„Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp. Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.“

Þessi orð stóðu á spjaldi sem hengt var á vegg í grunnskólanum í Súðavík við Álftafjörð.

Fjöllin
Ég var þar reglulega á ferð þegar ég þjónaði sem prestur fyrir vestan, aðeins tveimur árum eftir snjóflóðin þar. Á þeim tíma var samfélagið þar enn í sárum eins og við má búast. Löngum hafði sjórinn tekið sinn toll af mannslífum á þessu svæði en nú kom ógnin að ofan, úr fjöllunum sem standa þarna hábrýnd yfir litla þorpinu.

Í þessari byggð höfðu margir nemendur, starfsfólk og kennarar orðið fyrir miklum missi eða voru í daglegu samneyti við fólk sem átti um sárt að binda. Textinn er sóttur í Davíðssálma og er lexía dagsins í dag, bænadagsins. Þótt upphaflega hafi hann verið fluttur í öðru umhverfi en tilfinningin held ég að sé sú sama. Einhver lítur með ugg í brjósti upp í hlíðarnar og óttast það sem þar kann að leynast. Við getum séð fyrir okkur varðmennina uppi á borgarmúrum Jerúsalem sem höfðu það verkefni að fylgjast með umhverfinu og vera fljótir að bregðast við ef aðsteðjandi ógn stafaði að. Ef sást til óvina í hæðunum umhverfis borgina var friðurinn úti.

Í þessum orðum skynjum við togstreitu á milli vonar og ógnar, óvissunar um það sem kann að leynast í fjallaskorum og traustsins um að ógnin sé aldrei loka svarið. Þetta traust á sér djúpar rætur í mannsálinni og er ólíkt ýmsum þeim úrræðum sem nútíminn býður upp á þegar á móti blæs í lífi fólks.

Áfallahjálp
Við þekkjum sjálfsagt handhæg ráð á sviði áfallahjálpar sem stundum eru sett fram sem patentlausn við sorg og áfallastreitu. Á sínum tíma fór fólk með menntun á þessu sviði vestur í Álftafjörð og síðar Önundarfjörð og lagði sitt af mörkum til að bæta líðan heimafólks og björgunarmanna. Það má ekki gera lítið úr þeim góða vilja og vafalítið hefur það haft gott í för með sér. Rannsóknir sýna á hinn bóginn að slík andleg skyndihjálp hrekkur skammt þegar til lengri tíma er litið.

Þeir sögðu mér líka frá því, Súðvíkingar að það sem hefði hjálpað þeim mest væri nærsamfélagið þessa örlagadaga. Í þeim hópi voru prestarnir sem deildu kjörum með fólkinu, höfðu sjálfir verið innilokaðir og einangraðir eins og aðrir íbúar á svæðinu. Þeir voru daglegir gestir hjá fólkinu, hlustuðu á sögur þeirra og sorgir, voru með opinn faðminn ef orðin dugðu ekki til. Þeir lutu höfði með syrgjendum og fóru með bænir. Þessar sögur fékk ég að heyra þegar ég var þarna staddur tveimur árum eftir áfallið mikla.

Löngu síðar þegar ég var kominn til Keflavíkur sat ég fund í áfallaráði á sjúkrahúsinu þar fyrir sunnan. Þar flutti fulltrúi landlæknis erindi um náttúruhamfarirnar á Suðurlandi, jarðskjálftann og eldgosin. Hún ræddi þann lærdóm sem mátti draga af okkur sem mynduðum þennan hópi. Þar bar allt að sama brunni. Jú, það gerði sitt, að fá teymin frá Reykjavík sem mættu og reyndu að finna ótta fólksins og tilfinningum farveg. Hitt skipti þó sköpum sagði hún. Það var þjónusta kirkjunnar.

Sálgæsla
Prestarnir voru ekki fjarlægir fagmenn heldur stóðu þeir í sömu sporum og aðrir. Þeir voru líka vanir því að vera inni á heimilum fólksins, með kaffibollann í eldhúsinu eða í stofunni. Það má segja að þeir hafi verið staðsettir mitt á milli tveggja sviða tilverunnar – hins opinbera sviðs þar sem fólk sækir ákveðna þjónustu og vill fá faglegt viðmót. Og svo nánasta hringsins, fjölskyldu og vina.

Bænin
Aftur verður bænin að vettvangi fyrir slík samskipti. Það þarf ekkert að hafa fyrir því að biðja. Bænir renna af vörum okkar eða streyma um hugann. Þær er annað og meira en einhver óskalisti, eða fálm út í loftið. Nei, bænir segja það sem hið forna skáld Davíðssálma túlkar í lexíu dagsins: „Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp. Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.“

Já, í þessum orðum má segja að inntak bænahaldsins komi svo skýrt fram. Þar færum við það í orð sem við óttumst, tölum af hreinskilni um hætturnar sem leynast í kringum okkur án þess að breiða yfir þær feld afneitunar og fávísi. Slík þekkjum við í samtali okkar daga þar sem margur vill ekki ræða umhverfisógnina sem að okkur steðjar. En raunsæið fær þó aldrei að slökkva vonina og þá sannfæringu að hið góða muni um síðir standa uppi og vinna bug á hinu illa.

Hvaðan kemur mér hjálp?
Já, hvaðan kemur mér hjálp? er sú spurning sem lifir á vörum allra þeirra sem þora að horfa framan í oft grimmar aðstæður lífsins og mótlæti. Í lífi þess sem á sér lifandi trú er leitað eftir stuðningi Guðs í erfiðleikum tilverunnar. Þess vegna verður myrkrið aldrei svo dimmt að vonleysið fái þar ráðið eitt. Jafnvel hinar mestu hörmungar fá sinn stað í því flokkunarkerfi sálarinnar.

Þær eru hluti af þeim sviðum lífsins sem við fáum engu breytt um. Þeim mætum við með æðruleysi – eins og það er orðað í þekktri bæn guðfræðingsins Reinhold Niebuhr frá tímum heimskreppunnar á fjórða áratugnum. Og þaðan beinir hinn trúaði sjónum sínum upp til himins þar sem leitað er stuðnings, sóttur er máttur og styrkur sem leiðir svo inn í hjarta og sálu einstaklingsins sjálfs. Upp úr því ferðalagi verður jafnvel mesta mótlæti að vettvangi til lærdóms og uppbyggingar sem leiðir manneskjuna inn á friðarveg.

Illa sofinn heimilisfaðir
Í guðspjalli dagsins talar Jesús í líkingum og lýsir Guði við illa sofinn heimilismann sem fær skyndilega nágranna sinn í heimsókn að næturlagi og sá biður hann um brauð handa gestum sínum! Þetta er reyndar alveg dásamleg saga – er nokkuð annað að gera en að fara inn í eldhús, sækja þessi brauð og rétta hinum aðgangsharða næturgesti? Annars fær maður aldrei frið! Já, þannig eigum við að biðja, segir Jesús, með þrautseigju og úthaldi.

Þetta er ekki einhver einhliða málarekstur. Bænir eru hluti af heilbrigðu sálarlífi hvers og eins okkar. Þær ættum við að rækta og þroska með okkur. Rannsóknir hjartalækna við Harvard háskóla frá árinu 2001 sýna að endurteknar bænir hafa góð áhrif á hugann, hægja á efnaskiptum og geta unnið gegn kvíða og öðrum vágestum.

Einnig sýna þær að áhrif bæna á mannslíkamann megi meðal annars mæla í lækkaðri tíðni heilabylgna, lækkuðum blóðþrýstingi, hægari efnaskiptum, hægari hjartslætti og betri súrefnisnotkun líkamans. Þegar við biðjum þá sendir líkaminn okkur þau skilaboð að þetta sé okkur eðlislægt og sjálfsagt. Bænir hafi góð áhrif á sjálfsmat fólks og heilbrigði og bæta lífsgæði.

Bænin er prófsteinn á trú
Og já, hvað er betri mælikvarði á trú okkar og lífsafstöðu en einmitt það hvort við getum stundað slíka iðju? Ritskýring, afstaða til játninga, hugmyndir um náttúru og yfirnáttúru – eru af ýmsum toga. En þar sem við lútum höfði í bæn, göngum við inn í hjarta og kjarna alls hins besta í átrúnaði. Við mætum verkefnum og leitum eftir stuðningi við úrlausn þeirra.

Bænir hafa líka pólitísk áhrif. Í Austur-Þýskalandi voru kirkjurnar upphafsreitur þeirra mótmæla þar sem fólk kom saman til bænastunda. Þaðan streymdi svo fólkið út á torgin til að mótmæla einræðinu og krefjast aukinna réttinda.

Hvaðan kemur mér hjálp? Svona var ákall þeirra sem litu óttaslegnir upp til fjallanna. Sú spurning endurómar í gegnum söguna, meðal annars í vestfirsku þorpi á tíunda áratug síðustu aldar. Á bænadeginum beinum við sjónum okkar ekki aðeins inn á við. Enginn skyldi vanmeta áhrifamátt þess þegar bænheitt fólk safnast saman, lítur raunsæjum augum á ógnir, vandamál, viðfangsefni og áskoranir – og leitar að stuðningi. Allt þetta er hugðarefni okkar nú á bænadegi kirkjunnar.