Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna í samvinnu við Kór Neskirkju, Drengjakór Reykjavíkur og Listaháskóla Íslands. Efnisskrá: Steingrímur Þórhallsson: Hulda (frumflutningur) Ludwig van Beethoven: Fiðlukonsert í D-dúr, opus 61. Stjórnandi: Oliver Kentish. Kórstjóri: Steingrímur Þórhallsson. Einsöngur: Hallveig Rúnarsdóttir, sópran. Einleikari á fiðlu: Hulda Jónsdóttir
Verk Steingríms, Hulda, er samið fyrir kór, drengjakór, sópran og hljómsveit. Verkið er útskriftarverkefni Steingríms í meistaranámi við Listaháskóla Ísland og er samið við tvö ljóð Huldu (Unnar Benediktsdóttur Bjarklind). Um verk sitt skrifar Steingrímur eftirfarandi: „Í nokkur ár hef ég verið að semja kórtónlist við ljóð Huldu, en ég á ættir mínar að rekja norður í land, en Hulda bjó lengi á Húsavík. Þetta verk er samið við tvö ljóð hennar, Ljáðu mér vængi og Segðu það móður minni, nokkuð draumkennd ljóð og má heyra það sums staðar í verkinu. Verkið tileinka ég konunum í mínu lífi og er verkið mitt framlag og hvatning til minna æskuslóða um að muna eftir listamönnum sínum, bæði lífs og liðnum og kynna fyrir unga fólkinu fyrirmyndir eins og Huldu.“ Fiðlukonsert Beethovens er eitt af vinsælustu verkum tónbókmenntanna, stundum kallaður drottning fiðlukonsertanna. Hulda Jónsdóttir leikur einleik í konsertinum. Hún stundaði nám m.a. í Listaháskóla Íslands og Juillard School í New York og lauk þaðan meistaraprófi 2015. Síðan hefur hún starfað með ýmsum hljómsveitum í Evrópu.
Afsláttarverð við inngang kr. 1.500 fyrir börn, nemendur og eldri borgara