Hvað er kyrrðardagur? Viltu komast í hvarf í nokkra klukkutíma, íhuga hin dýpri rök, hvílast og hressast bæði líkamlega og andlega. Fyrsti kyrrðardagur Neskirkju í haust verður 29. september og þá mun dr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, sjá um íhuganir og fjalla um bæn og bænalíf.

Sigurbjörn Einarsson“Mig langar svo á kyrrðardaga, en ég hef ekki tíma til að ganga í svoleiðis klaustur í þrjá daga!” sagði kona við mig. “En hvað segir þú um að nota einn laugardag fyrir kyrrðardag?” spurði ég á móti. Niðurstaða hennar var að það væri kannski mögulegt. Fyrir einu ári hófst svo tilraun með kyrrðardag í Neskirkju, sem tókst svo vel að ákveðið var að halda þessu kyrrðarstarfi áfram.

Í vetur verða kyrrðardagar haldnir reglulega í Neskirkju. Þeir verða á laugardögum. Dagskrá hefst kl. 10 árdegis og lýkur um 16,30. Prestarnir Sigurður Árni Þórðarson og sr. Halldór Reynisson stjórna þessum kyrrðardögum. Fyrsti kyrrðardagur haustsins verður 29. september og þá mun dr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, sjá um íhuganir og fjalla um bæn og bænalíf.

Fjöldi fólks hefur sótt kyrrðardaga í Skálholti og uppgötvað hversu kyrrð og róleg hrynjandi tíðagerða og íhugana hefur góð áhrif. Stressað fólk nær meiri hvíld og slökun en á mörgum vikum á sólarströnd. Hinn innri maður fær allt í einu næði til að vera, sækja í sálardjúp, gaumgæfa lífsspurningar og guðstrú.

Kyrrðardagur í borg er knappari en margir dagar á kyrrðardagasetri eins og Skálholti. Dagskrá er þéttari og aðlöguð tímaramma og aðstæðum borgarkirkjunnar. Neskirkja rammar með andblæ og gerð kyrrðardagastarf vel. Kirkjan, safnaðarheimilið og flatirnar eru hentugt umhverfi þeirrar stillu sem kyrrðardögum eru nauðsynlegur.

Fyrir hverja er kyrrðardagur Neskirkju? Fyrir alla, sem hafa áhuga á tilgangi eigin lífs, slökun og trú. Skráning er í Neskirkju, s. 511-1560. Allir velkomnir.