Ingibjör R. Guðmundsdóttir og Úrsúla ÁrnadóttirIngibjörg, formaður, og Úrsúla, skrifstofustjóri Neskirkju, standa þarna við Big Ben. Þær voru í London til að ná í “stórar” hugmyndir fyrir starf safnaðarins! Reykjavíkurprófastsdæmi vestra efndi til ferðarinnar. Hugmyndirnar eru að spíra og blómstra kannski í sumar eða síðar.

Ferð Reykjavíkurprófastsdæmis vestra til London

Tilgangur

Tilgangur ferðarinnar var að veita kirkjufólki í Reykjavík innsýn í kirkjustarf í London, ekki síst anglíkönsku kirkjunnar, sem er “þjóðkirkja” Englendinga. Viðkomustaðir voru margir, allir áhugaverðir. Fulltrúar safnaðanna sáu mismunandi hagnýtingarmöguleika. Einum þótti spennandi það sem annar taldi illnýtanlegt í sínu samhengi. Aðstæður eru misjafnar í söfnuðum í Reykjavík og áherslur mega gjarnan vera með ólíku móti. Fjölbreytnin er heildinni til styrks og góða. Það sem hér verður dregið út eru efnisatriði, sem gætu nýst Neskirkju með einum eða öðrum hætti. Um annað, þótt áhugavert sé, verður ekki fjölyrt.

Þrjú frá Nessókn

Fyrir hönd Nessóknar vorum við þrjú sem fórum í þessa Lundúnaferð: Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, formaður sóknarnefndar, Úrsúla Árnadóttir, skrifstofustjóri og Sigurður Árni Þórðarson, Neskirkjuprestur. Ferðin var afar vel heppnuð, enda var undirbúningur til fyrirmyndar. Sr. Sigurður Arnarson í London og sr. Ólafur Jóhannsson, sem var fararstjóri, höfðu unnið heimavinnu og dagskráin var það fjölbreytileg að hún gagnaðist flestum. Ég vil, fyrir hönd okkar Neskirkjufólks, þakka prófasti, sr. Jóni Dalbú Hróbjartssyni, héraðsnefnd, héraðspresti, sr. Maríu Ágústsdóttur og prestunum Sigurði og Ólafi fyrir.

Fræðslutenging og virkjun

Í St. Paul’s í Ealing sagði presturinn Mark Melluish frá breytingum í safnaðarstarfinu. Kirkjulífið hafði verið kyrkingslegt og eitthvað róttækt þurfti til. Enska kirkjan nýtur ekki sóknargjalda og er því algerlega háð því að eiga stoð og styrk dugmikilla meðlima. Hinir sextíu sóknarmenn St. Paul megnuðu ekki að halda uppi kirkjustarfi og reka kirkjuhúsið. Eitthvað varð að gera og einhverju breyta. Prestur og sóknarfólk settust á rökstóla og mótuðu nýja stefnu. Ákveðið var að fara Alfa-leiðina. Fólk var fræðslutengt við kirkjuna með smáhópastarfi. Guðsþjónustuhald varð óformlegt. Safnaðarstíll einkennist af gjafmildi, velvild og virkni. Góðir hlutir gerast hægt og aðeins ein virk fjölskylda var ósátt við breytingarnar og hætti að koma í kirkju. En í stað sextíu virkra meðlima eru þeir nú um níu hundruð og starfið blómstrar. Starfshættir verða ekki færðir með einföldu móti milli safnaða og alls ekki auðveldlega milli landa. Við getum þó ýmislegt lært af þessum söfnuði og hér eru nokkur atriði eða stiklur:

  1. Markviss safnaðarstefna er meginatriði. Starfshópur kirkjunnar er upplýstur, tekur þátt í að móta stefnu og útfærir.
  2. Tengingaráhersla – fimm ár. Allir, sem sækja kirkjuna er boðið að tengjast einhverjum starfsþætti. Kirkjustarfið er tengslanet. Kynni af kirkjunni er ekki nóg. Í ljós hefur komið, að það tekur fólk fimm ár að festa rætur í safnaðarstarfinu! Þetta skyldi íslenskt kirkjufólk muna vel. Nokkrar messukomur geta skapað jákvæða afstöðu fólks, en það er ekki hið sama og taka virkan þátt og leggja eitthvað til starfsins.
  3. Smáhópastarfið virkar. Slagorð í fræðslunni er: Smáhópur þarfnast þín. Auk námskeiða í kirkjunni eru heimilishópar margir.
  4. Fjölskyldunámskeið eru haldin fyrir foreldra og eldri börn. Meðan þau fræðast eru yngstu börnin á meðan í gæslu og fræðslu. Öll fjölskyldan fær þjónustu.
  5. Borða og orða fer saman. Ef fólk borðar ekki hittist það ekki (no eating – no meeting). En fólk talar þegar það drekkur kaffi saman – og talar meira þegar það borðar saman. Máltíðir í kirkju skapa tengsl. Máltíðir má gjarnan nota meira í kirkjustarfinu.
  6. Torg er við inngang kirkjunnar fyrir máltíðir, samverur, kaffispjall.
  7. Frjálslegt helgihald hentar ákveðnum hópum. Helgihald má gjarnan vera með ýmsu móti, en mikilvægt að guðsþjónustulífið sé vandað, allt sé vel undirbúið, líka prédikunin. Í St. Paul er myndefni mikið notað.
  8. Tæknibúnaður í kirkjunni þarf að þjóna fræðslu, prédikun og tilbeiðslu, sbr. notkun skjávarpa fyrir myndefni og myndskeið.
  9. Starfsfólk safnaðarins fer í öll fyrirtæki í hverfinu tvisvar á ári með blessun, vínarbrauð og kaffi. Allir taka þessu vel og tengslanet er fyrir hendi. Sóknarfólk fer um hverfið, vinnur ýmis verk til að vekja athygli á samfélagi kirkjunnar og manngæsku kristninnar.
  10. Kirkjustarfið er sveigjanlegt og húsið látið þjóna sveigjanleikanum, jafnvel útihurðirnar eru málaðar í nýjum litum á tveggja ára fresti til að leggja áherslu á breytingagetuna.

Systursöfnuður

Við þurfum ekki að finna upp hjólið heldur getum lært af öðrum. Systurkirkjur hafa gert flestar tilraunir, sem gera þarf, og við fengið og metið niðurstöðurnar. Ein leiðin til að afla reynslu er að gerast systurkirkja.

Porvoo-sáttmálinn frá 1996 hefur aukið samvinnu lúterskra og anglíkanskra kirkna, m.a. leitt til systrasafnaða, kirkjulegrar samtvinnunar (twinning). Auk safnaðartengsla hafa prófastsdæmi og biskupsdæmi líka tengst. Hópar heimsækja systursöfnuð til að læra, miðla og gleðjast. Samningur er gerður við systursöfnuð, tilgangur samstarfsins settur á blað, starfshættirnir skilgreindir og tímarammi ákvarðaður. Tilgangur samstarfs er ekki að efna til kirkjulegs túrisma, heldur að stuðla að kirkjulegum þroska og að báðir söfnuðir njóti og hafi kirkjulegan hag af.

Lagt er til að Neskirkja eignist í framtíðinni erlenda systursöfnuði. Ráðlegt er að samstarfið verði tímabundið, t.d. í tvö ár, og vel skilgreint. Vegna starfshátta, greiðra og tiltölulegra ódýrra samgangna eru söfnuðir í London og höfuðborgum Norðurlanda vænlegir til samstarfs. Söfnuðurinn gæti síðar tengst söfnuðum, í Afríku, sbr. tengsl og stuðningur Nessafnaðar við Austur-Afríku.

Trúborg

Enskar borgir hafa breyst mikið, fjölbreytnin hefur vaxið og trúarhefðir rekast saman. Enska kirkjan, Church of England, hefur rannsakað þróun kirkjulífs gagnvart breytingum og velt vöngum yfir hvernig kirkjan geti brugðist við með ábyrgu en skapandi móti. Kirkjan eigi auðvitað að vera gestrisin gagnvart fólki með aðrar trúarskoðanir. Kirkjan eigi þó ekki að tapa eigin erindi, hlutverki og krafti.

Biskupakirkjan hefur sinnt félagsvöktun og borgarþróun um áratugaskeið, beitt sér fyrir rannsóknum og efnt til umræðu um þróun og hlutverk borga á Bretlandseyjum. Ný skýrsla um trú og borg kom út á árinu 2006 og nefnist Faithful Cities: A Call for celebration, vision and justice. Skýrslan lýsir hvernig menningarleg fjölbreytni borganna vex en tjáir líka, að ekki hafi tekist að brúa efnahagslegar gjár. Alþjóðavæðingin hefur áhrif á alla með einum eða öðrum hætti, en bara hluti íbúa græðir peningalega. Of margir hafa lent á mörkum samfélagsins, of margir eigi í fjárhagslegum erfiðleikum við kaup á nauðþurftum og menntun sinna. Tortryggni og ótti aukist í samfélaginu og magni spennu milli menningarhefða, hagsmunahópa og stétta. Hættan á átökum sé því aukin.

Gagnvart slíkri borgarmynd leggi kristnin áherslu á að líf í borg eigi að vera gott og skipan hennar eigi að þjóna öllum íbúum og gefa þeim færi á góðu lífi. Enska kirkjan starfar sem þjóðkirkja og vill þar með axla ábyrgð á fleirum en meðlimum. Skýrslan er í þeim anda og því breið í nálgun. Hún leggur áherslu á samfélagsskyldur kirkjunnar, spámannlegt hlutverk hennar, skyldur við þau sem minna mega sín og þjónustu í fjölbreytni hverfanna. Fjárnotkun, mannahald og stefna kirkjunnar verði að þjóna lífinu í borgunum.

Mælt er með: 1. Kirkjan leitist við að starfa og halda návist í öllum hverfum borganna. 2. Stjórnendur kirkjunnar þurfa að kynnast
af eigin raun aðstæðum í borgunum og endurskoða starf, þjálfun starfsfólks safnaða og guðfræði í ljósi raunveruleika fólks og borga. 3. Beita sér fyrir að minnka bilið milli hinna ríku og fátæku. 4. Berjast gegn kynþáttahatri, hatri milli hópa, umburðarskorti og trúaröfgum. 5. Stjórnvöld eiga ekki að vera á eftir, þ.e. þiggjendur, í málefnum innflytjenda og flóttamanna. Stjórnvöld eiga að móta stefnu og vinna henni fylgis meðal almennings. Fátækt má ekki nota sem stjórntæki. 6. Samvinnu þarf að efla og skýra milli stjórnvalda og trúarhópa, bæði á malbikinu og á hinu opinbera taflborði. 7. Stjórnvöld og trúarsamfélög þurfa að fjölga menntunarkostum utan hins formlega skólakerfis. 8. Skólastarf trúfélaga verði skoðað og endurmetið. 9. Borgarkirkjusjóður verði efldur til styrktar kirkjustarfi í hverfunum. 10. Trúfélög sem veita fé til stuðnings hverfastarfi ættu að íhuga samstarf með borgarkirkjusjóðnum frekar en að dreifa kröftum. 11. Kirkjan ætti að beita sér fyrir umræðum sem víðast um hvað góð borg sé.

Þetta eru allt atriði, sem vert er að íhuga gagnvart okkar samfélagsþróun, þjónustu og skyldum kirkjunnar. Erindi skýrslunnar “Trúborg” á við heild samfélags og varðar því fremur þjóðkirkjuna á Íslandi sem heild fremur en Nessöfnuð. En skýrslan á þó erindi við kirkju í hverfi. Á kirkja að þjóna öllum, starfa fyrir alla? Með hvaða móti getur hún tekið sér stöðu með hinum fátæku? Á kirkja að taka á stöðumun fólks? Hvernig á kirkja að taka á breytingum og bera ábyrgð á mennsku, frelsi, dýrmæti allra, óháð trú, kynþætti, stöðu og lit? Þetta eru mikilvægar spurningar og við gætum vel tekið á þeim á Torginu, t.d. í umræðum í hádeginu. Torg Neskirkju má vera samtalstorg um borg, íbúa, gildi og gott líf, torg mennskunnar. Við getum haldið áfram borðræðum og lagt hverfi, kirkju og samfélagi til vettvang fyrir samtal. Við getum leitað til borgar, prófastsdæmis og þjóðkirkju eftir stuðningi við umsýslu slíks verkefnis. Skilgreinum hvað við viljum gera, öflum stuðnings og leggjum síðan af stað? Borðsamfélagið kallar á inntaksorðræðu.

Upplýsingar og skýrslu er hægt að nálgast á www.culf.org.uk

Skóli fyrir börnin

Það var áhugavert að kynnast öflugu skólahaldi kirkjunnar í Ealing. Við skoðuðum barnaskóla sem þjónar ungum börnum, 5-9 ára. Skólinn er rekinn í trúarlega og félagslega mislitu hverfi. En fólk af annarri trú en kristni sendir börnin í skólann og vill að þau taki þátt í helgihaldi skólans, sem er algerlega á grunvelli kirkjunnar. Það er kannski ekki komið að því á næstu mánuðum, að Neskirkja kaupi og reki skóla en þjókirkjan sem slík þarf að fara að vinna að hvernig skólamálum skuli háttað í fjölmenningarþjóðfélagi, sem búast má við á Íslandi í framtíðinni. Vel er hugsanlegt að kirkjulegir aðilar fari í kirkjulegan skólarekstur á leikskóla- og grunnskólastigi. Vert er að þjóðkirkjan fari að vinna að skoðun á aukinni þátttöku í skólahaldi.

Myndir frá ferðinni eru undir þessari smellu.

Skráð í London, sáþ

Londonferð Reykjavíkurprófastsdæmis vestra 7.-11. febrúar 2007