Fjöll eru oft örlagavaldar. Í gömlum sögnum var sagt frá tröllum og óvættum sem bjuggu í fjöllunum – trutt trutt og tröllin fjöllunum. Ógnir fjallanna búa með okkur og minna reglulega á sig þó að tröllin hafi fært sig yfir í Netheima. Í þessum mánuði höfum við ítrekað verið minnt á það þegar snjóflóð hafa fallið úr fjöllum með hræðilegum afleiðingum og þessa daga fylgjumst við líka daglega með fréttum af fjallinu Þorbirni eða Þorbjarnarfelli, eins og það heitir víst, sem gæti orðið miðja goshrinu.
Í bókmenntaheiminum eru fjöllin oft tákn um áskorun, verkefni sem þarf að vinna – Í Hringadróttinssögu var Dómsfjallið – Mount Doom staðurinn sem klífa þurfti til að eyða hringnum sem gat veitt algjört vald yfir öllum heimum. Í bókinni upphækkuð eftir Auði Övu er fjallið líka tákn um það sem þarf að sigra í lífinu – aðalsöguhetjan er fötluð og fjallið er hennar áskorun, bæði andlega og líkamlega.
—
Árið 2012 tók ég þátt í verkefni á vegum Ferðafélags Íslands sem heitir 52 fjöll. Markmiðið er að klífa 52 fjöll á einu ári og má telja hvert þeirra einu sinni. Þannig fór ég oft á Úlfarsfell, Helgafell og Esju upp að steini þetta árið en það taldist bara sem 3 fjöll. Hvannadalshnjúkur var eitt fjall. Öskjuhlíð var eitt fjall. Ég náði ekki alveg 52 en komst upp á ca 40 og þótti það fínt.
Göngurnar voru oft erfiðar. Við hófum leikinn í janúar og fyrstu fjóra mánuðina var eiginlega alltaf vont veður í ferðum okkar. Oftar en einu sinni gekk ég á fjall sem ég sá ekki og var ekki viss um hvaða fjall þetta væri. Við þekktum ekki ferðafélagana því að við sáum ekki andlitin, allir með skíðagleraugu og buff eða hettur fyrir andlitum.
Göngurnar voru oft mjög erfiðar en þegar leið á árið fórum við að uppskera öðru hvoru í dásamlegu útsýni. Þetta var að mörgu leyti erfiður tími í lífi mínu og starfi og þegar ég hugsa til baka sé ég hvernig fjöllin hjálpuðu mér að takast á við erfiðleikana. Þegar allt var óyfirstíganlegt og verkefnin virtust vera nærri yfirþyrmandi gat ég gengið á fjall og komið niður aftur. Ég gat það. Lokið einu fjalli. Merkt við Kerhólakamb, Botnssúlur, Ingólfsfjall, Vífilsfell, Helgafellin, Skálafellin. Það tók hins vegar lengri tíma að merkja við önnur fjöll – þessi sem ég glímdi við í lífinu annars. Vegna veikinda í fjölskyldunni. Vegna erfiðleika í vinnunni.
Lífið er fjallganga og fjöllin eru fleiri en eitt.
Stöldrum við og skoðum eigið líf – hvaða fjöll hefur þú þurft að klífa í lífinu, hvaða fjall ertu að klífa nú?
Er það fjall kvíðans sem rís upp fyrir framan þig, dökkt og ógnvekjandi? Eða kannski hið lamandi fjall þreytunnar, fullt af giljum og skorningum svo að þú tapar sífellt hæð á göngunni, finnst tindurinn fjarlægjast frekar en hitt? Er það kannski fjall veikindanna, fullt af fossum og lækjum sem komast þarf yfir eða hjá, bleytu sem við sökkvum í? Eða fjall sorgarinnar sem okkur finnst leggjast á okkur. Eða ertu kannski á jafnsléttu og horfir spennt á fjall áskorunar, spennandi fjall sem kallar á þig? Eitthvað fjall er örugglega á þinni leið, fjall sem þarf að klífa, komast yfir. Og þegar þú hefur klifið það ertu ekki samur eða söm.
—
Jesús tók þá með sér upp á fjall, vini sína, þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans. Það eru mörg fjöll í Mattheusarguðspjalli. Flestir muna vondandi eftir fjallræðunni sem fór fram á fjalli eðli málsins samkvæmt? Það er líka sagt frá fjallinu þar sem Jesús var freistað, sagt því að Jesús fór upp á fjall til að biðja í einrúmi, Jesús mettaði fjölda manns á fjalli, Hann ummyndaðist á fjalli, líklega Tabor fjalli, kenndi lærisveinum sínum á Ólívufjallinu, og numinn til himna á fjalli í Galíleu, kannski Tabor fjalli, kannski einhverju öðru.
Það má að vissu leyti segja að Mattheus rammi frásögn sína inn með fjöllunum. Í dag er síðasti sunnudagur eftir þrettánda, næsti sunnudagur er fyrsti sunnudagur í 9 vikna föstu. Föstunni lýkur á öðru fjalli – eða hæð – sem kallaðist Golgatha eða Hauskúpuhæð (á Hausaskeljastað eins og skáldið segir). Á föstunni rifjum við upp tímann þar sem Jesús fer upp til Jerúsalem. Gengur af Tabor fjalli að Galíleuvatni, kemur við í Kapernaum, heldur áfram niður í Jórdandalinn, fer í gegnum Jeríkó og svo upp í hæðirnar í Júdeu, alla leið til Jerúsalem. Sú ganga er ekki nefnd sem fjall en Jeríkó er um 260 metrum fyrir neðan sjávarmál og Jerúsalem tæpum 800 metrum fyrir ofan sjávarmál uppi í fjöllum Júda. Leiðin eftir fjallvegum Júda var ekki hættulaus. Og jafnvel þegar Jesús er kominn upp fjöllin og sér borgina helgu frá Ólívufjallinu er göngu hans ekki lokið – hvorki hinni ytri göngu til Jerúsalem né innri göngu hans, baráttunni sem leiðir til dóms og aftöku. Það hefur verið erfitt fjall að klífa.
Fastan er þannig römmuð inn í textum okkar af þessum tveimur fjöllum, Tabor fjalli og Golgatha. Á öðru þeirra birtist Jesús í dýrð – hann ummyndaðist. Gríska orðið fyrir þetta er metamorphosis og það er líka notað um það þegar eitthvað breytist og eðli þess kemur í ljós, eins og þegar fiðrildi skríður út úr púpu. Þarna birtist Kristur lærisveinunum ljómandi og skínandi – á tali við Móse og Elíja. Það eru þáttaskil í starfi Jesú.
Tókuð þið eftir því að guðspjallið hófst á orðunum: Eftir sex daga…? Hvað gerðist sex dögum fyrr? Jú, það var eftirfarandi atvik: Upp frá þessu tók Jesús að skýra lærisveinum sínum frá því að hann ætti að fara til Jerúsalem og líða þar mikið af völdum öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn en rísa upp á þriðja degi.
En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann: „Guð forði þér frá því, Drottinn, þetta má aldrei fyrir þig koma.“ Jesús sneri sér við og mælti til Péturs: „Vík frá mér, Satan, þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“
Stundum finnst mér lærisveinarnir, sérstaklega Pétur, minna mig á liðin í Gettu betur sem klikka á bjölluspurningunum. Eru með fínt svar, jafnvel mjög ítarlegt svar, bara ekki svarið við spurningunni. Pétur sem var svo fljótfær hastaði á Jesú þegar hann talaði um það sem framundan var. Og sex dögum síðar verður hann vitni að ummyndun og segir: „Drottinn, gott er að við erum hér. Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“
Þetta var skiljanlegt. Stórkostlegt að vera þarna og sjá dýrð Jesú og mátt. Þannig leiðtoga viljum við, ekki satt. Í raun gott svar. Bara ekki við spurningunni: Hvað þýðir þessi atburður. Það stóð ekki til að byggja tjaldbúð og dvelja á fjallinu. Ferðinni var heitið á annað fjall.
Og svo sjáum við Jesú á krossinum á hinu fjallinu – hæðinni, Golgata. Dæmdan sakamann. Þannig leiðtoga langar mann kannski ekki að hafa. Samt var það fjallið sem öllu skipti. Kristur á Golgata varð Kristur upprisunnar. Hann ummyndaðist og hans sanna eðli varð opinbert.
Á lífsgöngu okkar, í fjallgöngum lífsins, verða áskoranirnar til þess að okkar sanna eðli kemur í ljós. Og það er gott að hafa leiðtogann Krist með okkur í för. Leita huggunar og styrks til hans sem þekkti fjöllin og kleif þau samt, líka Golgatha. Sem sýnir okkur að stundum eru erfiðustu fjöllin þau sem leiða til mestrar gæfu.