Ertu jólabarn?
Þessi titill stakk í augu þegar ég las þessi sérstöku jólablöð dagblaðanna. Þau eru skemmtilegt sambland af auglýsingum og uppskriftum í bland við viðtöl við fólk sem sumt byrjaði að útbúa jólin í ágúst og fær þannig umsvifalaust titilinn “jólabarn”.
Ég er líka jólabarn. Ég hlakka til aðventunnar og jólanna. Hlakka til þegar grámi skammdegisins víkur fyrir marglitum ljósum, þegar aðventu- og jólatónlist fer að óma og þegar við verðum öll svolítið meirari en áður, viljum vera saman og viljum láta gott af okkur leiða, enda enginn mánuður betri til að safna til góðra mála.
Ég er jólabarn.
Ég skreyti lítið, baka lítið, hef jólagjafir og mataraðföng í hófi. Fagna því hins vegar leynt og ljóst hve margir hafa áhuga á að skreyta og baka og les af áhuga margar góðar uppskriftir og hugmyndir sem finna má í öllum blöðum á þessum tíma. Stundum hef ég gert eitthvað af þessu, til dæmis piparkökuhús eða paté. Dreymt um að steypa kerti. En stundum geri ég ekkert. Ég er sumsé jólabarn sem nýt þess að sjá tilbreytinguna á aðventunni en sé mig engan vegin knúna til að taka þátt nema mig langi sérstaklega til þess. Finnst tónleikar það hátíðlegasta sem ég sæki, fyrir utan helgihaldið sjálft um aðventu og jól. Ég er að vísu svo heppin að starfa í kirkju og fæ því að njóta aðventu- og jólatónlistar alla sunnudaga og oft í miðri viku líka.
Vinkona mín kom í heimsókn nú á aðventunni og sagðist ekkert finna fyrir jólunum. Einhver sem hafði heyrt það fór að segja henni að fara heim og kveikja á kerti og setja jólatónlist á. Þá myndi hún finna réttu stemninguna. Það var eins og hún yrði að finna fyrir því að jólin væru að koma. Hún bókstaflega yrði að vera í jólaskapi. Yrði að vera í jólagír eða jólastuði, eins og þetta ástand er stundum kallað í fjölmiðlum, af fullkomnu tillitsleysi við þau sem af ýmsum ástæðum hafa ekki hrifist af aðventunni og kvíða jafnvel jólunum. Því að þau eru fleiri en margan grunar. Ástæðurnar geta verið margar; slæmar minningar er tengjast jólum, einsemd, erfiðar fjölskylduaðstæður, fátækt, veikindi eða andlát ástvinar.
Það er frábært hve margir leggja sig fram um aðventu við að undirbúa jólin á ýmsan hátt, með ljósum, skrauti og mat. En þegar við sem njótum aðventunnar og hlökkum til jólanna tölum um það, skulum við hafa í huga að jólin sem hin mikla neyslu- og fjölskylduhátíð eru ekki jól allra.
Eitt af því stórkostlega við aðventuna er að fylgjast með öllum þeim sem taka virkan þátt í að safna til góðra mála fyrir jólin. Það er fátt meira í anda kristinna jóla en að styðja þau sem eiga undir högg að sækja. Því að andi jólanna birtist okkur einmitt í því viðkvæmasta og varnarlausasta sem við þekkjum: nýfæddu barni. Barni fátækra foreldra í hernumdu landi þar sem talsverð spenna ríkti milli almúga og yfirvalds. Boðskapur hinna kristnu jóla birtist í helgisögu um fæðingu barns sem kveikti von um betra líf. Inntak jólanna er að Guð leitar þín og að Guð mæti okkur í því smáa og varnarlausa.
Þessi boðskapur er viðkvæmur. Svo viðkvæmur að hann getur auðveldlega týnst í öllum látunum við að skapa stemningu og jólaskap. En andstætt við neyslujólin þá er hann allra. Við getum öll verið jólabörn í þeim skilningi að við tökum við boðskap barnsins sem fæddist fyrir rúmum 2000 árum. Að við þiggjum að halda jól í félagsskap hans. Og þau jól standa öllum til boða. Það geta allir verið jólabarn.
Gleðileg jól.
(Þessi pistill birtist á vefsíðu Morgunblaðsins á aðfangadag 2017)