Á jóladag árið 1990 sátum við hjónin á kaffihúsi í borginni Chang Mai í norðurhluta Tailands og lásum blöð. Kaffihúsið var rekið af þýskri konu og sem við sátum þarna sá ég að karlmaður milli þrítugs og fertugs, frekar slæptur að sjá, kom aftur og aftur til hennar og virtist frekar ráðvilltur. Þegar hún hafði sent hann burt spurði ég hvað honum lægi á hjarta.
Æ, þetta er alltaf að gerast, sagði konan. Hann kom til borgarinnar í gærkvöldi og skellti sér strax út á lífið. Nú ratar hann ekki aftur á hótelið og veit ekki hvað það heitir. Hann tók eftir því að hótelið hans var nálægt musteri. Það hjálpar ekki mikið. Öll hótel í Chang Mai eru nálægt musteri.
Hún hristi hausinn og hélt áfram að gera kaffi, vön túristum sem gleyma að taka með sér nafnspjald, kort eða annað frá hótelinu með nafni þess þegar þeir koma í ókunna borg.
Ég sat eftir hugsi. Ég hafði oft heyrt um hættuna á því að týna jólunum í einhverjum veraldlegum æsingi en aldrei hugleitt það að vera týndur á jólunum. Mér fannst þetta óendanlega sorglegt.
Þessi maður kemur mér í hug hverja aðventu. Einn í framandi borg, framandi landi, húsnæðislaus – á jólum. Einhver sem ætlaði svosem aldrei að upplifa hefðbundin jól, heldur líkast til að detta ærlega í það og skemmta sér í Tælandi.
Kannski var hann að flýja jólin. Kannski var honum alveg sama.
Hann var ekki bara týndur – Hann var líka búinn að týna jólunum.
—
Nokkrum árum seinna bjó ég í Almaty í Kazakstan og í mínu hverfi var bæði rafmagns og gasskortur í desember. Ég rembdist þó eins og rjúpan við staurinn að útbúa allt sem tilheyrði hefðbundnum íslenskum jólum, lifrarkæfu, reykt laxapaté, laufabrauð og sex eða átta sortir af smákökum auk piparkökuhúss. Það var mjög erfitt við þessar aðstæður og ég man að áströlsk vinkona mín sagði einn daginn: Þetta er mjög bragðgott og fallegt en af hverju ertu eiginlega að þessu þegar það er svona erfitt að baka nokkuð? Þú veist að það fæst ágætt kex í Interfood.
Kex? Hvað kom það málinu við? Staðreyndin er sú að ég borða ekki kex og helst ekki smákökur heldur – jafnvel ekki jólasmákökurnar svo neinu nemi. Þetta snérist allt um að skapa réttu umgjörðina fyrir hátíð sem skipti mig miklu máli og skapa minningar fyrir börnin mín um ekta jólahátíð. Ég vildi að jólin yrðu alvöru jól og gerði því það eina örugga: ég reyndi að endurskapa jólin frá minni bernsku. Það var ekkert í umhverfinu sem minnti mig á jólin, og sannarlega ekkert sem minnti á íslensk jól.
—
Ég er löngu hætt svona látum fyrir jól, enda engin þörf á því. Það er svo mikið í umhverfinu hér á Íslandi sem tekur af mér ómakið; dásamleg ljós sem lýsa upp skammdegið, ofgnótt af sætindum, tónlist og góðir málstaðir að styðja.
En ég hugsa oft til þess tíma þegar þetta skipti allt svona miklu máli. Hvað er það við undirbúninginn sem skapar jól í huga okkar? Hvernig urðu þessi „íslensku jól“ til?
Markmiðið með undirbúningnum hefur alltaf verið að gera sér dagamun. Fyrst var nóg að eiga nægan mat – jólabónusinn var aukaskammtur af mat og helst einhver flík á jólum fyrr á tímum. Fyrir fólk sem oft var svangt og átti lítið skipti þetta miklu máli. Hér líða fáir slíkan skort núna, sem betur fer, svo að matarofgnóttin er ekki beinlínis nauðsynleg. Smákökurnar voru sjaldgæfur munaður lengi og höfðu allt annað hlutverk á árum minni velmegunar en nú á dögum sykurneyslu í hvers kyns formi.
En hvenær varð það nánast skylda að eiga æðislega aðventu, að vera í jólastemningu, jólaskapi eða jólagír. Á þessu er sífellt hamrað í fjölmiðlum af fullkomnu tillitsleysi við þau sem af ýmsum ástæðum hafa ekki hrifist af aðventunni og kvíða jafnvel jólunum. Því að þau eru fleiri en margan grunar. Ástæðurnar geta verið margar; slæmar minningar er tengjast jólum, einsemd, erfiðar fjölskylduaðstæður, fátækt, veikindi eða andlát ástvinar.
Það er frábært hve margir leggja sig fram um aðventu við að undirbúa jólin á ýmsan hátt, með ljósum, skrauti og mat. En þegar við sem njótum aðventunnar og hlökkum til jólanna tölum um það, skulum við hafa í huga að jólin sem hin mikla neyslu- og fjölskylduhátíð eru ekki jól allra. Það eru m.a.s. örugglega einhverjir sem frekar vildu vera týndir á Tælandi en upplifa einsemd hér um jól.
—
Eitt af því stórkostlega við aðventuna er að fylgjast með öllum þeim sem taka virkan þátt í að safna til góðra mála fyrir jólin. Það er fátt meira í anda kristinna jóla en að styðja þau sem eiga undir högg að sækja. Því að andi jólanna birtist okkur einmitt í því viðkvæmasta og varnarlausasta sem við þekkjum: nýfæddu barni. Barni fátækra foreldra í hernumdu landi þar sem talsverð spenna ríkti milli almúga og yfirvalds. Boðskapur hinna kristnu jóla birtist í helgisögu um fæðingu barns sem kveikti von um betra líf.
Inntak kristinna jóla hefur svosem ekki mikið með allt skrautið og kökurnar að gera. Þetta er bara hluti af því að gera sér glaðan dag og það er allt í lagi. En boðskapur sjálfra jólanna mætir hins vegar líka þeim sem syrgja, líður illa eða eru einmana. Því að inntakið er einfaldlega: Guð leitar þín, kallar á þig. Í jólaskapi eða leiðu skapi, á Íslandi, í Kazakstan eða í Tælandi. Og þú getur alltaf svarað því kalli og haldið jól.
(Þessi grein birtist í vefritinu Kvennablaðinu á aðventu 2014)