Laugardaginn 6. maí, kl. 18:00 verður óratórían Júdas Makkabeus eftir G.F. Händel flutt í Neskirkju. Flytjendur eru Kór Neskirkju, Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Hildigunnur Einarsdóttir alt, Gissur Páll Gissurarson tenór, Fjölnir Ólafsson bassi og Hátíðarbarokksveit Vesturbæjar. Stjórnandi er Steingrímur Þórhallsson. Miðasala á tix.is. Aðgangseyrir kr. 4.000
Óratórían Júdas Makkabeus sló í gegn og varð eitt vinsælasta verk Händels meðan hann lifði. Hér er saga af sigrum fólks og fögnuði, sögð með hádramatískri og dýrðlegri tónlist. Händel er hér upp á sitt besta; kröftugir kórkaflar, hrífandi dúettar og eldheitar aríur. Kraftur og glæsileiki kórkaflanna gefa Messíasi Händels ekkert eftir. Hér gefst einstakt tækifæri til að hlýða á lifandi flutning á þessu magnaða verki.
Flutningur óratóríunnar nú í maí í Neskirkju er liður í því að halda upp á 60 ára vígsluafmæli kirkjunnar, sem hefur frá upphafi verið menningar- og mannlífstorg í Vesturbænum. Svo skemmtilega vill til að Júdas Makkabeus hefur tvisvar áður verið flutt á Íslandi, í bæði skiptin í maí og í næsta nágrenni Neskirkju. Óratórían var fyrst flutt í Trípólí-leikhúsinu 1947, eða um það leyti sem hafist var handa við byggingu Neskirkju. Þar stjórnaði Victor Urbancic Samkór, Drengjakór og Hljómsveit Tónlistarfélagsins. Söngsveitin Fílharmónía og Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Guðmundar Emilssonar flutti verkið í annað sinn árið 1985 í Háskólabíói.
Händel samdi óratóríuna Júdas Makkabeus árið 1746. Líbrettóið byggir á tveimur apókrýfum ritum Gamla testamentisins, fyrstu og annarri Makkabeabók. Þar er fjallað um Judas Makkabeus, sem komst til áhrifa í Júdeu í kringum 170 – 160 f.Kr. og vann sigur á Sýrlendingum í nafni gyðingdóms. Óratorían er samt sem áður sprottin af pólitískum atburðum á Englandi. Hún var samin til heiðurs William Augustus hertoga af Cumberland, sem vann frægan sigur á Jakobínum og Charles Edward Stuart prins í orrustunni við Culloden í apríl árið 1746. Sneitt er hjá beinum tilvísunum í hina nýliðnu pólitísku atburði en biblíusagan sem textinn byggir á höfðaði til áheyrenda. – Hið þekkta sálmalag Lof syngið drottni er úr þessari stórkostlegu óratóríu Händels