Umræður um hreinsunaraðferðir er yfirskriftin á samtali um sýningu Arnars Ásgeirssonar í Neskirkju sem fram fer föstudaginn langa, 7. apríl í kjölfar helgistundar sem hefst kl. 11.00. Arnar birtir okkur karlmannsskrokka, vörpulega í viðurkenndum hlutföllum. Allt frá fornöld hefur þetta þótt vera hið fullkomna form mannslíkamans. Við ættum að kannast við fyrirmyndirnar. Eitthvað er samt bjagað við þessar styttur. Útlimir hafa verið fjarlægðir og svo vitaskuld það sem gerir karlana allt að því broslega – þeir eru orðnir að handhægum neytendaumbúðum, gerðir úr plasti og fylltir sápu. Í stað höfuðs þar sem ásjónan býr, hugsunin og hið auðkennanlega við hverja manneskju er kominn tappi. Hann kallar fram þau hughrif að notagildið sé mjög afmarkað. Nú fer fram róttækt endurmat þar sem við spyrjum hvort fyrirmyndirnar gömlu hafi í raun verið forkastanlegar þegar á allt er litið. Eins og hæfir öllum byltingum þá er styttum velt af stalli sínum. Þeir sem áður þóttu lofsverðir fyrir framtak sitt – eru nú táknmyndir mengaðrar karlmennsku. Yfirskrift sýningarinnar vísar þó ekki til umbúðanna heldur þess sem þær geyma – sápuna. Hreinsunaraðferðir eru að endingu það sem skiptir máli. Hvernig náum við því aftur sem hefur glatast og reisum það við sem er brotið? Hvað gerist þegar við stígum sjálf niður af stallinum, viðurkennum breyskleika okkar og takmörk, þörf fyrir hjálp og þá staðreynd að við erum ekki úr marmara eins og fyrirmyndir verka Arnars. Markmið okkar sem samfélags á ekki að vera að útskúfa heldur að gefa fólki kost á að snúa aftur, koma til baka. Játningin er forsenda þess að unnt sé að hreinsa burtu það sem mengar og eitrar. Með henni geta brotin samfélög orðið heil og breyskir einstaklingar endurheimt stöðu sína og tilverurétt.