„Það er nú eitthvað að þessum manni. Hann sagði að ég væri dreki. Hann sagði ,,þú ert drekinn.“ Ótrúlegt, maður, það sama og hann sagði við mig í síðustu viku. Heyrðu förum að vinna!“

Drekar eru absúrd
Svona einhvern veginn byrjar grínserían Fóstbræður, ein sú besta sem að mínu áliti hefur verið sýnd í íslensku sjónvarpi. Þar ruddust fulltrúar minnar kynslóðar inn á svið íslenskrar grínmenningar. Efnið, getum við sagt, spratt upp úr þeim jarðvegi sem við ólust upp í. Þetta var samfélag hins fábrotna þar sem langar þagnir í fjölmiðlum þóttu ekki tiltökumál og „ekkert þótti fyndið nema að það væri nógu leiðinlegt“ – eins og komist var að orði í þáttunum. 

Bakgrunnur höfundanna, er líka í súrrealisma og pönki. Og þannig verður ávarpið til þessara litlausa skrifstofumanns – „þú ert drekinn“ algjörlega absúrd um leið og sviðsmyndin og tjáningin er þunglamaleg og hæg.

Hér verður talað um dreka sem birtast í ýmsum myndum. Þeir geta verið ormar sem vaxa stórnlaust, taka hamskiptum og hringa sig upp. Stundum eru þeir höggormar slægir og varasamir. Þá koma þeir vitaskuld fram í hinni hefðbundnu mynd drekans – sem vængjuð skriðdýr. Í trúartextum og þjóðsögum lesum við um stefnumót þeirra við fólk og guði. Þar eru þeir sennilega fulltrúar ákveðinna þátta í umhverfi okkar, og já mögulega einnig í okkar eigin fari. 

Í tilefni þess að við teygjum á hrekkjarvökunni og breytum skammdegisbirtu í skammdegishroll, langar mig að staldra við nokkra þætti í eðli og hátterni dreka sem kann að vera skýring á því, hversu tíðar heimsóknir þeirra eru á vettvang frásagna. Fer vel á því að erindið fái að hlykkjast um eins og ormur – þar sem gripið verður til ýmissa þátta og svipmynda af sögusviði dreka. Loks verður spurt hvort tímamótaskets Fóstbræðra sé mögulega hluti af sjálfu drekaminninu – einmitt því þegar fólk vísar í þessar undarlegu skepnur eða ættum við að segja – óskepnur. 

Levjatan
Það er jú eitthvað absúrd við dreka. „Hvað er málið með vængjaða orma?“ getum við spurt að hætti grínista. Hljómar það ekki eins og innri mótsögn? Drekar eiga líka heima í öllum víddum heimsins. Þeir lúra neðanjarðar undir fótum okkar, þar sem þeim grafa sín ormagöng. Þeir arka um yfirborð jarðar, nema á brott konungsdætur og leggja óráðanlegar gátur fyrir ferðalanga. Þeir hafast við ofan í hafdjúpinu þaðan sem þeir geta risið upp fyrirvaralaust, sökkt skipum og valdið ýmsum óskunda. Og svo svífa þeir um himinhvolfin, vængjum þöndum. 

Drekar eru sem slíkir tákn óreiðu og þess vegna eru algengt að á þá sé minnst í sköpunarsögum. Já, skaparar vinna bug á ringulreið og koma reglu á. Þeir búa ekki endilega neitt til – það er frekar að þeir taki til.

Í Davíðssálmum ávarpar skáldið Drottin og segir:

Þú klaufst hafið með mætti þínum,
þú braust sundur höfuð drekans á vatninu,
þú molaðir sundur hausa Levjatans,
gafst hann dýrum eyðimerkurinnar að æti.

Já, sköpunarsögur Biblíunnar víðar en í fyrstu Mósebók. Hér er sagt frá uppgjöri við drekann Levjatan sem í samhengi hlutanna stendur fyrir ólgu og óreiðu. Sköpun og skipan eru sama fyrirbærið og lýsingar á slíkum atburðum fjalla í raun ekki um það þegar óskapnaður breytist í sköpun. Kaos verður að kosmos.

Levjatan þessi kemur einnig fyrir í Jobsbók og hjá Jesaja. Hann á sér hliðstæðu í trúarbrögðum Mesópótamíu og víðar á þessu svæði. Þegar enski heimspekingurinn Thomas Hobbes ritaði tímamótaverk sitt, nefndi hann það: Leviathan. Orðið er samanstendur af tveimur orðhlutum – Lavah, merkir „að tengja“ og thannin þýðir „sporðdreki“. 

Þannig endurspeglaði orðið margbreytileika samfélaga sem væru bæði tengdir saman en þeim fylgdi líka valdbeiting og ógn. Völd eru svo stór hluti þeirra að hjá þeim verður ekki komist og þau vekja ugg í brjóstum manna. Þarna birtist okkur ein víddin á hugmyndinni um drekann. Það er ekki aðeins að að honum stafi einhver ógn en eins og þessi útlegging breska heimspekingsins ber með sér, hann á líka margt sameiginlegt með mannlífinu. Þar er tekist á um yfirráð, oft með ógnvænlegum hætti.

Innblásturinn fékk Hobbes úr Jobsbók þar sem hinn almáttugi Guð svarar raunamanninum sem bókin heitir eftir. Guð sýnir fram á mátt sinn þar sem hann í öndverðu réðist gegn óvættinum, Levjatan, sem hann lýsir með svofelldum hætti:

Sverð vinnur ekki á honum,
né lensa, spjót eða ör. […]

Kviður hans er alsettur hvössum broddum,
hann myndar breið för í eðjuna eins og þreskisleði.

[…]Enginn er jafnoki hans á jörðu,
hann var skapaður óttalaus.
Hann horfir á allt sem er hátt,
er konungur allra stoltra dýra.

Þetta er hluti þess sem guðfræðingar kalla sköpunarsögu Jobsbókar. Þar lýsir Guð sköpuninnni sem átökum við dreka, sem hefbundin vopn bíta ekki á. Þessa hugsun sjáum við víða í frásögnum af upphafi heimsins. 

Fórn drekans
Í norrænni trú drápu goðin, jötuninn Ými og hlutuðu í sundur líkama hans. Úr hverjum líkamsparti unnu þau einhvern hluta heimsins, hafið, fjöllin, himininn og svo framvegis. Frá því segir í Kristni sögu að um það leiti sem tekist var á um hinn nýja sið, hafi heiðnir menn framið mannfórnir. Þær fóru fram með þeim hætti að þeir vörpuðu fórnar-lömbum sínum fram af hömrum. Við fallið hafa bein þeirra brotnað og líkamar jafnvel sundrast. 

Jón Hnefill Aðalsteinsson telur að með þessu hafi þeir sem aðhylltust norrænan sið hermt eftir þeim fyrrnefndu atburðum sem lýst er í Völuspá. Með því að hluta skrokka þeirra í sundur hafi þeir leitast við að koma að nýju á reglu í samfélaginu, rétt eins og goðin gerðu með jötuninn Ými. Með kristnitökunni var öllu stefnt í voða að þeirra áliti. Þetta var þeirra sköpunarferli.

Í því ljósi er áhugavert að skoða þessi sístæðu minni um baráttu við dreka og óvætti. Í heiðnum sið eru fjölmörg önnur dæmi til viðbótar sköpunarsögu Völuspár. Sigurður Fáfnisbani vann bug á orminum Fáfni. Miðgarðsormur er nokkurs konar dreki og þegar Ragnarökum er lýst heyja æsir grimmilega orustu við orminn. 

Heilagur Georg og Waldorfskóli
Barátta við dreka er að sama skapi ríkur hluti af kristnum heilagra manna sögum. Þekktasta útgáfan er heilagur Georg sem leggur til atlögu við vængjaðan orminn og birtist meðal annars á íkonum og öðrum helgimyndum, einkum frá Austur kirkjunni. Georg kemur þó víðar við sögu. Hann er til að mynda þjóðardýrlingur Englendinga, konungar þess lands hafa borið nafn hans og krossinn hans er í fánanum. Krossfarar sem börðust í landinu helga á 13. og 14. öld komu heim með þessar sögur á vörunum og héldu því meira að segja fram að Georg og vopnabræður hans, dýrlingarnir Demetíus, Márus og Theódór, hafi staðið við hlið þeirra á vígvellinum er þeir öttu kappi við múslíma. 

Þessir gömlu féndur kristinnar Evrópu urðu því táknaðir með dreka. Í skjaldamerkjum ítalskra borga, sem háðu hildi við Ottómana, er að finna slík tákn. Þannig er á vélarhlíf Alfa Romeo sem framleiddur er í Mílanóborg, mynd af dreka með barn í kjaftinum. 

Slíkar viðureignir virðast búa furðudjúpt í vitund fólks og helgileikir þeim tengdum teygja sig allt norður til Íslands. Börn í Waldorfskólanum á Lækjarbotnum leika eftir hinn sístæða bardaga Georgs og drekans. Einu sinni á ári þá heyja þau orustu þar sem elstu börnin eru í hlutverki óvættarins og þau yngri eiga að sigra hann, með vináttu og söng. Þetta er blanda af gleði, samstöðu og ævintýri annars vegar og svo hins vegar af ógn, háska og hæfilegum hryllingi. 

Sum börnin verða undir í þessum átökum og þurfa að sitja í kjarrinu og bíða síns tíma. Um síðir tekst þeim að fella drekann og þegar hann er loks allur, er hópnum boðið upp á rauðrófusúpu – blóðrauða svo sem hæfir þeim leikslokum. 

Það væri fróðlegt að ræða við börnin sem fá að vera þátttakendur í þessu sígilda minni – um hvern lærdóm þau hafi dregið af leiknum. Drekinn er auðvitað táknmynd ógnar og áskorunar, sem í augum barna birtist oft í elstu börnunum á skólalóðinni. Það er þó ekki nóg. Skilaboðin eru mögulega þau sömu og búa að baki bæði sköpunarfrásögnum og átakasögum manna eða guða við dreka. Til þess að ná að komast áfram á sinni vegferð til visku og þroska þarf að mæta ókindinni – þessu fyrirbæri sem mögulegir ógnvaldar yngri barna í skólum leika, það er að segja eldri börnin. Þessi valdeflning geymir þess vegna hin sístæðu átök. 

Aldingarðurinn og upprisan
Frásögnin af krossfestingu Jesú kallast líka á við þessa hugsun. Hana hafa kristnir höfundar lesið og túlkað með hliðsjón söguna af Adam og Evu í aldingarðinum. Þangað vitjaði þeirra höggormur sem varð til þess að þau voru rekin út úr aldingarðinum. Guðfræðingar síðari tíma töluðu um Jesú sem hinn nýja Adam – þann sem átti að bæta fyrir afglöp hins gamla Adams. Og já, fætur hans með naglaförum, tengdu þeir sumir við orðin í Genesis, þar sem Guð talar um átök manna og Höggorms: 

Þeir skulu merja höfuð þitt
og þú skalt höggva þá í hælinn.

Með þessum hætti lásu þeir orðin, „steig niður til heljar“ sem hluta af kosmískum átökum við myrkraöfl. Hugmyndin um Christus victor, Krist sigurvegara gengur út á að hann hafi barist við sjálfan orminn sem dvaldi í djúpinu. Og eðli hans er enn margbrotnara. Hann er jú kynntur til sögunnar með orðunum: „Höggormurinn er slægari en önnur dýr merkurinn“ Það var þó ekki verra en svo að sjálfur sagði Jesús við lærisveina sína: „Verið slægir sem höggormar – en falslausir sem dúfur.“ 

Skríðum aftur inn í aldingarðinn. Sagan af Adam og Evu hefur sjálfsagt kveikt á öðrum hugartengslum hjá þeim er fyrst hlýddu á, en varð með síðari lesendur. Um leið og Adam og Eva fyldgu áeggjan ormsins skynjuðu þau nekt sína. Og það var ein refsingin sem höggormurinn hlaut, að eftirleiðis hlyti hann að skríða á kvið sínum. 

Var hann þá með fætur áður en hann tók þá refsingu út? Þessi sena hefur örugglega verið hluti af leikþætti hið forna. Ormurinn, drekinn veldur því að augu þeirra opnast og þau þekkja gott og illt. Þarna er komin inn hugmyndin um meðvitund – guðleg sýn sem var ekki til staðar. Eins og börnin í íslensku kjarri verður viðureign við drekann að vegferð til þroska og vaxtar.

Tákn visku og endurnýjunar
Upphafið að þeim ósköpum sem kristnir menn kenna við syndafallið er át af skilningstréi góðs og ills. Ormurinn er þarna tákn visku og endurnýjunar. Hann tekur hamskiptum. Hann bítur í halann á sér og myndar hring. Það hefur minnt hugsuði á viðgang og æxlun – munninn tengja þeir við kynfæri kvenna en halinn er þá samsvarandi fyrir karlana. 

Til að flækja málin má færa fyrir því rök að orðið Eva sé dregið frá hebreska orðinu Hevia, sem merkir kvenkyns höggormur. Þessi túlkun var viðurkennd í elstu útgáfum latneskrar þýðingar Gamla testamentisins – þar sem hún er kölluð Evia, sem styður sömu merkingu. 

Átök við dreka eru því margslungin og eiga auðveldan aðgang að undirmeðvitund okkar og skilningi. Hann tengist sköpun og endurfæðingu. Hvað varð um Jesú á tímanum á milli föstudagsins langa og páskadags? Engum sögum fer af því í guðspjöllunum en ímyndunarafli guðfræðinga eru engin takmörk sett og þeir færðu auðvitað dreka þangað inn. Hann var eins og stórfiskurinn sem gleypti Jónas og þar dvaldi hann í þrjá daga þar til hann spjó honum á land. Þannig tengdu þeir og fléttuðu saman frásagnir og færðu inn í samhengi upprisunnar.

Út fyrir öryggissvæðið
Þegar heilagur Georg ræðst til atlögu við vængjaðan orminn á ótal íkonum og styttum og skreytingum, þá er það líka utan við samfélagið. Átökin fara fram handan borgarmúranna sem sjást í bakgrunninum. Hann heldur í þennan leiðangur út fyrir öryggissvæði sitt og glímir þar við sjálfa óskepnuna. Það er ekki bara að hann drepi drekann með spjóti sínu, um leið frelsar hann meyjuna sem drekinn hafði haldið fanginni. 

Sigurinn gerir hetjunni kleift að halda áfram og hún færist yfir á nýjan stað í vegferð sinni, rétt eins og Sigurður Fáfnisbani. Þetta skynja líka börnin í Lækjarbotnum þegar þau, vígmóð eftir átökin, sötra blóðrauða súpuna. 

Drekinn stendur á krossgötum hins góða og hins illa. Skilaboðin frá sögunni, frá menningunni, frá undirmeðvitundinni – ef hún er þá til – eru þau að til þess að geta þroskast og vaxið verðum við að takast á við það sem við óttumst. Við gerum það ekki innan þægindarammans, heldur utan hans. Drekinn leiðir til breytinga. 

Hvar er paradísarmissirinn í sögunni af Adam og Evu? Er þetta svar við spurningunni, af hverju deyjum við? af hverju fæðing er sársaukafull? Er þetta upphaflega saga um umbreytingu, hamskipti, nekt og slægð? Það sem er enginn dauði, þar er ekkert líf. Þar sem eru engar aðgreiningar, þar er ekkert gott eða illt og enginn elskar. 

Og það er konan, Eva sem kann líka að merkja ormur – sem valdi það. Þetta kunna að vera bæði töfrar fornra sagna, sem og dapurlegt hlutskipti þeirra. Þær eru sagðar í framandlegum heimi og á öðru tungumáli svo orðaleikir glatast í þýðingum. Þær verða því auðveldlega mistúlkaðar en geyma líka meiri dýpt en í fyrstu kann að virðast.

Hann kallaði mig dreka!
 „Hann kallaði mig dreka!“ sagði furðu lostinn maðurinn. Hann hafði fengið þau skilaðboð frá yfirmanni sínum, að hann hefði misst starfið: „Þú ert rekinn“ sagði hann. En þarna var afneitunin slík að drekinn sjálfur læddist inn í túlkunina og allt varð með slíkum ólíkindum að enginn botnaði í neinu. Þungbúið samtal opnast eins og túlipani að vori og drekinn ryðst fram á sjónarsviðið. Við getum farið að túlka eins og við gerum með ævafornar sagnir.

Já, hvernig túlkum við þennan drekaskets sem markaði upphaf nýrra tíma í grínmenningu okkar?

Er það ekki einmitt á slíkum krossgötum í lífinu, sem skrifstofublókin stóð á, að hvert og eitt okkar þarf að vígbúast og leggja til atlögu við drekann sem bíður fyrir utan borgarmúrana?