiðdaginn.

18. júlí – dagur 5.

Í dag lögðum við snemma af stað til Kölnar með lest frá Langerwehe. Fyrst skoðuðum við dómkirkjuna sem er GEÐSJÚKLEGA STÓR OG FLOTT!!!! Maður er bara alveg pínulítill inni í þessu risavaxna rými, sem er gjörsamlega þakið alls kyns skrauti, glingri, gulli, flúri, gleri, styttum, málverkum og speglum. Alveg möguð upplifun.
Svo byrjaði fjörið! Okkur var sleppt lausum í tveggja- og þriggja manna hópum og allir höfðu sama markmið: Versla. Það gekk auðvitað misvel og misvel og mishratt en við Harpa stóðum okkur nokkuð vel =). Það var ótrúlega gaman og við vorum rosalega þreytt um kvöldið.
Eitt af því sem er eftirminnilegast er salernið sem við fórum á inni á kaffihúsinu við kirkjuna. Hurðirnar voru úr gleri og svo þegar maður læsti þá varð glerið allt í einu matt og ógagnsætt. Svo var voða kósý tónlist og orkideur og speglar upp um alla veggi. Dásamlegt.

19. júlí – dagur 6

Í dag lærðum við um orku hjá Gauja og Gunna fyrir hádegið. Í pásunni fórum við aðeins niður í bæ. Svo var Sjöfn með Evrópusambandsfræðslu. Þá var dálítið erfitt að halda augunum opnum.
Í pásunni fórum við aftur aðeins í bæinn. Svo kom midterm-evaluation og þá áttum við að líma post-it miða á réttan stað á vegginn eftir því hvaða skoðun við höfðum á því sem Magnea spurði um. Næst kom pabbi Ann-Katrine og var með mjög áhugaverða fræðslu um sólarorku og við fengum meira að segja að leika kísilatóm! Svaka fjör=).
Um kvöldið var German movie night og við horfðum á Goodbye Lenin sem er góð mynd. PS: Gauji og Gunni voru í Düren í dag.

20. júlí – dagur 7

Fyrst: sturta.
Svo: brynvörð torfærurúta kl. 9.00.
Við fórum í information center og hlustuðum á forstjóra kolanámunnar tala um hversu mörg milljón tonn af kolum eru grafin upp á hverju ári í námunni í Inden. Svo fórum við aftur inn í rútutrukkinn okkar og hann fór með okkur alveg ofan í kolanámuna. Fyrst fórum við upp í Indenmann sem er risastór turn í laginu eins og kall. Við vorum rosalega hátt uppi og maður sá í gegnum gólfið og sumir voru lofthræddir, þar á meðal ég.
Svo fórum við ofan í stóra og ljóta holu. Þar var bara mold og grjót og ekkert fagurt um að litast. Risastór dalur sem einu sinni var grasi gróinn og þakinn gróskumiklum skógi (ég þori að veðja að Bambi bjó þarna)… og núna blasir við eyðileggingin. Maður horfir á risastór járnskrímslin klóra í opin sár jarðarinnar. Þetta var lamandi sýn.
Loks fórum við burt af þessum hræðilega stað. Þá fengum við hádegismat í mötuneytinu. Eftir matinn kom nýr kall til að útskýra hvernig power-plantið virkar. Fyrst var hann með glærur og svo þurftum við að fara í sérstaka skó, setja upp hárnet og hjálma og heyrnartól svo við gætum heyrt hvað kallinn sagði.
Við fórum inni í risastóra byggingu. Þar var mjög dimmt og heitt og mikill hávaði… svona eins og í helvíti. Ég var mjög hrædd. Svo fórum við upp í einn turninn og út á pínulitla brú lengst uppi í loftinu. Eins og martröð.
Þegar við komum niður fórum við heim til Langerwehe. Þaðan fóru þeir sem vildu í vatnið að leika sér, þrátt fyrir heldur lágan lofthita. Sumir meiddu sig og aðrir ekki en öllum var mjög kalt. Um kvöldið var kvöldvaka og við skiptumst á að vera með skemmtiatriði. Eftirminnilegast er dansinn sem stelpurnar og Gunnar voru með. Kristín Rut datt á hausinn og fór á spítala.

21. júlí – dagur 8

Það er allt í lagi með Kristínu, þetta var ekkert alvarlegt og hún er hress eins og alltaf. Í dag vöknuðum við klukkutíma seinna. Svo var smá fræðsla um mannréttindi. Í pásunni fórum við Harpa í Rossmann og keyptum ódýrar snyrtivörur. Í hádeginu fórum við út í skólann til að borða. Klukkan tvö voru meiri verkefni og nú áttum við að plana næstu ungmennaskipti. Það gekk bara ágætlega. Við horfðum líka á myndbönd um mannréttindi á youthforhumanrights.org og svöruðum spurningum á blöðum. Þetta var áhrifamikið því að við vorum látin borða Mars súkkulaði á meðan við horfðum á þrælabörn bera poka með kakóbaunum.
Um kvöldið reyndum við að fara snemma að sofa, sem gekk misvel.

22. júlí – dagur 9

Í dag fórum við í Phantasialand. Allir voru mjög spenntir í rútunni og svo þegar við komum inn í garðinn þurfti mikinn aga til að sumir hlypu ekki af stað. En allir þurftu að vera saman í hóp, a.m.k. 3 saman. Ég var í 10 manna hópi: Gunni, Gauji, Katrín, Danni, Harpa, Palli, Tommi, Gilbert, Allý og ég. Við fórum nánast í öll tækin en skemmtilegast var Black Mamba og Colarado Thrill Ride. Það fór líka hraðast =).
Á leiðinni heim sofnaði hálf rútan og um kvöldið sofnaði slatti yfir Sveppa og leitinni að Villa.

23. júlí – dagur 10

Í dag fórum við Neskirkjuliðið ásamt Palla, Kristófer og Sjöfn í Stanno búðina, sem er reyndar meira eins og bílskúr hún er svo lítil. En vörurnar eru algjör snilld og þetta er NeDó sport búð framtíðarinnar.
Seinna fór allur hópurinn með lest til Düren til að eyða síðustu evrunum í hitt og þetta. Kristín Rut týndist og fannst aftur og veski var stolið fyrir utan dótabúðina en ekkert okkar átti það, sem betur fer.
Um kvöldið voru allir þreyttir og það átti bara eftir að versna því klukkan 3 kom rútan að sækja okkur. Restin af ferðinni er í hálfgerðri móðu vegna mikillar syfju þess sem þetta ritar.

Takk fyrir frábæra ferð! Áfram NeDó!