Í skopmynd sem ég fann á netinu má sjá Súperman, þar sem hann situr í stól með kaffibolla og dagblað í hendi. Fyrirsögnin hvetur fólk til að vera heima. Og eldri kona kemur askvaðandi og spyr hann: Ætlarðu ekki að GERA eitthvað til að berjast gegn þessum kórónavírus.
Og súperman svarar: Ég er einmitt að því.
Það var óvenjulegt hlutverk fyrir sterkasta mann heims.
Við erum öll almannavarnir, segir slagorðið og við höfum öll fengið það hlutverk núna að hjálpast að i baráttunni við kórónu veiruna sem veldur Covid 19. Sum okkar hafa ákveðin hlutverk í baráttunni – að greina smit, sinna sjúkum, sótthreinsa og þrífa, kenna börnum. Mörg hver sinnum við vinnu eða námi að einhverju leyti en allt er breytt. Og við sinnum okkar almannavarnarhlutverki með því að hittast sem minnst, halda okkur hvert frá öðru, vinna heima ef við getum, vera heima, þvo okkur um hendurnar.
Ég hugsa að verkefnið gangi misvel, sé okkur misljúft, en þetta er okkar hlutverk núna.
—
Þann 25. Mars var boðunardagur Maríu í kirkjunni. Þegar þess dags er minnst er lesið guðspjallskaflinn úr Lúkasi þar sem Gabríel erkiengill vitjar Maríu. Henni er falið hlutverk og hún ákveður á taka því. Hún var ekki viljalaust verkfæri, hún spurði og hugleiddi og tók ákvörðun. Þetta var ekki alltaf auðvelt hlutverk, því fer fjarri. Það hafa örugglega verið margir erfiðar dagar þegar hún sá son sinn ögra yfirvaldinu, vitandi hvert það gætti leitt. Og sárastur dagurinn þegar hún stóð við krossinn. Skyldi hún hafa efast um hann – eða um sig sem móður? Hún gat ekki séð hvert þetta myndi leiða. Hún hafði ekki öll púslin í spilinu.
—
Ég veit að margir efast núna – efast um eigin gerðir – þvoði ég mér nógu vel, þarf að spritta meira – er nóg til á heimilinu – getur verið að ég hafi smitast? Efast um að aðgerðir yfirvalda séu réttar – ætti að gera meira – eða er þetta of mikið.
Mér finnst gott að takast á við efann og kvíðann með því að einbeita mér að því sem ég get gert núna – bæði í starfi mínu og sem einstaklingur. Finna mitt hlutverk og sinna því. Því að ég veit að þetta gengur yfir og ég veit að þau sem leiða okkur hafa það fram yfir mig að hafa sérhæft sig í smitsjúkdómum og almannavörnum. Og mér finnst gott að sjá hve aðgerðirnar virðast virka, um leið og ég hugsa til þeirra sem eru veikir eða syrgja vegna veirunnar.
En með því að horfa á það sem ég get gert og biðja Guð að leiða mig þar finn ég mótvægi við kvíða og efa. Og stór þáttur í því er í raun eins og hjá superman – berjast við veiruna með því að halda mér til hlés. Hvert er þitt hlutverk?
Líkt og María þegar hún stóð við krossinn höfum við ekki öll púslin. En þau munu koma saman og þá birtist mynd. Þá birtir til. „Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt.“
—
María hefur haft sérstaka stöðu meðal íslensku þjóðarinnar og um hana hafa verið ort falleg ljóð á íslenska tungu. Á síðustu öld orti Nóbelsskáldið Halldór Laxness til Maríu
Bænheit rödd mín biður þín,
blessuð meðal fljóða;
vertu æ uns ævin dvín
inntak minna ljóða;
móðir guðs sé móðir mín
og móðir þjóða,
móðir allra þjóða.
Kenn mér að fara í för þín ein,
fram að himnaborðum,
leiddu þennan litla svein,
líkt og son þinn forðum.
Líkt og Krists sé heyrn mín hrein
að hlýða orðum,
hlýða þínum orðum.
Við skulum biðja:
Lifandi Guð. Leiddu okkur á tímum ótta og efa og hjálpaðu okkur að sjá hlutverk okkar. Viltu umvefja þau sem angistin nagar og sorgin nístir og veita þeim styrk og huggun. Blessaðu þau sem leiða baráttuna geng kórónuveirunni og öll þau sem daglega sinna sjúkum.