Kór Neskirkju, Stúlknakór Neskirkju, ríflega 20 manna barokkhljómsveit og einsöngvarar flytja Jólaóratoríu J.S. Bach í Neskirkju föstudagkvöldið 5. desember kl. 19.30 undir stjórn Steingríms Þórhallssonar. Einsöngvarar á tónleikunum verða þau Hallveig Rúnarsdóttir, sópran, Jóhanna Halldórsdóttir, alt, Þorbjörn Rúnarsson, tenór og Hrólfur Sæmundsson, baritón. Fluttar verða kantötur I, II, III og VI. Aðgangseyrir er kr. 4.000 og kr. 3.500 í forsölu. Miðasala hefst á næstu dögum og fást miðar í Neskirkju, hjá kórfélögum og í 12Tónum. Um þessar mundir eru 10 ár liðin frá því að Steingrímur réðst sem organisti við Neskirkju og tók við stjórn kórsins og af því tilefni eru jólatónleikarnir í Neskirkju sérstaklega veglegir. Jólaóratorían er einstakt tónverk, snilldaverk sem er barmafullt af birtu, gleði og þakklæti og á svo sannarlega erindi til okkar allra.