Eitt af stefjum dagsins eru fórnir. Fórnir eru magnað fyrirbæri sem við þekkjum vissulega úr sögunni. Þær eru í raun svo viðamikill þáttur af lífi okkar að þær rúma allt litrófið. Þær geta verið lofsverðar og þær geta verið hryllilegar, forkastanlegar.

Mannfórnir
Mannfórnir eru dæmið um slíkt. Það þarf þó ekki svo mikið til svo að hrollur fari um mann við tilhugsunina um geigvænleg gjöld sem greidd eru í einhverju skyni. Og víst birtast mannfórnir í ýmsum myndum. Í styrjöldum fórna ráðamenn mannslífum og ómetanlegum verðmætum. Það er alþekkt í mannlegu eðli að ef einu sinni er byrjað að færa fórnir og það skilar engum árangri – þá hætta menn ekki þeirri iðju heldur auka þær til allra muna. „Synir okkar fórust ekki til einskis“ sögðu þeir í fyrra stríði þegar þeir sendu fleiri og fleiri unga menn út á vígvöllinn þar sem þeirra biðu hryllileg örlög.

Já, ef við hættum bara núna og drögum sveitir okkar til baka – til hves dóu þá allir þessir ungu menn? Í krafti þeirrar makalausu hugsunar var enn fleiri mannslífum fórnað. Við sjáum reyndar þessa mótsagnarkendu afstöðu birtast víða í mannlegri tilveru. Í umræðu daganna er oft þaggað niður í allri gagnrýni með útgjöld með þeim rökum að nú þegar sé búið að ausa svo miklum peningum í verkefnið og það væri því óráð að nema staðar núna. Þessum sjónarmiðum hafa til dæmis talsmenn þess að reisa spítalann við Hringbraut ítrekað beitt, þrátt fyrir alla annmarkana sem eru á þeirri framkvæmd.

Viðurkenndar fórnir
Svo eru það þessar fórnir sem eru ekki bara eðlilegar og réttlátar heldur beinlínis nauðsynlegar. Kornhlöðurnar sem Jesús talar um í guðspjallinu eru reyndar skínandi dæmi um slíka hugsun. Fólk leggur til hliðar hluta uppskerunnar til að eiga fyrir mögru dagana. Mögnuð er sú hugsun við getum leikið okkur með það hversu miklu hún áorkaði. Þarna þurfti skipulag á hlutunum, yfirvöld sem fólk hlýddi og auðvitað viljann til að færa fórnir, leggja eitthvað frá sér sem nýtist svo til síðari tíma. Sjálf athöfnin að taka æta matjurt og grafa hana í jörð er það í raun einnig. Síðar sækjum við enn meiri mat í jörðina. Vel má vera að þarna liggi sjálf hugmyndin um fórnina, sem gefur okkur einhver miklu betri gæði síðar.

Þótt okkur kunni að finnast hugmyndin um fórnir hluti af horfinni veröld, mýtum og hjátrú, er það nú svo að sá gjörningur að láta af hendi einhver verðmæti þegar við höfum unnið til þess, sígildur og viðurkenndur enn í dag. Sektir, frelsissvipting og ýmsar aðrar hömlur eru í þessu sambandi viðurkenndar fórnir. Auðmýkt og afsökun koma að sömu notum þegar við höfum farið út fyrir eðlileg mörk.

Lex Talionis
Þekktasta lýsingin í þessum efnum er hið svonefnda lex talionis – lögmál endurgjaldsins: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Það felur það í sér að við þurfum að fórna til þess að jafnvægi komist á að nýju, að friðurinn verði ekki fenginn nema að einhver gæði séu látin af hendi. Þarf ekki að vera auga eða tönn – í hinum forna heimi höfðu þeir og aðrir líkamshlutar verðgildi og fólk gat borgað skaðabætur fyrir miska sem það hafði valdið öðrum. Hér ber allt að sama brunni.

Það er einmitt þá sem við sjáum það hvað hugmyndin um fórn situr djúpt í sálu okkar. Ef við burðumst með einhver óuppgerð mál, finnum fyrir þeim eins og steypu í maganum – allt þar til við stígum fram og já, fórnum einhverju af stoltinu okkar eða jafnvel hroka. Komum fram í auðmýkt og reynum að bæta fyrir það sem við höfum gert. Þá er fargi af okkur létt og ef rétt er að verki staðið endurnýjast vinabönd. Það voru til að mynda vonbrigði þegar KR-ingar tóku að mögla þegar einn úr þeirra hópi var dæmdur í fimm leikja bann fyrir kynþáttaníð. Þarna gafst tækifæri til að sýna í verki hversu sorglega röng þessi ummæli voru, taka út sína fórn, sýna auðmýkt og læra af öllu saman og stíga upp sem betri og vísari menn.

Að gera það sem er rétt
Já, fórnirnar er stef dagsins. Hér talar spámaðurinn Míka fyrir munn Drottins. Þetta er magnaður texti. Ævaforn að sjálfsögðu, fluttur í kringum árið 700 fyrir Krist og eins og svo margt í Biblíunni þá er eins og það miðli til okkar þeirri hugsun að sumt í mannlegu eðli breytist ekki. Þarna höfðu miklar hörmungar átt sér stað. Óvinir ráðist inn í landið og spámaðurinn varaði við því að Jerúsalem myndi verða lögð í eyði og öll Júdea falla í óvinahendur. Um framhaldi af þeim hörmungum boðaði hann betri tíma og sá fram á skeið réttlætis og friðar.

Í því samhengi standa þessi orð, þar sem fólkið reynir að blíðka guðdóminn með því að slátra nautgripum og færa aðrar dýrar afurðir á altarið. Hann meira að segja minnist á þá fórn sem hér var nefnd – mannfórnina: „Á ég að fórna frumburði mínum fyrir synd mína, ávexti kviðar míns fyrir misgjörðir mínar?“ Þarna kallast þessi saga á við aðra þekkta frásögn, fórn Ísaks, þegar Abraham fékk þau fyrirmæli að fórna syni sínum á altari Drottins. Sú frásögn hefur verið íhugunarefni hugsuða á öllum tímum. Hér er vísað í sömu átt. Þetta voru líka ögurstundir og fólkinu virðist hafa fundist það sjálfsagt og eðlilegt að finna það besta sem það átti á heimilum sínum og búum og gefa Guði, í þeirri von að gæfan muni fara að snúast þeim í vil.

Og rétt eins og Drottinn létti byrðum af herðum ættföðurins Abrahams, færði honum hrútlamb sem hann gat fórnað, þá verður niðurstaða Míka á þessa leið:

Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er
og hvers Drottinn væntir af þér:
þess eins að þú gerir rétt,
ástundir kærleika
og þjónir Guði í hógværð.

Það er svo margt í þessum texta sem talar til okkar. Hver er munurinn á þessum tveimur gerðum fórna sem spámaðurinn talar um – annars vegar þær sem eru Guði ekki þóknanlegar og svo þær sem eru Guði að skapi? Jú, hið fyrra, með öllum sínum kostnaði, er í raun aðferð til að leysa sig undan allri ábyrgð. Kálfurinn sem fórnað er, kvittar fyrir misgjörðirnar eða jafnvel frumburðurinn sem fær sömu örlög, felur það í sér að gjaldið hefur verið greitt og það þarf ekkert meira til. Að loknu því ódæðisverki telur sá sem fórnina færði eins og allt sé í lagi með líf hans, gagnvart hinum háa dómara. Því hafnar Míka í þessum texta og hann á marga skoðanabræður í Biblíunni. Því hér er ekkert sem kallar á endurskoðun hugans og hjartans. Hér snertir fórnin ekki á því sem mestu skiptir sem er afstaða mannsins og gjörðir hans, að ástunda kærleika og þjóna Guði í hógværð.

Biblíuna má að einhverju leyti skilja sem eina risastóra hugleiðingu um þetta mannlegu hugsun, að færa fórnir. Í upphafsköflum hennar verður fyrsta mannvígið þegar þeir Kain og Abel færa hvor sína fórn og Drottinn horfir með velþóknun á fórn Abels. Í reiði sinni drepur Kain bróður sinn. Hvað er þar á seyði? er þetta ekki sígilt stef þegar einstaklingur, hópur eða þjóð leggur mikið á sig en uppsker ekki neitt? Hver atburðurinn rekur annan, já allt til þess þegar Jesús brýtur brauðið eftir síðustu kvöldmáltíð sína með lærisveinunum, gefur þeim og segir: Þetta er líkami minn. Þarna birtist okkur sjálft uppgjörið við þessa hugsun – hin eina og algera fórn eins og kristnir höfundar orðuðu það.

Að endingu er það hjartalag okkar og afstaða til náungans sem endurspeglar trúna sem í brjósti okkar býr. Auðsöfnunin ein gagnast sálu mannsins ekki neitt, eins og Kristur talar um í guðspjalli dagsins. Sú fórn að leggja til hliðar auðinn, sitja á honum en nýtast ekki til framdráttar Guðs góðu sköpun verður að endingu marklaus. En líf okkar í auðmjúkri þjónustu við náungann ríkt að innihaldi og tilgangi. Það er sú fórn sem er Guði þóknanleg.