Þekkjum við ekki sögur af fæðingu og meðgöngu? Mér finnst alltaf jafn merkilegt hvernig náttúran undirbýr konur fyrir fæðingu.
Endar vel
Þrátt fyrir krankleika og alls kyns óþægindi – sem færast svo í vöxt eftir því sem á meðgönguna líður allt þar til fóstur verður að hvítvoðungi – þá eru minningar þessara atburða oftar en ekki baðaðar björtu ljósi. Ef allt gengur að óskum, eru foreldrar með nýfætt afkvæmi í fanginu geislandi af hamingju. Og það, þrátt fyrir þá staðreynd að fáeinum mínútum áður voru þrautir ægilegar.
Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði tók eitt sinn fæðingu barns sem dæmi um það hvernig sæla og unaður í lok erfiðleika kann að yfirskyggja allar undangengnar raunir. Náttúran er jú svo glögg ef svo má að orði komast. Þegar barnið er komið í fang móðurinnar þá synda líffæri hennar í sæluhormónum og svitastorkin brosir hún út að eyrum með lítið vanmáttugt líf á brjósti. Þetta, sagði þessi spekingur, mætti yfirfæra á margt í okkar lífi. Endapunkturinn situr eftir í minningunni og ef hann er góður þá verður hitt allt í stakasta lagi líka, svona þegar við lítum um öxl.
Meðgönguhátíð
Sem nútímakarlmaður hef ég auðvitað staðið við hlið minnar frúr í gegnum þrautagöngur fæðinga. Þegar miðlungur okkar var á leiðinni og komið var á annan sólarhring í hríðum og hægfara útvíkkun þá fór mig að svima. Konan mín rifjar það reglulega upp þegar fagfólk hætti að sinna henni og fór að hlúa að mér þar sem ég lyppaðist niður í stólinn, krítarhvítur í framan. Þetta kann að hafa þótt ókarlmannlegt eða hvað… ef við eigum að taka þátt, megum við þá ekki vera með smá dramatík?
Af hverju þetta meðgöngutal núna á fyrsta sunnudegi í aðventu? Jú, því núna er runninn upp sjálfur undirbúningstími jólanna. Ef jólin eru fæðingarhátíð, þá er aðventan meðgönguhátíð. Það minnir líka margt í umgjörð aðventu og jóla á undur lífs og fæðingar. Skammdegið, myrkrið, kuldinn og allt sem því fylgir – víkur svo fyrir öllum þeim ljóma sem við kunnum að framkalla og já, sólin fer svo að nýju að hækka á lofti. Þá er einmitt eins og allt sé gott og allt hafi verið gott, þrátt fyrir hríðaél og nepju.
Jatan
Og af öllum þeim táknum sem kristin trú hefur búið til og nýtt í tímans rás, krossar, fiskar, grískir bókstafir og hvað eina – þá er mögulega sterkasta og áhrifaríkasta myndin sem birtist okkur, einmitt tákn jólanna. Það er auðvitað sjálf jatan, sjálfur hápunkturinn.
Ólíkt frændum okkar og frænkum í dýraríkinu þá bröltir ungviði mannsins ekki á fætur fljótlega eftir fæðinguna. Og það hefur engan feld til að skýla sér með, eða að halda sér í til að tolla í faðmi móðurinnar. Það er hið fullkomna varnarleysi barnsins sem gerir það um leið að miðju og hjarta þess samfélags sem það tilheyrir.
Fyrir vikið þá gefur öllum í kringum sig, tilgang og hlutverk. Þrautir, andvökur og erfiðleikar geta tekið sinn toll en skilja líka eftir þá kennd í brjóstum þeirra sem ala önn fyrir barninu að þau hafi skipt máli og mögulega hafi uppfyllt sinn tilgang.
Það á við um samfélagið allt, hvort sem við erum foreldrar eða ekki. Hlutverk okkar allra er að hlúa að börnunum – í því felst fyrirhyggja okkar og framtíðarsýn. Sú umgjörð sem við búum þeim er mikilvægasti mælikvarðinn á gæði okkar og stefnumál.
Fullveldistal
Sú hugsun hæfir vel nú þegar fyrsta sunnudag í aðventu ber upp á sjálfan fullveldisdaginn. Vissulega eru ógöngur margar og ógæfan sem þjóðin hefur gengið í gegnum á þessu 101 ári sem liðin eru frá því að hún varð sjálfri sér ráðandi. Við verðum ekki hreykin þegar sagnfræðingar greina frá því er gyðingum var meinað hér landvist og þeir sendir aftur í hramm nasista á dögum þriðja ríkisins. En við gleðjumst á sama hátt þegar mannúð og mildi réði för og við stóðum með þeim sem áttu um sárt að binda.
Lærdómurinn af því ferli er að sönnu mikill. En þegar við hugleiðum gæfusporin, það sem unnið hefur verið til farsældar þá er það öðru fremur þegar við ólum önn fyrir þeim sem þurftu mest á því að halda.
Hér á öldum áður risu hallir og kastalar sem minnisvarðar um glæsta sigra og mikinn auð. Enn í dag rísa skýjakljúfar sem hreykja sig hátt til himins og virðast rjúfa öll lögmál náttúru og eðlis.
En miklu merkilegra krúnudjásn hverri þjóð er umhyggjan og alúðin. Samfélag sem hrekur ekki á brott fólk sem hingað leitar, er á réttri leið. En skömmin að því þegar andlit hörku og kulda mætir þeim sem standa frammi fyrir sárri neyð – hún lifir lengi í minningunum.
Biblían er einn langur óður til þeirrar hugsunar. Og þar birtist okkur í lok aðventu sjálft sigurtákn guðdómsins – jatan.
Jatan er líka tenging við náttúruna. Á íslensku tölum við jú um að fólk borði en dýr éti. Við sitjum við borð en þau nærast upp úr jötunni. Þarna fá málleysingjar hlutdeild í atburðinum stóra. „Sem fyrstu jól í jötu lá“ sungum við áðan þegar við kveiktum á aðventukertunum. Sú mynd er hlaðin boðskap og skilaboðum til okkar allra. Allt ber hér að sama brunni. Við erum ekki aðeins hluti þjóðfélags við erum líka eitt með náttúrunni.
Minnstu systkin
Guðspjall þessa upphafsdags aðventu, kirkjuárs og sjálfs fullveldisdagsins segir frá því þegar Jesús gekk inn í helgidóminn í bænum Nazaret og las texta Jesaja spámans. Meðgöngutími er líka tími vonar og undirbúnings fyrir komu þess sem skiptir okkur svo miklu máli.
„Þeir dagar munu koma, segir Drottinn, þegar ég læt hið góða fyrirheit rætast.“ „Ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér.“ Þessi orð tala til okkar á tímum óvissu og mótlætis og flytja okkur þau skilaboð að oft eru þrautir í lífi okkar eins og hríðir sem muni um síðir leiða af sér mikla gleði og fögnuð.
„Ég stend við dyrnar og kný á.“ Þetta las Jesús í upphafi þjónustu sinnar og síðar átti hann eftir að tala um þann dag þegar dómarinn kemur í allri sinni dýrð og skipar niður fólki og þjóðum. „Því að gestur var ég og þér hýstuð mig“ sagði hann þá og í framhaldi: „Allt sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það gjörðuð þér mér.“
Fagnaðarerindið beinist að hverjum þeim sem þolir órétt og býr við bág kjör í þessum heimi. Sköpun Guðs og kærleikur hans þarf á höndum okkar og kærleika að halda og Kristur beinir orðum sínum til allra þeirra sem láta sér annt um náunga sinn.
Skyldur samfélags
Þetta er útgangspunkturinn í allri okkar bið og öllum okkar fögnuði í tengslum við hátíðir kirkjuársins. Það er heldur ekki tilviljun að hið nýfædda líf skuli skipa þar svo stóran sess. Þangað beinist skylda okkar allra í þessu samfélagi. Fullveldi stendur aldrei undir nafni ef starfað í skeytingarleysi og aumum ótta við það sem er framandlegt og kann að raska einhverju jafnvægi. Þvert á móti þá birtist okkur á þeim tíma sem framundan er einn stór vitnisburður um reisnina og mikilfengleikann í því sem liggur í jötu lágt. En er á hinn bóginn svo ríkt að kærleika. Í kærleikanum býr öll okkar reisn og sannur tilgangur í þessu lífi.