Sunnudaginn 5. desember kl. 13. mun Guðni Elísson prófessor í almennri bókmenntafræði ræða við Hallgrím Helgason, rithöfund og myndlistarmann um sýningu hans, Það þarf að kenna fólki að deyja. Á sýningu Hallgríms, gefur að líta málverk og teikningar sem kviknuðu út frá andláti föður listamannsins, sem lést á síðasta ári. Hallgrímur málar bæði krabbamein og dánarstundir auk tilgátuportretta af Dauðanum sjálfum. Einnig fylgja nokkur verk af persónulegu tagi sem urðu til eftir langar setur listamannsins á líknardeildinni. Verkin snerta á mörgum þáttum lífs og dauða og þarna gefst kostur á að fá innsýn í afstöðu listamannsins til þessara þátta.