Hvað gerist þegar barn sem aldrei hefur samband við föður sinn í öðrum tilgangi en að sníkja eitthvað hefur samband? … Segir … faðirinn: „Gaman að heyra í þér? Hvað segirðu gott?“ Er ekki líklegra að viðbrögðin verði frekar smám saman: „Hvað vantar þig núna?“ Prédikun Davíðs Þórs 28. janúar.
Ég á vin. Ég er með númerið hans í minninu í gemsanum mínum og get hringt í hann hvenær sem er. Hann er ætíð til taks og stendur með mér í hverri raun. Ég get leitað til hans alltaf þegar ég þarf á honum að halda. Þetta er æðislega góður vinur minn. En ég hef reyndar aldrei talað við hann. Lífið hefur verið mér það hliðhollt að ég hef aldrei þurft á honum að halda.
Sjálfsagt þætti okkur flestum það býsna einkennilegt ef einhver myndi lýsa sambandi sínu við góðan vin sinn með þessum orðum. Þetta líkist eiginlega engu vinasambandi eins og maður þekkir það. Þetta líkist því miklu frekar hvernig maður umgengst Hjálparsveit skáta heldur en vini sína. Maður hringir ekki í Hjálparsveit skáta til að heyra hljóðið í stúlkunni eða piltinum á símanum, til að athuga hvernig hann eða hún hefur það. Maður hringir ekki nema maður sjálfur, eða einhver annar, sé í nauðum staddur og í brýnni þörf fyrir aðstoð.
Jesús er einkavinur okkar í hverri þraut, eins og segir í sálminum. En vinátta er ekki einstefna. Það verður að vera umferð í báðar áttir til að hún virki. Jesús er góður vinur. En hvernig vinir erum við? Erum við vinir sem hafa aldrei samband nema til að kvabba þegar okkur vanhagar um eitthvað, þegar þarf að redda okkur?
Við erum Guðs börn og köllum Guð föður okkar eða jafnvel Himnaföðurinn. En hvernig synir og dætur erum við? Hringjum við aldrei nema þegar okkur vantar pening? Komum við aldrei í heimsókn nema þegar þarf að skrifa upp á eitthvað fyrir okkur?
Er trúin okkur bara einhver andleg Neyðarlína eða er hún okkur skjól og stoð í daglegu lífi eins og sannur vinur og elskandi faðir eru?
Það er kannski ósköp eðlilegt viðbragð mannveru, sem skynjar smæð sína gagnvart almættinu, að finnast hún óþægilega veigalítil gagnvart því og vandamál hennar harla lítilvæg í samanburði við afrek skaparans og þau kosmísku verkefni sem hann hefur á sinni könnu frá degi til dags. Þess vegna segjum við „Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir“ og finnst mannalegra að göslast þetta áfram eins ein og óstudd og kostur er. Okkur finnst það hálfgerður ræfildómur að vera sífellt að nauða í Guði og Jesú og ónáða þá með okkar hvunndagslegu úrlausnarefnum, nánast eins og við séum að draga þá og ósnertanlegan heilagleika þeirra niður á okkar hégómlega, jarðneska plan.
En hvað gerist þegar barn sem aldrei hefur samband við föður sinn í öðrum tilgangi en að sníkja eitthvað hefur samband? Hvað gerist þegar vinur sem aldrei hringir nema til að betla slær á þráðinn? Segir vinurinn eða faðirinn: „Gaman að heyra í þér? Hvað segirðu gott?“ Er ekki líklegra að viðbrögðin verði frekar smám saman: „Hvað vantar þig núna?“
Það verður að rækta vináttu. Annars verða samskiptin smám saman stirð og klaufaleg. Hvernig talar maður við „æðislega góðan vin sinn“ sem maður hefur aldrei heyrt röddina í áður? Það er líklegt að manni myndi vefjast tunga um tönn strax og maður reyndi að ávarpa hann. Og ef maður þyrfti að fá hjá honum ráð eða úrlausn einhverra mála yrði samtalið sennilega fljótt líkara samræðum þjónustufulltrúa og viðskiptavinar heldur en trúnaðarsamtali góðra vina. Ekki svo að skilja að ekki sé gott að eiga góðan þjónustufulltrúa að á réttum stað, en hann er ekki einkavinur manns, maður býður honum sennilega ekki í afmælið sitt, og hann kemur manni líklega seint í föður stað.
Mér finnst guðspjalltexti dagsins lýsa því ágætlega hvað gerist þegar menn reyna að skilja hið óskiljanlega. Úr því getur aðeins orðið misskilningur. Klæði Jesú urðu skyndilega svo hvít að allt heimsins bleikiefni hefði ekki dugað til annars eins. Og Móse og Elía birtast og sitja á spjalli við Jesú. Hvernig bregst Pétur við? Viðbrögð hans eru eðlileg og mannleg; að reyna að skilja. Þegar maður sér Jesú, Móse og Elía sitja á hljóðskrafi er einhvern veginn ekki verið að segja manni að þarna sitji Jesús, Móse og Elía á hljóðskrafi. Maður bregst við með því að segja: Hvað er verið að segja mér með þessu? Pétur vissi að Guð Móse bjó í tjaldbúð. Hans niðurstaða er því fullkomlega rökrétt á þeim forsendum sem hann hafði til að ganga út frá: „Hér er verið að segja mér að reisa tjaldbúð og ekki eina heldur þrjár. Af því að þeir eru þrír.“
Úr þessu hefði ábyggilega mátt smíða fallegt trúarlegt kenningakerfi og guðfræðilega rökrétta heimsmynd sem fullkomlega hefði staðist sínar eigin innbyrðis forsendur. Hver tjaldbúð hefði getað táknað eitthvert afmarkað svið guðdómsins og samspil búðanna þeirra á milli hefði síðan aftur verið táknmynd hins mannlega hlutskiptis gagnvart heilagleikanum, dúkurinn sjálfur verið ímynd forgengileikans og … bla bla bla. En það var ekkert það sem var ætlast til. Það sem ætlast var til var skýrt og skorinort: Þessi er minn elskaði sonur. Hlýðið á hann.
Við erum óttalegir flækjufætur og viljum flækja hlutina fyrir okkur. Þegar okkur birtist rödd af himnum ofan sem segir „Þessi er minn elskaði sonur. Hlýðið á hann.“ Þá eru okkar fyrstu viðbrögð ekki að segja: „Já, það skal ég gera.“ Heldur segjum við: „Hvað áttu nákvæmlega við með því?“ Rétt eins og það geti farið á milli mála hvað átt sé átt við, eins og hægt sé að skilja þessi fyrirmæli á marga mismunandi vegu. Jafnvel værum við vís með að segja: „Og þú ert … ?“ Rétt eins og margir komi til greina sem myndu ávarpa mann með þrumuraust af himnum ofan.
Við höfum eðlislæga þörf fyrir að skilja heiminn, að setja hann í kerfi, flokka hann og skilgreina. Það veitir okkur öryggi að vita hvernig umhverfi okkar virkar og af hverju. Þannig höfum við líka ákveðna stjórn á því. En þegar við stöndum frammi fyrir einhverju sem er ofvaxið skilningi okkar, einhverju sem er ekki af efnisheiminum sem við erum af, einhverju sem er handan hins rökræna í eðli tilverunnar, þá vandast málið. Hvernig eigum við að hafa stjórn á því? Vanmáttur okkar er alger. Enda eru því í raun afar lítil takmörk sett til hve mikillar hugmyndauðgi við grípum þegar kemur að því að koma sýstemi á alvaldið, að koma einhverjum böndum á hugmyndina til þess eins að ná á einhvern hátt að meðtaka hana. Til að hafa stjórn á Guði frekar en að leyfa honum að stjórna.
Einu sinni var mér sögð saga sem ég veit ekki hvort er alls kostar sönn eða ekki. En það gildir einu, því hvort sem hún er sönn eða login geymir hún gríðarmikinn sannleik, að mínu mati. Hún er á þá leið að einhvern tímann hafi austurkirkjan klofnað í tvennt út af ágreiningi um það hvort presturinn ætti að gera krossmarkið þegar hann blessaði söfnuðinn með tveimur fingrum eða þremur tveimur fyrir tvíþætt eðli Krists sem Guðs og manns eða þremur fyrir hinn þríeina Guð. Kannski var eins gott að engum skyldi detta í hug að hugsanlega væri hinn æðsti sannleikur aðeins einn og óbreytanlegur, því þá hefði þriðji klofningshópurinn sennilega orðið til, sá sem vildi gera krossmarkið með einum fingri. En þegar hver menningarheimur grípur til sinna eigin útskýringa á uppbyggingu og eðli almættisins og er sannfærður um þær séu hinar einu réttu, enda komnar milliliðalaust frá Guði sjálfum, og að allar aðrar útskýringar séu villutrú og hindurvitni, og þegar trúarbrögðum, eða jafnvel bara einstökum greinum af meiði sömu trúarbragða, lýstur saman út af ágreiningi um sértæk skilgreiningaratriði guðdómsins eða átrúnaðarins þá hefur okkur tekist að flækjufótast ansi langt frá þeim tæra einfaldleika sem ætti að vera kjarni trúarinnar.
Við kunnum aðeins eina aðferð
til að skilja sköpunarverkið; að skilgreina það, flokka og setja í kerfi. Og við reynum að beita skaparann sömu aðferð til að skilja hann. Við veltum honum fyrir okkur með aðferðum rökfræðinnar. Tilvist Guðs verður að áhugaverðu heimspekilegu umræðuefni á kaffihúsi. Guð verður fjarlægt og ópersónulegt viðfangsefni í einhverju debatti í stað þess að vera lifandi raunveruleiki. Þetta leiðir af sér alls konar deískar og þeískar pælingar og jafnvel á verulega slæmum dögum panþeískar hugmyndir, sem allar eiga það sameiginlegt að vera svo upphafnar og frumspekilegar að allt sem kalla mætti einhvers konar persónulegt vitundarsamband við Guð hljómar eins og frumstætt kukl eða versta nýaldarþrugl.
Fyrir vikið verður bænin lítið annað en úrelt sjálfssefjunarritúal með þeim afleiðingum að við höfum ekki samband við Guð nema lífið liggi við og þá með slæmri samvisku, eins og gagnvart ættingja sem maður hefur vanrækt lengi en þarf nú að biðja um aðstoð. Jesús verður áhugaverð söguleg persóna sem að öðru leyti kemur manni ekki beinlínis við, í stað þess að vera einkavinur í hverri þraut. Og Guð hættir að vera himnafaðirinn og verður þess í stað hjálparsveitin á himnum, sem maður ónáðar ekki að óþörfu, ekki frekar en að maður hringi í Neyðarlínuna til að halda stúlkunni eða piltinum á símanum uppi á snakki þannig að aðrir, sem þurfa meira á þjónustunni að halda, komast ekki að.
Þannig skerum við Drottin niður við trog með því að þröngva honum ofan í mannlegan skilning. Með þessu erum við nefnilega að segja að það sé aðeins svo og svo miklu af alvaldinu til að dreifa og að við séum hugsanlega að taka það frá einhverjum sem þarf meira á því að halda en við, með því að hleypa því inn í líf okkar á hverjum degi.
Við erum kontrólfrík, stjórnunarfíklar. Við viljum ekki bara vita nákvæmlega hvað er á seyði heldur líka af hverju það var ekki borið undir okkur, hver leyfði það, hver græðir á því og hvaða áhrif það hefur á okkur. Síðan viljum við líka vera sæmilega upplýst um það hvað verður á seyði á morgun. Við erum undir þeirri kvöð, frá því að við förum á fætur á morgnana þangað til við leggjumst til hvílu á kvöldin, að vera með á nótunum, að skilja það sem fyrir ber, skilgreina áreiti og flokka verkefni með öðrum orðum: að stjórna lífi okkar.
Auðvitað ættum við að taka því fegins hendi þegar við fáum frí frá þeirri kvöð, þegar við þurfum ekki að skilja neitt eða vita heldur bara að meðtaka og treysta. En við kunnum það ekki, við þurfum að læra það. Annars verður „Hlustið á Jesú“ að „Reisið þrjár tjaldbúðir“ eftir að við höfum í eigin mætti brotið það til mergjar sem verið var að segja okkur.
En ef við leggjum okkur fram getur okkur tekist að upplifa léttinn þegar því oki er lyft af okkur að þurfa alltaf að hafa öll svör á reiðum höndum og við getum hvílt sál okkar í trausti á Guð. Þegar okkur tekst að sleppa og treysta. Þegar okkur tekst að láta af og leyfa Guði. Þegar við finnum að við þurfum ekki að gera neitt annað en að hætta að stjórna og vita og skilja og hleypa Guði að.
„Ó, það slys því hnossi að hafna,
hvílíkt fár á þinni braut
ef þú blindur vilt ei varpa
von og sorg í Drottins skaut.“
… orti Matthías.
Það sem ég er að segja hér eru auðvitað hvorki nein ný sannindi né djúp speki. Í raun má segja að ég sé aðeins að ítreka gamla, þjóðlega visku; að hægt sé að grugga tærleika einfaldrar trúareinlægni með kenningakerfum og kreddum. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er falleg, lítil saga um þetta. Þar segir frá kerlingu einni sem kunni ekkert annað en faðirvor og las það á hverjum morgni og hverju kvöldi með hinni mestu andakt. Sáu menn ljós yfir rúmi hennar ávallt er hún las á kvöldin. Menn fóru að kenna henni ýmislegt annað andlegt, en upp frá þeirri stundu sáu menn aldrei ljósið.
Prédikun flutt í Neskirkju 28. janúar, 2007
Amen.
Textar síðasta sunnudags eftir þrettánda:
Lexían; Sl. 89. 2-9
Um náðarverk Drottins vil ég syngja að eilífu, kunngjöra trúfesti þína með munni mínum frá kyni til kyns, því að ég hefi sagt: Náð þín er traust að eilífu, á himninum grundvallaðir þú trúfesti þína. Ég hefi gjört sáttmála við minn útvalda, unnið Davíð þjóni mínum svolátandi eið: Ég vil staðfesta ætt þína að eilífu, reisa hásæti þitt frá kyni til kyns. Þá lofuðu himnarnir dásemdarverk þín, Drottinn, og söfnuður heilagra trúfesti þína. Því að hver er í himninum jafn Drottni, hver er líkur Drottni meðal guðasonanna? Guð er ægilegur í hópi heilagra, mikill er hann og óttalegur öllum þeim, sem eru umhverfis hann. Drottinn, Guð hersveitanna, hver er sem þú? Þú ert voldugur, Drottinn, og trúfesti þín er umhverfis þig.
Pistillinn: 2. Kor. 3.12-4.2
Þar eð vér nú höfum slíka von, þá komum vér fram með mikilli djörfung og gjörum ekki eins og Móse, sem setti skýlu fyrir andlit sér, til þess að Ísraelsmenn skyldu ekki horfa á endalok ljóma þess, sem var að hverfa. En hugur þeirra varð forhertur. Því allt til þessa dags hvílir sama skýlan yfir upplestri hins gamla sáttmála og henni hefur ekki verið svipt burt, því að aðeins í Kristi hverfur hún. Já, allt til þessa dags hvílir skýla yfir hjörtum þeirra, hvenær sem Móse er lesinn. En þegar einhver snýr sér til Drottins, verður skýlan burtu tekin. Drottinn er andinn, og þar sem andi Drottins er, þar er frelsi. En allir vér, sem með óhjúpuðu andliti endurspeglum dýrð Drottins, ummyndumst til hinnar sömu myndar, frá dýrð til dýrðar. Þetta gjörir andi Drottins. Með því að vér höfum þessa þjónustu á hendi fyrir miskunn Guðs, þá látum vér ekki hugfallast. Vér höfnum allri skammarlegri launung, vér framgöngum ekki með fláttskap né fölsum Guðs orð, heldur birtum vér sannleikann, og fyrir augliti Guðs skírskotum vér til samvisku hvers manns um sjálfa oss.
Guðspjallið: Mk. 9.2-9
Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, og klæði hans urðu fannhvít og skínandi, og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gjört. Og þeim birtist Elía ásamt Móse, og voru þeir á tali við Jesú. Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: Rabbí, gott er, að vér erum hér. Gjörum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina. Hann vissi ekki, hvað hann átti að segja, enda urðu þeir mjög skelfdir. Þá kom ský og skyggði yfir þá, og rödd kom úr skýinu: Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann! Og snögglega, þegar þeir litu í kring, sáu þeir engan framar hjá sér nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bannaði hann þeim að segja nokkrum frá því, er þeir höfðu séð, fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum.