Ashura hátíð verður haldin í Neskirkju laugardaginn 26. nóvember 2016 kl. 14 – 16.
Hátíðin er haldin í samstarfi við félagið Horizon, sem var stofnað af ungum muslimum sem vilja vera virkir í samtali við aðra hópa samfélagsins í að brjóta niður múra og byggja traust. Hátíðin er öllum opin og aðgangur er ókeypis.
Ashura hátíðin minnist þess þegar Nói steig á land eftir flóðið og gerði sér graut úr öllum þeim jurtum sem hann fann. Henni er því jafnan fagnað með sérstökum graut úr fjölda jurta og með góðum mat. Boðið verður upp á tyrkneskan mat í Neskirkju og auðvitað Ashura grautinn.
Þetta er í þriðja sinn sem hátíðin er haldin í Neskirkju. Að þessu sinni verður lögð áhersla á tónlist. Tónlistarmaðurinn Zeki Köse mun leika á hljóðfærið Kanun, Anna Jónsdóttir syngur tyrkneskt lag og Barnakór Neskirkju syngur. Sr. Þórhallur Heimisson flytur erindi um mikilvægi samræðunnar.
Markmið hátíðarinnar er að efla og bæta samfélag fólks, auka skilning og samhug.